Eftirlit með heilbrigði og hollustu innfluttra landbúnaðarvara

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:56:09 (4358)


[15:56]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóni Helgasyni fyrirspyrjanda um mikilvægi þess að þessi eftirlitsþáttur verði inntur af hendi með öllum þeim mannafla og öllum þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru. Ég gat um í svari mínu að sérfræðiþekkingin er til staðar. Starfsfólk Hollustuverndar ríkisins og tækjabúnaður gerir að verkum að við höfum alla burði til að standa vel að verki við þessa mikilvægu eftirlitsskyldu. Jafnframt kom fram og er rétt að árétta að samstarf og samráð þeirra aðila sem óhjákvæmilega koma þarna nærri, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sem og tollyfirvalda, er með býsna góðum hætti. Skipulag þessara mála er því í allgóðu lagi og ættum við að vera þokkalega undirbúin til að takast þessi auknu verkni á hendur. En ég vil þó árétta og taka undir með hv. þm. að vitaskuld verður að veita fé til og auka þann mannafla að breyttu breytanda og ég vænti þess að hv. Alþingi og hv. alþm. geti verið sammála og samstiga í þeim efnum.