Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 14:07:02 (4361)


[14:07]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er í raun nærtækt að taka upp þráðinn þar sem síðasti ræðumaður sleppti honum. Það er alveg ljóst að hér er á ferðinni enn eitt málið þar sem ósamkomulag stjórnarflokkanna hefur í raun og veru staðið heilli atvinnugrein fyrir þrifum. Ég held að það hafi orðið allri þjóðinni ljóst með mjög skýrum hætti hvernig þessi ríkisstjórn er á sig komin hvað varðar einhverja efnislega samstöðu um landbúnaðarmál. Í reynd má segja að sjávarútvegurinn hafi að mestu leyti goldið sambærilegs ástands í stjórnarherbúðunum, en eins og kunnugt er hafa sjávarútvegsmálin verið meira og minna deiluefni eða þá tilefni hrossakaupa milli stjórnarflokkanna alveg frá því að stjórnin settist að völdum.
    Þetta frv. vekur að mínu mati upp mun fleiri spurningar heldur en það svarar. Það er fjölmargt

mjög óljóst við það hvernig þessi sjóður á að starfa og hvaða tilgangi hann á í reynd að þjóna, hvernig hann á að ná fram þeim markmiðum sem honum eru sett, t.d. í 1. gr. frv. Ég heyrði a.m.k. ekki í ræðu hæstv. sjútvrh. fara mikið fyrir útskýringum á því hvernig sjóðurinn eigi að stuðla að skipulagsbreytingum í sjávarútvegi. En það segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Jafnframt getur sjóðurinn stuðlað að skipulagsbreytingum í sjávarútvegi, í samvinnu við lánastofnanir, enda leiði slík endurskipulagning til verulegrar hagræðingar.`` Hún þarf að leiða til verulegrar hagræðingar. Það er ekki nóg að hún leiði til venjulegrar eða minni háttar hagræðingar heldur skal hún vera veruleg. Og mér er spurn, hvernig hyggst hæstv. sjútvrh. meta þetta?
    Hér á að fara að setja á fót, hæstv. forseti, einhvern mesta stórsjóð Íslandssögunnar og sennilega þann stærsta. Ég býst við að efnahagsreikningur þessa sjóðs verði vel á annan tug milljarða kr. þegar hann lítur dagsins ljós. Það væri fróðlegt í öðru lagi ef hæstv. sjútvrh. vildi gefa okkur, ef hann mætti vera að því vegna anna í samræðum við hv. þm. Árna Johnsen, að hæstv. sjútvrh. gæfi okkur hér á eftir upplýsingar um það hvað er áætlað að efnahagsreikningur þessa nýja stórsjóðs verði umfangsmikill þegar hann lítur dagsins ljós. Þegar lagðar hafa verið saman þær reytur sem þar á að sameina sýnist mér í fljótu bragði að það hljóti að verða efnahagsreikningur upp á eitthvað á annan tug milljarða kr. og munar um minna. Hverfa þá aðrir sjóðakóngar í skuggann af þeim núv. hæstv. ráðherrum og hafa þeir þó mikið talað um sjóðasukk eins og kunnugt er.
    Ég vil einnig gagnrýna mjög harðlega hvernig stjórn þessa væntanlega stórsjóðs Íslands er fyrirhuguð, en það er náttúrlega í anda þeirra lýðræðishefða og valddreifingarhugmynda sem núv. hæstv. ríkisstjórn gengur fyrir að stjórn sjóðsins á að skipa þannig að samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi tilnefni þar einn mann en hina tvo handvelji sjútvrh. án tilnefningar og skipi jafnframt formann stjórnar. Þetta er náttúrlega lýðræðislegt og mikil valddreifing í því fólgin að stærsta stórsjóði sögunnar eigi að velja stjórn með þessum hætti. Það er ámælisvert og þegar um svona mikilvægt verkefni er að ræða, ef menn vilja þá taka það alvarlega á annað borð að hér sé verið að setja upp sjóð sem eigi að sinna einhverjum verkefnum sem máli skipta, þá ætti auðvitað að standa öðruvísi að því að setja honum stjórn, annaðhvort þingkjörna stjórn eða stjórn sem endurspeglað gæti fleiri viðhorf og haft meiri breidd í sér fólgna.
    Mjög margt vekur líka spurningar í sambandi við áform um lántökur og nýtingu þeirra á næstu árum. Það hlýtur að leita á mann sú spurning, ef menn telja rétt og skynsamlegt að taka 4.000 millj. kr. að láni á næstu mánuðum og ráðstafa þeim til sjávarútvegsins, til hvaða verkefna sé brýnast að þær fari. Ég hef miklar efasemdir um að þær verði íslenskum sjávarútvegi mest til góðs t.d. með því að kaupa upp aflóga fiskvinnsluhús. Ég sé ekki í sjálfu sér hverju sjávarútvegurinn er nær þó að fiskvinnsluhús, sem hvort sem eru eru tóm og yfirleitt toppveðsett hjá einhverjum sjóðum og bönkum, séu leyst undan greininni. Ef hins vegar sambærilegir fjármunir rynnu til raunverulegra hagræðingarverkefna, uppbyggingar og nýsköpunar í greininni, þá mundi muna um þessa peninga. En það er ekki ætlunin. Það er í raun og veru alls ekki ætlunin. Það held ég að sé langmesta skekkjan í þessari hugsun að hér er alls ekki þróunarsjóður, uppbyggingarsjóður, nýsköpunarsjóður á ferðinni. Hér er á ferðinni samdráttarsjóður fyrir sjávarútveginn. Það á sérstaklega að bera fé á menn í greininni til þess að draga saman, minnka umsvifin. Er það endilega það sem mest þörfin er á? Ég spyr.
    Það er því miður ekki svo, hv. þm., að þetta sé úreldingarsjóður á krötum heldur á þetta að vera úreldingarsjóður á fiskiskipum og fiskvinnslustöðum. Ég tel að langjákvæðasti efnisþáttur þessa máls sé sá sem lýtur að því að í frv. er komið ákvæði þar sem sjóðnum er heimilað að veita ábyrgðir, lán og styrki til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis. Þennan þátt málsins er ég að sjálfsögðu tilbúinn til að styðja, en ég mundi vilja gera betur og skilgreina miklu nánar og útfæra með hvaða hætti sjóðurinn getur komið miklu sterkar inn í raunverulega uppbyggingu, nýsköpun og þróun í greininni. Það gerist ekki með því að úrelda gömul fiskvinnsluhús.
    Ég held líka að sú hugsun sem þetta mál gengur í raun út á, að flotinn í heild sinni sé of stór og það þurfi að minnka hann með einhverjum ráðum og bara einhvern hluta hans, sé stórhættuleg. Og meðan það er ekki skilgreint við hvaða afköst í íslenska fiskiskipaflotanum menn ætla að miða, hvaða hluta flotans menn vilja minnka o.s.frv., þá held ég að þetta frv. sé á villigötum. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. um hugmyndir hans í þeim efnum. Telur hæstv. sjútvrh. að það sé alveg sama hvar tonn verða tekin út úr íslenska fiskiskipaflotanum á næstu árum? Er hæstv. sjútvrh. að mæla með því t.d. að það verði haldið áfram að minnka loðnuflotann og kaupa þess vegna togskip í staðinn? Út á slíkt getur þetta frv. gengið ef reglum verður ekki breytt. Er það heppileg þróun þegar við stöndum frammi fyrir því ár eftir ár eftir ár að við náum ekki tilskildum aflaheimildum sem nótaskipin hafa, hvorki loðnu né síld? Er þá hyggilegt að vera með kerfi í gangi sem getur verkað hvetjandi til þess m.a. að minnka þennan hluta flotans?
    Ég held að það sé rugl. Ef menn eru þeirrar skoðunar að afköstin séu of mikil t.d. í togskipaflotanum, stærri eða minni hluta hans, þá það. En þá eiga menn líka að skilgreina það og hvaða markmið menn ætla að setja sér í því. Ætla menn þá að minnka togaraflotann um 10 eða 20% eða hvað? Eða ætla menn bara tilviljanakennt að úrelda skip og láta það ráðast hvar sú minnkun kemur niður, hvar það er þá sem sóknargetan minnkar, hvort það er í trillum, vertíðarbátum, nótaskipum, togurum, frystiskipum eða hvað? Ég held að þetta séu ekki mjög skilvirk vinnubrögð.
    Það er líka nauðsynlegt að hyggja að því að þó svo að vissulega hafi verkefnin dregist saman innan landhelginnar, og á það þó sérstaklega við um bolfiskveiðimöguleikana eins og þeir eru nú taldir vera og enginn deilir um að það hefur skapað mikinn vanda, t.d. fyrir þann hluta flotans sem mest var háður þorskveiðum, hefur ýmislegt annað gerst í staðinn. Ég tel að menn eigi við núverandi aðstæður í íslenskum sjávarútvegi að endurmeta þessa úreldingarhugmyndafræði. Ég er ekki að segja að það eigi að kasta henni fyrir róða og ég er alveg tilbúinn til að skoða að á einhverju formi verði áfram við lýði sjóður af þessu tagi sem geti komið inn í það að hafa áhrif á afköst flotans, en það á að vera skilgreint með hvaða hætti hann á að vinna og gagnvart hvaða hlutum flotans menn eru að beita kröftunum.
    Við skulum horfa á það að með minni veiði þarf að einhverju leyti stærri flota til þess að ná því magni sem þó er talið óhætt að ná og þó að það sé óæskileg þróun að það dragi t.d. úr veiðinni á úthaldsdag, þá er ekki þar með sagt að menn eigi að sleppa því að reyna að ná þeim afla sem þó er talið leyfilegt að taka.
    Í öðru lagi er ljóst að það er hægt að ná þessu að nokkru leyti til baka með bættri meðferð aflans þó minni sé. Það hefur sannanlega gerst að minni bolfiskafli hefur komið að landi í jafnstórum flota og áður en í verðmætara formi. Það skapast vissir möguleikar til að nýta betur það magn sem má taka og í því sambandi getur nokkur umframafkastageta í flotanum komið sér vel. Hún getur t.d. auðveldað mönnum að dreifa hráefni til vinnslunnar jafnt og þétt og í samræmi við þarfir vinnslunnar.
    Í þriðja lagi er svo alveg ljóst að þessi stóri floti hefur með minnkandi verkefnum, t.d. við hefðbundnar bolfiskveiðar, leitað í önnur verkefni. Menn hafa t.d. stóraukið sókn í rækju á síðustu 10 árum og hún er núna önnur mikilvægasta útflutningsgreinin í sjávarútvegi. Og ef menn hefðu ekki átt til þess skip, þá hefði það ekki gerst. Ef menn hefðu úrelt afkastagetuna í flotanum jafnharðan og hún féll til, umframafkastagetuna eins og það heitir á fínu máli, á hvaða skipum hefðu menn þá átt að sækja rækju? Nú liggur sú staða fyrir að úthafsrækjukvótinn hefur ekki verið fullnýttur ár eftir ár. Þurfum við ekki að fara yfir þessa hluti þegar það blasir við okkur að við erum með nokkra mikilvæga nytjastofna sem þrátt fyrir allt hafa ekki verið fullnýttir miðað við útgefnar veiðiheimildir? Hvað segir það okkur um stöðu þessara mála að loðna, síld, rækja, ýsa, þessir stofnar t.d. hafa ekki verið nýttir að fullu?
    Í fimmta lagi vil ég svo minna á þau verkefni sem þessi floti hefur skapað sér utan landhelginnar og munar um minna. Þannig hefur það að nokkru leyti gerst að menn hafa brotið sér leið og fundið sér ný verkefni og fært þjóðarbúinu tekjur upp á 2--4 milljarða kr. með veiðum utan landhelgi. Það mundu menn sömuleiðis ekki gera ef afkastageta flotans væri í þrengsta skilningi sniðin eingöngu við það sem Íslandsmið innan 200 mílna gæfu af sér á hverjum tíma. Að öllum þessum hlutum þarf því að mínu mati að hyggja.
    Ég tel að allt of mörgum grundvallarspurningum af þessu tagi sé ósvarað til þess að afgreiða málið á þessu formi. Ég tel líka að það séu tæknilegir ágallar á málinu, burt séð frá afstöðu til þess. Ég bendi t.d. á að það er næsta hlægilegt að vera að tala um 20. febr. 1994 í frv. þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi Þróunarsjóði til fé á árinu 1993. Er það ekki fullseint í rassinn gripið, hv. þm.? Það stendur í 3. gr. að ríkissjóður skuli leggja sjóðnum til fé að láni, jafnvirði 4.000 millj. kr., og að hluta til á að nota þá peninga á árinu 1993. Það verður varla úr þessu.
    Það stærsta af öllu sem hér er á ferðinni eru kannski ákvæði 6. gr. um auðlindagjald eða veiðileyfagjald eða hvað við viljum kalla það. Það er alveg ljóst að stjórnarflokkarnir leggja hvor sinn skilninginn í það ákvæði. Talsmenn Alþfl. hafa miklast af því að með því séu þeir að innleiða veiðileyfagjald við stjórn fiskveiða. Það komi að vísu ekki á fyrr en á árinu 1996 en það sé þeirra skilningur, þeirra afstaða að með því sé þessi gjaldtaka að hefjast. Sjálfstfl. reynir auðvitað að bera á móti því og þannig er þetta eins og með fleira að stjórnarflokkarnir koma sér saman um að vera ósammála og sitja. Annar flokkurinn telur sig vera að koma á auðlindaskatti en hinn ekki. Auðvitað eru þetta ekki frambærileg vinnubrögð.
    Mjög margar efasemdir vakna um gjaldtöku af þessu tagi og hvort það sé yfirleitt mjög skynsamleg leið. Það er t.d. ljóst að það mun koma upp nokkuð sérkennileg staða þegar farið verður að leggja þetta gjald á og þegar sjóðurinn, sem yfirtekið hefur skuldbindingar sjóða vegna vanda greinarinnar á fyrri árum, verður farinn að skattleggja sjávarútvegsfyrirtæki framtíðarinnar til að bera þann bagga. Með því er verið að færa þetta til á milli fyrirtækja og þegar fiskvinnslan kemur inn í, þá koma þar að málinu alls óskyld fyrirtæki í öðrum rekstri en verið hefur. Mér finnst engin furða þó margir talsmanna sjútvn. hafi um þetta mál miklar efasemdir og það jafnvel grundvallarefasemdir eins og ég hef hér lýst.
    Ég held að sá þáttur sem snýr að úreldingu fiskvinnsluhúsanna sé illskiljanlegur. Ég á afar erfitt með að sjá að þetta gangi upp eins og þetta er sett fram í frv. og þess þá heldur að það verði til mikils gagns.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð, enda tími minn senn á þrotum. Ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég er að sjálfsögðu tilbúinn til þess eins og væntanlega aðrar nefndarmenn í sjútvn. að leggja vinnu í það að skoða þetta mál, en ég get ekki sætt mig við að afgreiða það eins og það kemur frá hæstv. ríkisstjórn og gæti ekki stutt það í óbreyttri mynd. Reyndar hef ég miklar efasemdir um að málið í heild sinni byggi á réttri hugmyndafræði gagnvart þeim erfiðleikum sem íslenskur sjávarútvegur á við að glíma. Það mun láta nærri að sjávarútvegurinn skuldi um 110 milljarða kr. og ég spyr mig oft að því: Hvernig í ósköpunum á greinin að hafa nokkra minnstu möguleika til að ráða við þær

skuldir, bera þær öðruvísi en með því að stórauka tekjur sínar? En útflutningstekjur greinarinnar verða á þessu ári sjálfsagt 70--80 milljarðar kr. Skuldabagginn er með öðrum orðum kominn þetta langt fram úr heils árs brúttóframleiðsluverðmæti greinarinnar og það gefur alveg auga leið að slík hlutföll eru ekki auðveld viðfangs. Þess vegna held ég að sú samdráttarhugsun sem hér er á ferðinni sé að mörgu leyti tímaskekkja og röng. Það sem okkur skiptir mestu máli, bæði fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið, er að reyna með öllum tiltækum ráðum að auka tekjur greinarinnar. Ég vildi þess vegna sjá lagðar allt aðrar áherslur gagnvart ráðstöfun þessara fjármuna heldur en hér er gert, a.m.k. verulegum hluta þeirra. Ef við værum hér að tala um að taka t.d. 2.000 millj. af þessum 4.000 á næstu 2--3 árum og setja þau beint með pósitífum hætti í uppbyggingarverkefni, í raunverulega nýsköpun, í raunverulega þróun, þá væri málið öðruvísi vaxið. En svo er ekki heldur er hér á ferðinni tiltölulega mjög einhliða áhersla á samdrátt bæði í veiðum og vinnslu. Hitt sem að vísu er nefnt að sjóðurinn geti stuðlað að skipulagsbreytingum og veitt ábyrgðir, lán og styrki til þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis er mjög lítið útskýrt og það fyrra í raun og veru alls ekki neitt.
    Ég tel þess vegna að hæstv. sjútvrh. verði að gera betur en hann gerði í stuttri framsöguræðu ef hann ætlar að fá menn til að taka trú á þá stefnu ríkisstjórnarinnar sem að baki þessu máli liggur. Þetta frv. er í sama tómarúminu, hangir í sama lausa loftinu og önnur mál frá hæstv. ríkisstjórn og snúa að sjávarútveginum. Stjórninni hefur með öllu mistekist að ná saman um einhverja heildstæða sjávarútvegsstefnu þó að það standi í stjórnarsáttmála bæði frá því í maíbyrjun 1991 og eins í hinni merku hvítu bók sem gefin var út um haustið það ár. Á báðum stöðunum er talað digurbarkalega um að eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar verði að móta heildstæða sjávarútvegsstefnu. Hún er ekki á ferðinni hér, hún er ekki á ferðinni í því frv. sem nú er í sjútvn. um stjórn fiskveiða og þá stefnu er yfirleitt hvergi að finna hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú er svo komið í lífi þessarar hæstv. ríkisstjórnar að hún er orðin sammála um eitt og aðeins eitt og það er að sitja eins og kunnugt er. Þau merku tíðindi urðu eftir hinn nafntogaða fund forustumanna stjórnarflokkanna að þeir náðu saman um eitt atriði, sem þjóðinni fannst að vísu mjög rökrétt og þjóðin skildi, það var að þeir vildu sitja áfram. Um það gátu þeir orðið sammála, hæstv. ráðherrar Jón Baldvin Hannibalsson og Davíð Oddsson. Annað ekki.