Brunavarnir og brunamál

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 13:50:45 (4405)

[13:50]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um brunavarnir og brunamál.
    Tilefni að flutningi þessa frv. er sú að um nokkurn tíma hafa samningsréttarmál slökkviliðsmanna verið óleyst. Viðsemjendur slökkviliðsmanna, þ.e. samninganefnd ríkisins, launanefnd sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, hafa ekki viðurkennt rétt Landssambands slökkviliðsmanna til að fara með samningsumboð við gerð kjarasamninga fyrir slökkviliðsmenn. Helsta ástæðan fyrir þessum ágreiningi er sú að viðsemjendur slökkviliðsmanna hafa ekki talið Landssamband slökkviliðsmanna uppfylla skilyrði laga til að geta talist fagstéttarfélag, sbr. 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Í því skyni að leysa þennan ágreining um samningsumboð Landssambands slökkviliðsmanna er lagt til í þessu frv. að starfsréttindi slökkviliðsmanna verði bundin í lög þannig að félmrh. verði heimilt að veita slökkviliðsmönnum löggildingu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum um menntun og starfsreynslu.
    Áður en ákveðið var að leggja þetta frv. fram var óskað eftir umsögnum um það frá starfsmannaskrifstofu fjmrn., Reykjavíkurborg, brunamálastjóra og formanni Landssambands slökkviliðsmanna. Umsagnir þessara aðila um efni frv. voru allar jákvæðar en hér verður stuttlega gerð grein fyrir einstökum greinum frv.
    Í 1. gr. eru lagðar til tæknilegar breytingar á lögunum en engar efnislegar breytingar eru lagðar þar til.
    Í 2. gr. er lagt til að nýrri grein verði bætt inn í lögin og fjalli hún um starfsréttindi slökkviliðsmanna. Lagt er til að félmrh. verði veitt heimild til að veita slökkviliðsmanni löggildingu þegar hann hefur lokið grunnnámi fyrir slökkviliðsmenn, sbr. reglugerð nr. 197/1991, um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. Jafnframt er gert ráð fyrir því að sá sem vill fá löggildingu sem slökkviliðsmaður hafi öðlast tiltekna starfsreynslu á því sviði, þ.e. verið slökkviliðsmaður að aðalstarfi í a.m.k. eitt ár samfellt.
    Með framangreindum skilyrðum er tryggt að sá sem vill fá löggildingu sem slökkviliðsmaður hafi uppfyllt lágmarkskröfur um menntun og starfsreynslu á því sviði.
    Það er skoðun ráðuneytisins að mikil nauðsyn sé á því að efla og styrkja brunavarnir í landinu. Með þetta að markmiði voru sett ný lög um brunavarnir og brunamál árið 1992 en þau lög gera ráð fyrir fjölmörgum endurbótum í málaflokki brunamála.
    Framkvæmd brunavarna hvílir að verulegu leyti á slökkviliðsmönnum, þar með talið slökkviliðsstjórum og eldvarnareftirlitsmönnum. Til að tryggja eðlilega framkvæmd laganna er mikilvægt að þessum aðilum, sem gegna þeim sérhæfðu störfum sem hér um ræðir og eiga að axla ábyrgð samkvæmt lögum um

brunavarnir og brunamál, séu búin nauðsynleg skilyrði og starfsgrunnur. Jafnhliða því að settar hafa verið auknar skyldur á herðar slökkviliðsmönnum er nauðsynlegt að skilgreina starfsréttindi þeirra enn frekar í lögum en gert hefur verið til þessa.
    Þá er rétt að ítreka það, sem fram kemur í athugasemdum sem fylgja frv., að ágreiningur um starfsréttindi slökkviliðsmanna er milli stéttarfélags þeirra og viðsemjenda. M.a. af þessum sökum verður að telja nauðsynlegt að eyða öllum vafa um starfsréttindi slökkviliðsmanna og samningsrétt stéttarfélaga þeirra fyrir þeirra hönd.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið þær breytingar sem nauðsynlegt er talið að gera á lögum um brunavarnir og brunamál til að leysa þann hnút sem samningsréttarmál slökkviliðsmanna hafa verið í. Eins og áður kom fram standa viðkomandi samningsaðilar einhuga að baki frv. þessu og leggja áherslu á skjóta afgreiðslu þess.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.