Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:02:51 (4366)


[15:02]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. vita þá hefur þetta mál átt sér langan aðdraganda. Það hefur lengi verið til umfjöllunar innan þessarar sérstöku nefndar sem skipuð var af hálfu stjórnarflokkanna. Málið hefur verið víða kynnt og haft náið samráð við marga aðila, þar á meðal hagsmunaaðila og sjávarútvegsnefndir þingsins að sjálfsögðu. Meira að segja má bæta því við að málið hefur á þessum undirbúningstíma verið kynnt á almennum opnum fundum með fulltrúum hagsmunaaðila og starfsfólki í greinunum allmörgu. Þannig að ekki hefur nú skort á kynninguna.
    Að því er varðar hvaða nafn eigi að gefa þessu þróunargjaldi sem er hluti þessa máls þá legg ég ekkert upp úr orðhengilshætti um það. Ég vék að því sem segir í skýrslu nefndarinnar sjálfrar sem lagði grundvöllinn að þessum hugmyndum og tillögum að hér væri um að ræða málamiðlun milli stjórnarflokkanna um svokallað veiðileyfagjald. Þetta er ekki eiginlegt veiðileyfagjald og þetta er ekki auðlindaskattur, nei. Þetta er einfaldlega gjaldtaka sem rennur í millifærslusjóð í þágu greinarinnar sjálfrar.