Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:48:52 (4393)


[16:48]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil minna hv. þm. á að það kemur mjög skýrt fram í frv. og ég gerði reyndar grein fyrir því í minni upphafsræðu að ríkissjóður mun yfirtaka tæpan milljarð af þeim skuldbindingum sem nú hvíla á atvinnutryggingardeild. Það skýrir m.a. þann mismun sem þarna kemur fram. Hluti af skuldum atvinnutryggingardeildarinnar verður auðvitað greiddur niður mjög fljótlega. Ég hygg því að ég fari nokkuð nærri lagi þegar ég get mér til um þetta atriði.
    Þegar hv. þm. spyr svo hvort skynsamlegt sé að úrelda loðnuskip, þá átta ég mig ekki alveg á tilgangi þeirrar spurningar. Ég hef ekki heyrt mikla umræðu um að ástæða sé til þess við ríkjandi aðstæður því eins og sakir standa er góð loðnuveiði. Ég vil minna hv. þm. á að það frv. sem hér liggur fyrir felur ekki í sér á nokkurn hátt kvöð eða þvingun til þess að úrelda skip. Þeir einir leita til sjóðsins um úreldingu á skipum sem eiga umfram afkastagetu, eiga fiskiskip sem ekki eru að fullu nýtt. Þeir einir hafa hagað því að leita til sjóðsins um úreldingarstyrki. Þess vegna er algjörlega út í bláinn og einungis til marks um hefðbundinn útúrsnúning hv. þm. í umræðum hér að vera að setja þetta mál fram með þessum hætti.