Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 13:32:39 (4359)


[13:32]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Með frv. þessu er lagt til að settur verði á stofn Þróunarsjóður sjávarútvegsins er hafi það hlutverk að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi með endurskipulagningu í greininni. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn sinni þessu hlutverki sínu með fernum hætti.
    Í fyrsta lagi mun sjóðurinn greiða styrki til að fækka fiskiskipum.
    Í öðru lagi mun sjóðurinn kaupa fasteignir og framleiðslutæki fiskvinnslustöðva.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti stuðlað að sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja með því að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu í samvinnu við aðrar lánastofnanir.
    Í fjórða lagi mun sjóðurinn stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis.
    Fyrir mörgum árum síðan var ljóst að stærð fiskiskipaflotans er meiri en sem nemur afrakstursgetu fiskstofna. Þessi umframafkastageta hefur aukist í kjölfar þess að nauðsynlegt hefur reynst að draga verulega úr þorskafla síðustu árin. Öll fiskiskip og bátar sem stunda veiðar í atvinnuskyni þurfa nú sérstök veiðileyfi og ekkert nýtt skip fær leyfi nema sambærilegt skip hverfi úr flotanum í þess stað.
    Þá hefur leyfilegum heildarafla allra helstu nytjastofna verið skipt upp á milli einstakra skipa. Með þessu fyrirkomulagi voru sköpuð skilyrði fyrir einstaka útgerðarmenn til að takast á við að fækka fiskiskipum. Nokkur árangur hefur náðst en það hefur valdið nokkrum vonbrigðum að hann hafi ekki verið meiri en raun ber vitni. Ýmsar ástæður kunna þó að liggja hér að baki. Lög um stjórn fiskveiða hafa ávallt gilt til skamms tíma í senn og verið til stöðugrar endurskoðunar. Þetta hefur leitt til óvissu og í mörgum tilfellum dregið úr viðleitni manna til að sameina aflaheimildir á færri skip. Reglur um sóknarmark og frjálsræði í veiðum smábáta hafa haft áhrif til stækkunar flotans. Þá voru á árum áður, allt fram á miðjan síðasta áratug, verulegar takmarkanir á að endurnýja fiskiskip. Þegar þeim takmörkunum var síðan aflétt leiddi það til mikillar skriðu nýfjárfestinga í fiskiskipum.
    Loks má benda á að verð á fiskiskipum á heimsmarkaði hefur lækkað mjög vegna minnkandi fiskstofna. Þessi þróun hefur annars vegar leitt til þess að erfiðlega hefur gengið að selja notuð skip úr landi og hins vegar að íslenskum útvegsmönnum hefur gefist kostur á að kaupa nýleg erlend skip fyrir brot af smíðaverði.
    Ekki er hins vegar hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að þessi nýfjárfesting hefur skapað okkur ýmsa nýja möguleika. Má þar t.d. nefna þann árangur sem náðst hefur við veiðar á úthafskarfanum en forsenda þessara veiða er stór og öflug skip sem geta jafnframt unnið aflann um borð.
    Í 7. gr. frv. er kveðið á um það hvernig Þróunarsjóðurinn sinnir því hlutverki sínu að stuðla að fækkun fiskiskipa. Er gert ráð fyrir að sjóðurinn taki við því hlutverki sem Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins hefur haft í þessu skyni. Á sama hátt og gilt hefur í Hagræðingarsjóði greiðir Þróunarsjóður styrki þegar skipi sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni er fargað eða selt úr landi án þess þó að nýtt skip bætist í flotann í þess stað. Styrknum er ætlað að hvetja til þess að takmarkaðar aflaheimildir verði sameinaðar varanlega á færri skip og þannig stuðlað að því að betri rekstrargrundvöllur verði fyrir þau skip sem eftir verða. Er lagt til að styrkhlutfallið nemi 45% af húftryggingarmati skips, þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 75 millj. kr. fyrir hvert skip.
    Í lögunum um Hagræðingarsjóð er hlutfallið nú 30% af húftryggingarmati og hámarkið 50 millj. kr. á skip. Þá er gerð tillaga um það að samanlögð fjárhæð úreldingarstyrks og tjónabóta sem greiddar verða af tryggingafélögum vegna skipa sem verða fyrir tjóni án þess að viðgerð fari fram geti aldrei orðið hærri fjárhæð en sem nemur húftryggingarverðmæti skips. Með því móti er tryggt að staða þeirra eigenda fiskiskipa sem verða fyrir hlutatjóni verði aldrei betri en þeirra sem verða fyrir altjóni en sjóðurinn greiðir ekki styrki vegna skipa sem verða fyrir altjóni og eru að fullu bætt af tryggingafélögum.
    Frá því að Hagræðingarsjóður hóf starfsemi sína í upphafi árs 1991 hefur sjóðurinn greitt styrki vegna 41 skips en heildarfjárhæð styrkja og loforða nemur um 406 millj. kr. Sum þessara skipa hafa verið seld úr landi en öðrum eytt.
    Fiskvinnslufyrirtækin í landinu eru byggð upp fyrir mun meiri vinnslu en þar fer nú fram. Bæði hefur aflinn minnkað og eins hefur breytt ráðstöfun aflans leitt til þess að lægra hlutfall fer til vinnslu í landi. Vonir eru þó bundnar við að þessi þróun snúist við með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins og aflinn verði í meira mæli en áður unninn hér á landi. Engu að síður er afkastageta fiskvinnslunnar of mikil og hægt væri að bæta rekstrargrundvöll hennar ef stöðvunum fækkaði nokkuð frá því sem nú er.
    Ekki hafa verið neinar takmarkanir á því hverjir geta stundað fiskvinnslu ef undan er skilin starfsemi rækju- og skelfiskvinnslu. Allir þeir sem uppfylla tiltekin efnisleg skilyrði varðandi hreinlæti og búnað hafa fengið leyfi til að stunda fiskvinnslu. Að undanförnu hafa reglur þó verið hertar á þessu sviði til samræmis við þær kröfur sem verið er að setja í helstu markaðslöndum okkar.
    Í 9. og 10. gr. frv. er fjallað um það hlutverk sjóðsins að stuðla að fækkun fiskvinnslustöðva. Eru settar fram almennar leiðbeiningar í 9. gr. um það hvaða sjónarmiða eigi að gæta við kaupin. Rétt er að vekja athygli á að stjórn sjóðsins er ekki skylt á nokkurn hátt að kaupa allar þær stöðvar sem sjóðnum kunna að verða boðnar til kaups. Að þessu leyti eru verkefni sjóðsins varðandi fækkun fiskvinnslustöðva og fiskiskipa ólík. Sjóðnum er skylt að greiða úreldingarstyrki vegna skipa ef tilteknum skilyrðum er fullnægt. Við mat á kaupunum verður sjóðurinn að taka tillit til margra þátta og sérstaklega verður að hafa í huga að kaupin leiði til þess að rekstrargrundvöllur þeirra fiskvinnslustöðva sem halda áfram rekstri verði betri eftir en áður. En jafnframt er lagt til að heimild sjóðsins til að kaupa fiskvinnslustöðvar falli niður í árslok 1996. Aðalreglan verður sú að sjóðurinn kaupir fasteignir og framleiðslutæki fiskvinnslustöðva á markaðsverði. Þá er lagt til að sú regla verði jafnframt lögfest að sjóðurinn geti ekki greitt hærra verð en sem nemur 75% af fasteignamati fasteigna og 25% af verðmæti framleiðslutækja samkvæmt mati sjóðsins. Sjóðnum er einungis heimilt að kaupa fiskvinnslustöðvar sem uppfylla tiltekin skilyrði. Meginreglan er sú að viðkomandi fiskvinnslustöð hafi fengið útgefin fullgild vinnsluleyfi frá Fiskistofu á grundvelli laga nr. 93/1992. Er þetta skilyrði sett til að tryggja að takmarkaðir fjármunir sjóðsins verði nýttir til að kaupa út raunverulega afkastagetu, þ.e. stöðvar sem fullnægja reglum sem settar eru fyrir framleiðslu og útflutning á sjávarafurðum. Þó er gerð undantekning varðandi stöðvar sem hafa haft fullgilt vinnsluleyfi á árunum 1991 og 1992 enda hafi fasteignum viðkomandi stöðvar ekki verið ráðstafað varanlega til annarrar starfsemi.
    Með þessu móti er komið til móts við þau fyrirtæki sem hafa hagrætt í rekstri á undanförnum árum. Eignist sjóðurinn fasteignir og framleiðslutæki þarf að sjá til þess að endurráðstöfun þeirra leiði ekki til þess að afkastageta fiskvinnslunnar í landi aukist. Er því lagt til að einungis sé heimilt að ráðstafa þessum eignum til óskyldrar starfsemi og að þeirri kvöð verði þinglýst á eignirnar að þær verði ekki framar nýttar til fiskvinnslu hér á landi.
    Í 16. gr. er lagt til að sjóðurinn þurfi ekki að greiða fasteignagjöld af þeim fasteignum sem hann kann að eignast. Þessi tillaga er eðlileg þar sem engin starfsemi mun fara fram í þeim fasteignum sem sjóðurinn eignast. Ef eigninni yrði hins vegar ráðstafað til annarra nota yrðu gjöldin lögð á að nýju.
    Til að styrkja það hlutverk Þróunarsjóðs að stuðla að fækkun fiskiskipa og fiskvinnslustöðva er lagt til að sjóðnum verði jafnframt heimilt að stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Á undanförnum árum hefur í vaxandi mæli verið leitað eftir þátttöku íslenskra aðila í slíkum verkefnum.
    Í fyrsta lagi stafar það af því að Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu á þessu sviði og hægt er að miðla til þeirra þjóða sem eru að byggja upp sjávarútveg. Í öðru lagi hefur minnkandi afli á Íslandsmiðum hvatt menn til að taka þátt í slíkum verkefnum til að nýta þau framleiðslutæki sem til eru í landinu. Ýmsar hindranir hafa þó staðið í vegi þeirra sem sýnt hafa slíkri starfsemi áhuga. Stafar það fyrst og fremst af fjárskorti þar sem langur tími líður frá því að farið er að vinna að slíku verkefni og þar til það fer að skila arði. Því er lagt til að Þróunarsjóði verði heimilt að taka þátt í slíkum verkefnum með tvennum hætti. Annars vegar með því að ráðstafa þeim framleiðslutækjum sem sjóðurinn eignast til slíkra verkefna og hins vegar með beinni þátttöku eða veitingu styrkja eða ábyrgðar til þeirra.
    Eignir og skuldbindingar Þróunarsjóðs koma frá þremur sjóðum. Í fyrsta lagi fær sjóðurinn allar peningalegar eignir Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins eins og þær verða þegar lögin koma til framkvæmda. Er áætlað að eignir Hagræðingarsjóðs, sem lagður verður niður verði frv. þetta að lögum, hafi numið um 580 millj. kr. 31. des. 1993.
    Í öðru lagi tekur Þróunarsjóður við eignum og skuldum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja eins og þær verða við gildistöku laganna að frádregnum lánum til deildarinnar að upphæð 950 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt miðað við gengi 31. des. 1997. Mun ríkissjóður yfirtaka þessi lán.
    Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri þann 31. ágúst 1993 er áætlað að eignir deildarinnar vegna lána sjávarútvegsfyrirtækja hafi numið 6.919 millj. kr. Höfðu þá tæpar 1.242 millj. kr. verið lagðar á sérstakan afskriftarreikning útlána sem hugsaður er til að mæta þeirri áhættu sem fylgir útlánum. Á sama tíma voru skuldir metnar á 8.479 millj. kr. Neikvætt eigið fé var því áætlað 1.578 millj. kr. á þeim tíma.
    Í þriðja lagi yfirtekur Þróunarsjóður allar eignir og skuldbindingar hlutafjárdeildar Byggðastofnunar miðað við stöðu efnahagsreiknings við gildistöku laga um Þróunarsjóð. Hinn 31. ágúst sl. var áætlað bókfært verð hlutabréfa í eigu deildarinnar um 500 millj. kr. en bókfært virði hlutdeildarskírteina 1.450 millj. kr. Hluti þessara skírteina er með ríkisábyrgð.
    Endanlegar skuldbindingar hlutafjárdeildar umfram eignir sem Þróunarsjóður yfirtekur ráðast af endanlegu söluverðmæti hlutabréfanna. Má gera ráð fyrir að hér geti verið um 350 millj. kr. að ræða miðað við áætlaða stöðu efnahagsreiknings hlutafjárdeildar 31. ágúst sl. og áætlað söluvirði hlutabréfa í eigu sjóðsins.
    Tekjustofnar Þróunarsjóðs verða þrír. Í fyrsta lagi verður lagt gjald á eigendur fiskiskipa 10 brúttólestir og stærri með sama hætti og gert hefur verið í Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. Er áætlað að gjaldið skili sjóðnum um 80 millj. í árlegar tekjur. Í öðru lagi verður lagt gjald á fasteignir sem nýttar eru til fiskvinnslu. Er miðað við að gjaldið skili sjóðnum sömu fjárhæð og það gjald sem lagt er á fiskiskip eða um 80 millj. kr. Í þriðja lagi verður lagt gjald á úthlutað aflamark frá og með því fiskveiðiári sem hefst þann 1. sept. 1996. Gjaldið mun nema 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest. Gjaldið mun skila sjóðnum um 417 millj. kr. miðað við úthlutaðar aflaheimildir á þessu fiskveiðiári. Hins vegar er rétt að vekja athygli á að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs verður nú varið endurgjaldslaust til fiskiskipaflotans í samræmi við frv. til breytinga á gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Hér er því ekki um nýja gjaldtöku að ræða á sjávarútveginn í heild þar sem gert er ráð fyrir að sala aflaheimilda Hagræðingarsjóðs standi straum að hluta af rekstrarkostnaði Hafrannsóknastofnunar. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að aflaheimildir Hagræðingarsjóðs hafa að undanförnu verið nýttar til að jafna skerðingu aflaheimilda milli fiskiskipa. Það ákvæði verður nú gert varanlegt miðað við framkomið frv. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður láni Þróunarsjóði 4.000 millj. kr. og komi lánið til útgreiðslu á árinu 1994 og 1995. Sjóðurinn endurgreiðir lánið með árlegum jöfnum greiðslum vaxta og verðbóta á árunum 1997 til 2005 eða á níu árum. Enn fremur er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti tekið lán til að fjármagna misræmi á milli innborgana skuldabréfa í eigu sjóðsins og afborgana og vaxta af lánum sem sjóðurinn á að standa skil á.
    Þær upplýsingar sem fyrir liggja um fjárhagsstöðu atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar byggjast á upplýsingum frá stofnuninni sjálfri. Á óvissutímum getur mat af þessu tagi verið vandasamt.
    Í umræðum um byggðamál á Alþingi sl. fimmtudag greindi formaður stjórnar Byggðastofnunar frá því í mati sínu að við blasti að deildin mundi tapa a.m.k. 5 milljörðum kr. Án frekari skoðunar get ég ekki á þessu stigi lagt dóm á þetta álit. Ljóst er þó að slík upphæð tapast varla nema meginþorri allra sjávarútvegsfyrirtækja í landinu fara á höfuðið. Þrátt fyrir miklar þrengingar í sjávarútvegi eins og sakir standa er það of mikil svartsýni um framtíð landsins að minni hyggju. En vegna þess ótta sem fram hefur komið hjá formanni Byggðastofnunar um margfalt meira útlánatap en gert hefur verið ráð fyrir fram til þessa hef ég skrifað Ríkisendurskoðun bréf þar sem farið er fram á að gert verði nýtt mat á stöðu atvinnutryggingardeildar. Óþarfi er að taka það fram að verulegar breytingar á fyrirliggjandi mati á fjárhagsstöðu deildarinnar geta raskað þeim forsendum sem frv. er byggt á. Ég geri ráð fyrir því að hv. sjútvn. fái nýtt mat Ríkisendurskoðunar í hendur enda er það nauðsynlegt til áframhaldandi umfjöllunar um málið.
    Skiptar skoðanir hafa vissulega komið fram um það hvort réttlætanlegt væri að sjóður sem sjávarútvegurinn ber ábyrgð á yfirtaki eignir og skuldir annarra sjóða eins og atvinnutryggingardeildar og Hlutafjársjóðs. Á hinn bóginn hefur yfirfærsla Hagræðingarsjóðs ekki verið gagnrýnd með sama hætti enda áhættan allt önnur. Á það er að líta í þessu sambandi að ríkissjóður yfirtekur 950 millj. kr. af lánum atvinnutryggingardeildar. Gjaldtaka í formi sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs fellur niður með öllu í þrjú ár en breytist eftir það í fast gjald á aflaheimildir.
    Munurinn er fyrst og fremst fólginn í því að eftir breytinguna fer gjaldtakan inn í sjávarútveginn aftur í gegnum Þróunarsjóðinn í stað þess að fara til Hafrannsóknastofnunar. Í heild lækka álögur á atvinnugreinina miðað við þær forsendur sem frv. byggist á.
    Ef litið er á ávinninginn frá þröngu sjónarhorni kemur þarna á móti að engin gjaldtaka verður þrjú næstu árin og á núvirði sparast sjávarútveginum um 1.470 millj. kr. með því móti miðað við 7% ávöxtunarkröfu. Á þennan þrönga mælikvarða hagnast sjávarútvegurinn því um tæpan hálfan milljarð króna með stofnun Þróunarsjóðs frá því sem orðið hefði að óbreyttum lögum.
    Við getum einnig horft á þessar tölur í víðara samhengi og vaxtafært þær skuldbindingar sem Þróunarsjóðurinn tekur yfir frá atvinnutryggingardeild og Hlutafjársjóði. Miðað við 7% vexti mun sjóðurinn þannig hafa greitt um 3.600 millj. kr. árið 2009 af skuldbindinum sem ella hefðu fallið á ríkissjóð. Til þess að standa undir þeim skuldbindingum þarf 180 millj. kr. árlega til ársins 2005. Gjöldin sem áður runnu í ríkissjóð en renna nú inn í Þróunarsjóðinn geta orðið allt að 525 millj. kr. að meðatali á ári. Þannig renna inn í sjávarútveginn á nýjan leik á hverju ári allt að 345 millj. kr. sem farið hefðu til Hafrannsóknastofnunar að óbreyttum lögum. En eftir þessar breytingar kostar ríkissjóður hafrannsóknir að fullu. Þessi upphæð verður vitaskuld eitthvað minni miðað við skertar aflaheimildir.
    Þessar tölur sýna með ótvíræðum hætti hvernig sem á málið er litið að þrátt fyrir þær skuldbindingar sem sjóðurinn tekur yfir er ekki verið að leggja auknar byrðar á sjávarútveginn frá því sem gildandi lög mæla fyrir um.
    Ýmsum finnst að það sé ekki hreinræktuð frjálshyggja að atvinnugreinin skuli með sameiginlegri ábyrgð takast á við endurskipulagningarverkefni af því tagi sem ráð er fyrir gert í þessu frv. ( ÓÞÞ: Hverjir kvarta undan því?) Það má vissulega til sanns vegar færa en almennt er ég þeirrar skoðunar að ábyrgð á rekstri eigi fyrst og fremst að hvíla á herðum stjórnenda fyrirtækjanna. En innan ákveðinna marka getur verið bæði réttlætanlegt og skynsamlegt að takast sameiginlega á við ákveðin úrlausnarefni. Sjávarútvegurinn gengur nú í gegnum aðlögun að nýjum aðstæðum. Þróunarsjóðurinn á að geta komið til aðstoðar og hjálpar í mörgum tilvikum þar sem sjávarútvegsfyrirtækjum er um megn að komast í gegnum tímabundna erfiðleika af eigin rammleik. Víða á landsbyggðinni eru einstök sjávarútvegsfyrirtæki og heilu byggðarlögin í miklum vanda vegna minnkandi aflaheimilda. Þróunarsjóðinn er unnt að nota til þess að styrkja nauðsynlega, fjárhagslega endurskipulagningu sjávarútvegsfyrirtækja sem nú ganga í gegnum tímabundna erfiðleika vegna aflasamdráttar, en nú blasa augljóslega við ný og vandasöm verkefni vegna takmarkaðra þorskveiðiheimilda. Það er raunverulegur vandi sem við stöndum frammi fyrir í mörgum byggðum. Að minni hyggju eigum við því ekki að hika við að grípa til félagslegra aðgerða af þessu tagi. Þeirra er nú þörf. Sjávarútvegurinn er meginuppspretta allrar verðmætasköpunar í landinu. Hann hlýtur því þegar til lengri tíma er litið að standa sjálfur undir slíkum aðgerðum. Allt annað er í raun og veru óraunsæi og til þess að slá ryki í augu fólks.
    Frú forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir höfuðatriðum frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem hér liggur fyrir og ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.