Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:09:46 (4384)


[16:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það voru þau orð hæstv. sjútvrh. að þetta frv. væri brýnt sem varð til þess að ég bað hér um orðið. Í nóvember 1992 var það kynnt hér úr þessum ræðustól að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um þennan Þróunarsjóð. Það er verið að mæla fyrir þessu frv. í febrúarmánuði 1994, 16 mánuðum síðar. Og hæstv. sjútvrh. segir hér: Málið er brýnt og það krefst afgreiðslu.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh. að við alþýðubandalagsmenn höfum talað fyrir því um nokkra hríð, og gert það af meiri myndarskap heldur en aðrir stjórnmálaflokkar að þeim öllum ólöstuðum, að það

væri mjög brýnt að hefja þróunarverkefni í sjávarútvegi til þess að bæta lífskjörin í landinu. En, virðulegi sjútvrh., þetta frv. er ekki nema að mjög litlu leyti um þróunarverkefni í sjávarútvegi. Þetta er gamaldags millifærslu- og skattlagningarfrumvarp sem einkennist fyrst og fremst af þeirri hefðbundnu hugsun að verðmætin í sjávarútvegi séu fasteignir og skip. Eru það dýrmætustu verðmætin í íslenskum sjávarútvegi? Nei. Dýrmætustu verðmætin í íslenskum sjávarútvegi eru sú þekking, sú reynsla, sú markaðsaðstaða sem íslenskir einstaklingar og íslensk fyrirtæki hafa komið sér upp.
    Fæst þetta frv. við það að styrkja þann þáttinn með afgerandi hætti? Svarið er því miður nei. Hefur ríkisstjórnin á undanförnum missirum verið að styrkja þann þáttinn? Svarið er því miður nei. Það þarf ekki að fara lengra en nokkur hundruð metra í miðbænum frá þinghúsinu til þess að heimsækja fyrirtæki þar sem ungir athafnamenn með sitt hugvit eitt að vopni hafa verið að framleiða nýja tegund af frystihúsum til útflutnings. Ekki frystihús úr steinsteypu heldur frystihús í gámum sem hafa þann eiginleika að þau er hægt að flytja hvert sem er í veröldinni, hvort heldur sem er með flugvélum, skipum eða járnbrautalestum. Þetta verkefni er þar að auki það verkefni sem hefur skapað reykvískum athafnamönnum í járnsmíði hvað mesta viðbót á síðustu mánuðum þannig að þar fer saman atvinnuþörf kunnáttumanna í málmsmíði og nýjungar í sjávarútvegi.
    Hefur komið til liðsinni frá íslenskum stjórnvöldum gagnvart þessu mikilvæga nýja útflutningsverkefni? Svarið er því miður nei. Þetta litla fyrirtæki sem hér er í miðbænum er þegar með fyrirspurnir frá yfir 70 erlendum aðilum sem eru reiðubúnir að skoða það gaumgæfilega að gera stórar pantanir sem gætu orðið ígildi í framleiðslustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu mörg hundruð starfa á næstu missirum. Hafa stjórnvöld sýnt þessu einhvern áhuga? Eftir því sem forsvarsmenn fyrirtækisins segja mér, nei.
    Á morgun koma til Íslands fulltrúar frá Namibíu til þess að ræða við íslenska aðila um stofnun fyrirtækis sem hefði þann möguleika að nýta yfir 11.000 tonn af dýrmætum fiskstofni í landhelgi Namibíu og koma þeirri vöru á markað á Spáni þar sem sölukerfið er tryggt. Til að koma þessu í kring þarf kannski nokkra tugi milljóna sem erfitt er að fá út úr rekstri þessa stóra fyrirtækis á skömmum tíma. Forseti Namibíu hefur komið hingað. Honum og hans fylgdarliði hafa verið haldnar veglegar veislur. Honum hafa verið sýnd frystihús. En eru stjórnvöld að fylgja þessu máli eftir með þeim hætti að greiða götu þessara aðila þannig að tryggt sé að nú þegar á næstu vikum verði teknar ákvarðanir sem geta skilað inn í íslenskt þjóðarbú á næstu árum nokkur hundruð millj. kr. í arð af því hugviti og þekkingu sem Íslendingar kynnu að flytja út? Svarið er því miður nei.
    Ég gæti talið áfram í öllum mínum ræðutíma slík dæmi frá síðustu missirum þar sem möguleikar Íslendinga í sjávarútvegi hafa ekki náð fram að ganga vegna þess að kerfið hér á landi, bankakerfið, lánakerfið, reglugerðirnar, löggjöfin, miðast á engan hátt við þessi tækifæri. Svo komum við hér saman á Alþingi og fjöllum um frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Frv. sem ber slíkt heiti ætti auðvitað fyrst og fremst að vera í reynd áhættulánasjóður fyrir nýjungar af þessu tagi. Fyrst og fremst. Við ættum að hafa kjark til þess að segja: Það er nauðsynlegt fyrir þetta þjóðfélag að vera með ákveðið áhættufjármagn í sjávarútvegi til þess að greiða götu þeirra sem hafa hugmyndir og djörfung til að sækja fram með ákveðnum hætti.
    Ég hef sagt það á undanförnum missirum að ég tel að Íslendingar hafi álíka möguleika á sviði sjávarútvegs og Hollendingar hafa gert að veruleika á sviði blómasölu og blómaræktar. Þeir hafa náð því að vaxa úr blómaræktarþjóð yfir í það að fá í sínar hendur 90% af heimsviðskiptum í blómaverslun. Smíði tækja, sölukerfi, flutningar og annað sem þessu tengjast.
    Þess vegna á umræðan hér á landi ekki að vera sú sem hv. þm. Sturla Böðvarsson var með fyrr í þessum umræðum, að lýsa bara svartnætti yfir minnkun fiskstofnanna. Það er auðvitað vandamál en við sjáum fjölmörg dæmi um það hvernig menn hafa getað skapað auknar þjóðartekjur og aukinn arð með því að nýta kunnáttuna og hugvitið með réttum hætti. Auðvitað væri æskilegt ef hæstv. utanrrh. gæti verið í salnum við þessar umræður vegna þess að það er ekki bara hæstv. sjútvrh. sem ber ábyrgð á þessum málum. Hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson er líka utanríkisviðskiptaráðherra Íslands og það er eins og hann hafi gleymt því á þeim fimm árum sem hann hefur verið í embætti eða svo, bráðum sex, að hann er sölumaður númer eitt í að tryggja að íslenskar afurðir, hugvit og tækni skili gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Hvað hefur hann gert í þeim efnum? Svarið er ósköp lítið. Hefur hæstv. utanrrh. átt fundi með Icecon til þess að kynna sér möguleika á auknum gjaldeyristekjum í gegnum íslenskan sjávarútveg? Ég held ekki. Mér er til efs að hann á sínum sex árum hafi átt einn einasta slíkan fund. Hefur hann átt fund með þessu unga fyrirtæki sem þegar hefur sýnt mikla möguleika með því að framleiða frystihús í gámum? Ég held ekki, ég held að hann hafi ekki átt neinn slíkan fund. En hann er óþreytandi við að liggja yfir alls konar reglugerðum frá Evrópubandalaginu eins og hann haldi að framsókn í atvinnulífi byggist á reglugerðum frá Evrópubandalaginu í stað þess að leita markaða og nýta það hugvit og þá þekkingu sem við höfum hér.
    Ég hef átt kost á því að láta ýmsa erlenda viðskiptajöfra skoða íslenskan sjávarútveg. Það eru menn sem hafa víðtæka þekkingu á viðskiptum út um allan heim. Þeir hafa gefið sér góðan tíma til þessarar skoðunar og það er mjög fróðlegt að heyra þeirra niðurstöðu. Þeirra niðurstaða gengur nefnilega alveg þvert á það sem hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, hefur kappkostað að reyna að telja þjóðinni trú um á undanförnum árum. Hann hefur sýknt og heilagt verið í því að telja þjóðinni trú um það að vandamálið í sjávarútvegi á Íslandi númer eitt sé sölusamtökin, SH, Íslenskar sjávarafurðir og sérstaklega SÍF. Hvað ætli það séu margar messurnar sem utanrrh. hefur farið með um þau efni?
    Þess vegna finnst mér það merkilegt að þegar þessir alþjóðlegu viðskiptamenn hafa skoðað íslenskan sjávarútveg þá er þeirra niðurstaða að dýrmætasta auðlind Íslendinga á sviði sjávarútvegs sé ekki sú að við kunnum að veiða fisk heldur að við höfum einstæða kunnáttu í að framleiða og selja fisk og byggja upp markaðskerfi sem stendur traustum rótum í mörgum heimsálfum sem getur aðlagað sig innbyrðis breytingum á gjaldmiðlum eftir því hvar hentugast er að selja hverju sinni og hefur ótrúlegan hraða í að laga sig að tæknikunnáttu og verkþróun í sjávarútvegi.
    Það kynni nú ekki að vera að það væru einmitt sölusamtökin sem væru meðal mikilvægustu auðlinda Íslendinga í sjávarútvegi vegna þess að innan þeirra vébanda sé að finna fólk með hæfileika og kunnáttu og aðstöðu til þess að veita ungu fólki með markaðsþekkingu og vilja til þess að skapa nýjan arð úr þeim fiskstofnum sem við höfum hér?
    Það hafa líka komið út úr þeim viðræðum ábendingar um það að Íslendingar hafi einstæða möguleika til þess að byggja á skömmum tíma upp víðtækt alþjóðlegt viðskiptakerfi á sviði sjávarútvegs vegna þess að við höfum til að bera í fyrsta lagi þessa kunnáttu á sviði sölustarfsemi, markaðsöflunar og framleiðsluhátta sem ég hef nefnt. Í öðru lagi vegna þess að við erum það litlir að það óttast okkur nánast enginn. Því hafa þessir menn bent á að það skynsamlegasta fyrir Íslendinga væri að koma sér upp þeim þríhyrningi sem er myndaður í fyrsta lagi af þeirri kunnáttu sem Íslendingar geta lagt fram sem ígildi hlutafjár í slík alþjóðleg samstarfsfyriræki. Í öðru lagi af framlagi þeirra ríkja, hvort sem það er í Afríku eða Asíu sem vilja nýta þær miklu auðlindir sem eru í þeirra landhelgi en ekki eru nýttar í dag og eru reiðbúnir eins og Namibíumenn, Indverjar og fleiri að veita okkur aðgang að sinni landhelgi vegna þess að hún er einfaldlega ekki nýtt í dag og þeir eygja ekki betri möguleika til að nýta hana heldur en að gera slíka samninga við okkur. Og í þriðja lagi af alþjóðlegu fjármagni, aðilum sem eru reiðubúnir að fjármagna, reiðubúnir að fjárfesta í slíkum samskiptum Íslendinga og þessara fjarlægu þjóða vegna þess að þeir treysta stjórnunarhæfileikum og markaðskunnáttu íslenskra fyrirtækja til þess að gera arð úr slíkri samsteypu.
    Þessi þríhyrningur markaðsþekkingarinnar og framleiðsluþekkingarinnar hér heima, í öðru lagi auðlindanna víða um heim og í þriðja lagi hins alþjóðlega fjármagns er kannski einhver mesti sóknarkrafturinn sem við getum átt í íslenskum sjávarútvegi. Í stað þess að liggja yfir því hér á þingi erum við búin að bíða í 16 mánuði eftir gamaldags millifærslufrumvarpi sem aðallega hefur það innanborðs hvað eigi að gera við þessa milljarða sem settir voru í skuldbreytingar fyrir sjávarútveginn á vandræðaárunum 1989--1990 þegar allt var að fara á hausinn.
    Auðvitað má ræða það fram og aftur hvað eigi að gera við þá milljarða, hvort ríkið eigi að borga þá beint eða hvort það eigi að láta greinina borga. Ég tel það í sjálfu sér ekki vera neitt stórmál. Og að liggja yfir því í heilli ríkisstjórn missirum saman sýnir best að þeir sem eiga að hafa forustu fyrir þessum málum á vettvangi ríkisstjórnarinnar eru bara með einhvern allt annan kompás. Þess vegna held ég að það sé alveg rétt sem hér hefur verið sagt, ég trúi því ekki að það hafi verið þau skilaboð sem ríkisstjórnin hafi fengið frá forsvarsmönnum sjávarútvegsins að þetta væri brýnast.
    Við vitum það hins vegar að alveg eins og Alþfl. hefur mánuðum saman verið að strekkja í einhverjar formúleringar í landbúnaði í samræmi við eitthvert ídeólógískt harðlífi sem Alþfl. lifir í þeim málaflokki þá hefur Alþfl. verið að strekkja í ákveðnar formúleringar í kringum sjávarútveg til þess að geta notað það í einhverjum svipuðum tilgangi. En það hefur bara ósköp lítið með framþróun íslensks sjávarútvegs að gera. Ég held að það væri nær fyrir hæstv. sjútvrh. --- í stað þess að flytja einhverja fyrirlestra um einhvern ágreining milli Framsfl. og Alþb. og aðrar slíkar hugleiðingar sem hann var með áðan og ég ætla að leiða alveg hjá mér --- að leita eftir samstarfi í þinginu um að búa til einhvern raunverulegan þróunarsjóð fyrir sjávarútveginn á Íslandi. Við erum alveg tilbúnir til þess samstarfs í Alþb. Við erum með langa og ítarlega skrá af hugmyndum um það efni og ég held eftir viðræður mínar við fjölmarga forustumenn í íslenskum sjávarútvegi að það sé kannski brýnna verkefni en að vera að skaka á því í þinginu mánuðum og jafnvel missirum saman hvað eigi að gera við þessa skuldbreytingarmilljarða frá árunum 1989 og 1990.