Búvörulagafrumvarp o.fl.

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 13:37:41 (4399)


[13:37]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að um margra vikna skeið hefur staðið yfir mikil deila milli stjórnarflokkanna um breytingar á búvörulögum. ( Gripið fram í: Hvað segirðu?) ( Gripið fram í: Er það?) Ég er kannski að segja einhverjum fréttir hér en um helgina heyrðum við að þeir hefðu komist að því, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., að þeir yrðu áfram saman í ríkisstjórn og ætluðu sér að vinna að lausn þessa máls. Einnig hefur landbn. lagt sig fram um að finna á málinu einhvern flöt sem hægt væri að vinna eftir og að vinnu með nefndinni hafa verið þrír lögfræðingar.
    Nú gerðist það á fundi nefndarinnar áðan að lögð voru fram drög að breytingartillögum en þá kom í ljós að lögfræðingarnir höfðu ekki haft aðgang að sérfræðingum utanrrn. í gær og í morgun einfaldlega vegna þess að þeir neituðu, töldu sér ekki fært að koma á fund þeirra til að vinna að þessu máli. Ég hlýt því, virðulegi forseti, að ganga eftir því við hæstv. utanrrh. hverju þetta sæti og hvort málið sé þannig vaxið að enginn vilji sé hjá utanrrn. að finna á þessu lausn.
    Það er, virðulegi forseti, nánast vonlaust fyrir okkur í landbn. að vinna að þessu máli ef svo er að fulltrúar þess ráðuneytis sem fer með okkar milliríkja- og alþjóðasamninga neita að vinna að málinu með þeim sérfræðingum sem þingið er með í þeirri vinnu. Við vitum ekki hver okkar staða er meðan málum er þannig háttað.