Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:34:45 (4371)


[15:34]

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins til glöggvunar fyrir hv. þm. sem hér var að ljúka máli sínu þar sem hann sagði að þetta frv. væri sett fram m.a. til þess að bæta úr þeim fortíðarvanda sem verið hefði þegar núv. ríkisstjórn kom til valda, þá er rétt að draga það fram að að dómi hlutlausra aðila hafði rekstrarafkoman í iðnaði og sjávarútvegi ekki verið svo góð í áratugi eins og hún var þegar stjórnarskiptin fóru fram. Þá var hagnaður í sjávarútvegi rétt tæp 5%. Það hefur verið á árinu sem var að líða, ég man ekki hvort það var 6 eða 8% halli í sjávarútvegi og samkvæmt áliti Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1994 er spáð að hallinn í fiskveiðum verði hvorki meiri né minni en 6%. Þetta er kjarni málsins, hv. þm. En menn eru eilíft í fortíðinni í staðinn fyrir að reyna að horfa til framtíðar og reyna að glöggva sig á því hvernig við ætlum að starfa til framtíðar litið enda er því miður einn aðalorsakavaldur þess vanda sem við er að fást við núna stefnuleysið í greininni. Að mönnum skuli ekki hafa fyrr tekist að koma saman frv. um stjórnun fiskveiða. Þetta er einn aðalvandinn. Sjútvrh. kemur æ ofan í æ og ég veit að það er að kröfum samráðherrans fyrst og fremst þar sem krafist er að þeir sem í greininni starfa hagræði og bæti reksturinn. Engin atvinnugrein á Íslandi hefur hagrætt meira í starfsemi sinni en sjávarútvegurinn. Endalaust eru kröfurnar gerðar án þess að nokkur tilraun sé gerð til þess að sýna þeim sem í greininni standa fram á það hver starfsskilyrðin eigi að vera. Þetta er óviðunandi.