Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:39:03 (4373)


[15:39]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get komið með það síðar í þessum umræðum og þá líka einnig í nefndinni, dregið fram þær tölur sem hægt er að byggja á um afkomu í greininni en hér stendur, hv. þm., í fréttabréfi frá aðalfundi Sambands fiskvinnslustöðva á fyrsta blaði:
    ,,Aðalfundur Sambands fiskvinnslustöðva telur brýnasta hagsmunamál íslenskrar fiskvinnslu að áframhald verði á þeim stöðugleika í efnahagslífinu sem náðist í ársbyrjun 1990.``
    Þetta er málið og á þessu byggðist bætt afkoma í greininni. Hún var af þessu. Það er auðvitað algjört rugl sem hv. þm. hélt fram um afkomu í greininni. Það er vitað mál hvernig hún hefur þróast. Því miður, segi ég.
    Það er einnig mjög alvarlegur misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur því fram að ég sé talsmaður þess að ekki skuli hagræða. Ég veit að það er hægt að hagræða og það hefur verið hagrætt. Það dró ég fram. En ég segi að það er takmarkað hvað hægt er að setja þessar kröfur stíft fram um endalaust aukna hagræðingu og meiri arðsemi án þess að menn fái að vita sem í greininni starfa hvert rekstrarumhverfið á að vera þannig að menn geti hagrætt, þeir sem vilja það á annað borð. Það er þetta sem ég er að leggja áherslu á, hv. þm., og ætti hverjum manni að vera ljóst.