Brunavarnir og brunamál

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 13:57:24 (4407)


[13:57]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem síðasti ræðumaður vék að hvað meint væri með grunnnámi og til hvers það tæki. Það er vitnað til þess í frv. að félmrh. setur nánari ákvæði um grunnnám og aðra menntun slökkviliðsmanna í reglugerð. Þessi reglugerð hefur verið sett. Þetta ákvæði út af fyrir sig er ekki nýtt og það hefur verið sett reglugerð á grundvelli þessa ákvæðis um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. Þar er kveðið á um hver menntun og starfsþjálfun slökkviliðsmanna skuli vera. Reglugerðin er frá 19. apríl 1991.
    Um það sem hv. þm. síðan vék að, hvort fleiri stéttir kæmu á eftir sömu erinda, þá er út af fyrir sig erfitt um það að segja og ég get ekkert frekar vitað um það en hv. fyrirspyrjandi. Engu að síður er það mat þeirra sem um þetta mál hafa fjallað að brýnt sé til að leysa þennan hnút sem samningsréttarmál slökkviliðsmanna er í að frv. og sú leið sem það boðar verði samþykkt og eru allir aðilar um það sammála sem að þessu máli hafa komið.