Búvörulagafrumvarp o.fl.

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 13:47:10 (4404)


[13:47]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er líka sjálfsagt að svara þessari spurningu hv. þm. Sem kunnugt er kvað Hæstiréttur upp úrskurð á sínum tíma sem fól í sér að búvörulögin hefðu ekki sjálfstætt gildi til að veita landbrh. heimild til þess að banna eða veita leyfi varðandi innflutning. Það hefði þýtt hömlulausan innflutning landbúnaðarvara án nokkurrar gjaldtöku ef það hefði staðið óbreytt. Samkomulag stjórnarflokkanna var um það að endurreisa til bráðabirgða, þ.e. fram að gildistöku GATT, það sem við köllum óbreytt ástand. Í því felst að landbrh. fái aftur heimildir til að banna innflutning landbúnaðarvara, sem hann hafði áður haft, sem og að staðfesta það samkomulag, sem gert var í desember með lagabreytingum, að hann

hefði heimildir til verðjöfnunargjalda í samræmi við milliríkjasamninga.
    Þriðji þáttur samkomulagsins var sá að endurskoðun tollskrár í samræmi við skuldbindingar GATT skyldi fara fram í nefnd fimm ráðuneyta undir forustu fulltrúa forsrn. og sú nefnd skyldi ljúka störfum við endurskoðun tollskrárinnar þannig að það gæti tekið gildi þegar GATT-samkomulagið tekur gildi, hvort heldur það verður í upphafi næsta árs eða síðar á árinu 1995.