Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:07:16 (4383)


[16:07]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það hefur ekki verið dregin nein dul á það að frv. felur í sér millifærslu. Það er félagsleg aðgerð til þess að takast á við ákveðinn aðlögunarvanda í sjávarútveginum. Ég tók það mjög skýrt fram í minni upphafsræðu og benti á að einmitt út frá þeim sjónarmiðum hefði komið fram gagnrýni á frv. Ég tel hins vegar að þessi aðlögunarvandi sé það mikill að það sé réttlætanlegt innan þeirra þröngu marka sem þetta frv. gerir ráð fyrir að taka með félagslegum hætti á þeim verkefnum. En aðalatriðið er þetta að ef við ætlum að vinna okkur út úr vandanum, þá þurfum við að nýta hverja krónu sem fjárfest er í sjávarútveginum betur en við höfum gert. Og starfsemi þessa sjóðs miðar að því marki og það er gamaldags sjónarmið að hafna því að við þurfum að nýta sem best hverja krónu sem fjárfest er í þessari atvinnugrein eins og öðrum vegna þess að með öðrum hætti en að nýta þessa fjárfestingu sem best sköpum við ekki þann arð sem er forsenda fyrir nýjum verkum, nýrri fjárfestigu í vöruþróun og markaðssetningu og við sköpum ekki þann arð sem er forsenda fyrir því að bæta lífskjörin í landinu. Það er gamaldags sjónarmið að horfa fram hjá þessum staðreyndum og ég átta mig hreinlega ekki á því hvers vegna hv. 4. þm. Norðurl. e. er að mæla fyrir slíkum sjónarmiðum eftir að til að mynda formaður Alþb. hefur lýst allt öðrum hugmyndum og veifað framsækinni útflutningsstefnu sem vakti þó nokkra athygli. Hér talar varaformaðurinn á allt öðrum nótum eða í allt öðrum tíma en formaður Alþb. gerði til að mynda þegar þessi útflutningsstefna Alþb. var kynnt.