Umboðsmaður barna

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 14:24:02 (4409)


[14:24]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þegar frv. til laga um embætti umboðsmanns barna var fyrst flutt á Alþingi Íslendinga fyrir átta árum urðu ýmsir til að hrista höfuðið. Í linnulausri umræðu um vanda atvinnuveganna og efnahagsþrengingar þótti mál af þessu tagi harla tilgerðarlegt og dæmigert fyrir áhugasvið kvenna. Var ekki búið að börnum hér í landi eins og best varð á kosið? Var þörf á sérstöku embætti til að huga að málefnum barna? Kurteisustu menn sögðu nokkur vinsamleg orð og svæfðu málið síðan í nefnd.
    Fjórum sinnum hefur 1. flm. þess frv. talað fyrir þessu máli og ber að geta allra þeirra hv. þm. sem voru meðflutningsmenn. Tel ég reyndar að þeim hefði mátt sýna þá háttvísi að geta þeirra í greinargerð með því stjórnarfrv. sem hér liggur fyrir. Á 109. löggjafarþingi flutti ég ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Kristínu S. Kvaran og Hjörleifi Guttormssyni, frv. til laga um umboðsmann barna. Í greinargerð með því frv. þótti mér við hæfi að geta þess að nokkrum árum fyrr hafði hugmyndinni skotið upp í þáltill. sem hv. þm. Árni Gunnarsson hafði borið fram. Á 110. löggjafarþingi var frv. endurflutt og voru þá meðflutningsmenn hv. þm. Árni Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson en Kristín S. Kvaran var þá ekki á þingi.
    Þegar málið var flutt í þriðja sinn voru meðflm. hv. þm. Árni Gunnarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Jón Kristjánsson. Og í fjórða sinn var frv. lagt fram á 115. löggjafarþingi og voru þá meðflutningsmenn hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, Jón Kristjánsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Öllum þessum hv. þm. þakka ég framlag þeirra til þessa máls.
    Ýmsir hæstv. ráðherrar höfðu haft góð orð um að vinna að framgangi þessa frv. en minna varð úr efndum. Margsinnis hafði ég borið fram fyrirspurnir milli þess sem málið var flutt en lítið gerðist. Á 115. löggjafarþingi þegar ég flutti málið í fjórða sinn hlaut það loks afgreiðslu og var vísað til ríkisstjórnarinnar með vinsamlegum orðum um framkvæmd. Jafnframt hafði ég ítrekað spurst fyrir um staðfestingu Íslands á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í honum er embætti sem þetta áskilið. Hann var loks staðfestur fyrir tveimur árum.
    En það var ekki fyrr en málefni barna og unglinga fluttust yfir til félmrn. á síðasta ári að hreyfing komst á málið. Það er e.t.v. ekki tilviljun að það gerist þegar ráðherra þess ráðuneytis er kona. Hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, skipaði nefnd til að fara yfir frv. og sú nefnd hefur nú lokið störfum og fyrir liggur nýtt frv. til laga um umboðsmann barna. Hæstv. félmrh. á virðingu skilda fyrir að hafa meiri skilning á þessu máli en forverar hennar og fyrir það ber að þakka.
    Hið nýja frv. er í meginatriðum samhljóða hinum fyrri. Meginmarkmið beggja er að tryggja réttindi barna í samfélaginu og að tillit sé tekið til hagsmuna þeirra þegar stjórnvaldsákvarðanir eru teknar. Breytingar á frv. nú eru fremur tæknilegs eðlis. Í hinum fyrri frv. var ráð fyrir því gert að Alþingi kysi umboðsmanninn, í hinu nýja að forseti Íslands skipi hann að tillögu forsrh. Benda má á að umboðsmaður Alþingis heyrir beint undir Alþingi sjálft og sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna hið sama gildir ekki eða skal ekki gilda um umboðsmann barna.
    Í hinum fyrri frv. var gert ráð fyrir því að umboðsmaður hefði sérþekkingu á sviði uppeldismála en í hinu nýja er ekki ákvæði um það heldur skal hann hafa háskólapróf og sé hann ekki löglærður skal starfa með honum lögfræðingur. Ég leyni því ekki að mér falla betur eigin tillögur og það kæmi mér ekki á óvart þó að þessi atriði í hinu nýja frv. mæti andstöðu þegar til afgreiðslu kemur. En á þessu stigi máls kýs ég að leggja það í hendur þeirrar hv. nefndar sem um málið mun fjalla og þeirra umsagnaraðila sem fá um það að segja.
    Ég mun því ekki gera frekari athugasemdir við efni frv. nú en fagna því að það er fram komið.
    Í greinargerð með frv. mínu er það var flutt í fyrsta sinni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fáir deila um að við löggjöf þjóðarinnar skuli tillit tekið til þarfa allra þegna þjóðfélagsins svo að þeir megi allir þrífast sem best í landi okkar, ungir sem aldnir. Því síður deila menn um mikilvægi þess að vel sé í haginn búið fyrir þá sem eru að vaxa úr grasi og eiga að erfa landið, eins og menn orða það á hátíðastundum. Ljóst má þó vera að börnin sjálf eru ekki á sama hátt í stakk búin til að fylgja eftir sjálfsögðum mannréttindum sínum í samfélaginu og hinir sem eldri eru og þroskaðri. Aðbúnaður allur og uppvaxtarskilyrði þeirra eru á ábyrgð okkar hinna fullorðnu. Það er því ekki úr vegi að löggjafarsamkoma þjóðarinnar hugi af alvöru að því hvernig henni hafi farist það úr hendi að tryggja börnum landsins þau skilyrði til vaxtar og þroska sem ýmis lög mæla fyrir um og talin eru hornsteinn framtíðarþjóðfélagsins. Flutningsmenn þessa frv. hafa leitast við að gera sér grein fyrir þeirri þróun sem nú á sér stað og því miður orðið alvarlega uggandi um þann jarðveg sem hinni vaxandi kynslóð er búinn. Því er þetta frv. flutt.
    Íslenska þjóðin hefur tekið stærra stökk til gerbreyttra þjóðfélagshátta á síðustu hálfri öld en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar. Fullvaxta fólk sem lifði þá þjóðfélagsbyltingu, sem átti sér stað á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina og staðið hefur síðan, hefur tíðum átt fullt í fangi með að fóta sig í þessari gjörbreyttu tilveru og í því umróti verður því varla mótmælt að börn og aldrað fólk urðu þar verst úti, enda urðu þeir hópar að treysta málsvörum sem vart höfðu ráð á sinni eigin tilveru í nýju og gjörbreyttu samfélagi. Fjölskyldan, með heimahúsmóður sem hlynnti að börnum og hinum öldruðu, leið undir lok í þessu nýja þjóðfélagi þegar húsmæður voru kallaðar til launavinnu utan heimilisins en samfélagið kom einungis að mjög litlu leyti til móts við nýjar og áður óþekktar þarfir hinna ,,óarðbæru`` hópa, barnanna og hinna öldruðu. Þar hafa stjórnvöld brugðist og svo er enn. Er nær sama hvert litið er. Á öllum sviðum eru lífsskilyrði þessa helmings þjóðarinnar sýnilega verri en annarra.``
    Hæstv. forseti. Þótt þessi orð hafi verið skrifuð fyrir átta árum hygg ég að þau séu enn í fullu gildi. Við sjáum hvernig hefur hert að grunnskólanum og það er sorgleg staðreynd að á sama tíma og æ stærri hluti uppeldis barna er lagður á herðar kennara er svo kreppt að skólanum og kennurunum að torvelt er orðið að manna grunnskólann. Afleiðingar þessa ástands geta orðið geigvænlegar ef ekki er spyrnt við fótum.
    Sömu sögu er að segja um forskólann eða dagvistarstofnanirnar. Árið 1981 flutti ég brtt. við lög um byggingu og stofnun dagvistarheimila og brtt. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gerð verði starfsáætlun á vegum menntmrn. er kveði nánar á um markmið og leiðir í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum í samráði við þá aðila er að uppeldis- og skólamálum vinna.``
    Þessi brtt. var samþykkt og skipuð var nefnd sem gekk frá ítarlegri starfsáætlun þar sem gert var ráð fyrir að það markmið næðist að dagvistarþörfin yrði leyst á 10 árum. En nú er svo komið að mikið vantar á að sérmenntað fólk fáist til starfa á dagvistarheimilunum og æ færri setjast nú í Fósturskóla Íslands m.a. vegna bágra launakjara en án efa einnig vegna skilningsleysis stjórnvalda á mikilvægi fóstrustarfsins. Og við þetta búum við enn. Íslendingar búa við það sérkennilega ástand eins og hæstv. félmrh. kom inn á hér áðan að slysatíðni á ungum börnum í landinu er mun hærri en nokkurs staðar annars staðar og það er okkur vart til sóma en það liggur fyrir að allar samgönguleiðir eru miðaðar við að bifreiðar komist um þær en minna tillit tekið til gangandi fólks eða barna og hinna öldruðu. Það er satt að segja óhugnanleg sjón að sjá börn og unglinga á reiðhjólum í umferðarhringiðunni á götum Reykjavíkur og ekki síður börn að leik á gangstéttum án þess að eftirlit sé með þeim haft. Íslensk börn eru eftirlitslaus í langtum meira mæli en þekkist í nágrannalöndum okkar vegna langs vinnudags foreldra og enn viðgengst að lítil börn séu á ferð í skammdegismyrkri og óveðrum langan veg til og frá skóla enda tala skýrslur um slys á börnum sínu máli. Og það er satt að segja undarlegt að við verðum vör við það að æfingar í knattspyrnuliðum þar sem ung börn taka þátt geta farið fram kl. hálfníu á kvöldin yfir vetrartímann og getur hver sagt sér sjálfur hvaða áhrif þetta kann að hafa.

    Ekki verður betra fyrir þegar litið er til menningarmálanna. Menningarmál barna hafa af einhverjum undarlegum ástæðum ævinlega verið hornreka á ýmsum sviðum. Ríkisfjölmiðlarnir hafa hvorki fengið fé né aðstöðu til að vinna gott og vandað efni fyrir börn. Á sama tíma og ríkisfyrirtæki jafnt sem einkafyrirtæki eyða milljörðum í auglýsingar í þessum fjölmiðlum er lítið hirt um að leggja fé í hollt og gott efni fyrir börn. Afskræmd lífssýn auglýsingaheimsins er reyndar það efni sem börn horfa mest á eða hlýða á og má ímynda sér hversu uppbyggileg sú innræting er óþroskuðum börnum. Unglingaþættir snúast nær eingöngu um þá dægurlagatónlist sem efst er á baugi hverju sinni og er kynning hennar gjarnan gerð eins afkáraleg og menn hafa hugmyndaflug til. Börn eru sjaldan spurð um afstöðu til ýmissa mála er þau sjálf varða í fréttatímum eins og títt er um hina fullorðnu. Því síður eru þau tekin tali í þáttum um list og menningu. Þó má virða það sem gert er og vil ég þakka Hermanni Gunnarssyni fyrir að hann leyfir börnum að koma fram í þeim þáttum sem hann hefur annast við miklar vinsældir um langt árabil og er það honum svo sannarlega til sóma og þetta er skemmtilegt efni og ekki síst það efni sem menn hafa gaman af í hans annars ágætu þáttum.
    Við höfum öll séð hvernig erlent fjölmiðlaefni hellist yfir okkur hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Börn sem eru ein heima horfa gagnrýnislaust á það sem fyrir þeim verður og fyrir nokkrum dögum benti ég á hér og hef reyndar átt um það viðræður við hæstv. félmrh. að Kvikmyndaeftirlit ríkisins var nánast lagt niður með lögum sem féllu úr gildi þegar ný lög um vernd barna og unglinga voru lögleidd. En í lögunum um vernd barna og unglinga frá árinu 1966 var ákvæði um skoðun kvikmynda en þegar ný lög tóku gildi var þessi kafli felldur úr með þeim rökum að ástæða væri til að setja um Kvikmyndaeftirlitið sérstök lög. Gallinn er einfaldlega sá að það hefur ekki verið gert þannig að kvikmyndaskoðun hefur ekki lagastoð eins og er og lögin um ofbeldiskvikmyndir gerðu ráð fyrir að einmitt þessi sama nefnd sem vinna skyldi samkvæmt umræddum VI. kafla laga um vernd barna og unglinga skuli einnig annast skoðun kvikmynda varðandi þau lög, en það segir sig sjálft að það getur Kvikmyndaeftirlitið ekki gert þar sem það hefur ekki lengur stoð í lögum og vænti ég að úr þessu verði bætt sem allra, allra fyrst.
    Hæstv. forseti. Mér er ljóst að það fer að líða að því að tími minn sé búinn. En þeir sem stundum leggja leið sína í grunnskóla landsins verða varir við að kennarar hafa áhyggjur af þroska íslenskra barna og ekki hvað síst málþroska. Kjör barna eru auðvitað að öllu leyti samtvinnuð kjörum annarra landsmanna, m.a. og ekki síst foreldra barnanna og ömmunnar og afans sem eru nú því miður venjulega fjarri heimilinu og hafa því sáralítið sem ekkert samneyti við börnin. Og það segir sig sjálft að börn læra því einungis málið að það sé fyrir þeim haft og kennarar hafa af því miklar áhyggjur að málþroska barna fari óhugnanlega hrakandi.
    Í Morgunblaðinu 24. nóv. 1991 er ítarlegt viðtal við Ragnheiði Briem, doktor í kennslufræði og kennara í íslenskum málvísindum við Menntaskólann í Reykjavík. Þar segir Ragnheiður um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Móðurmálskunnáttu Íslendinga, einkum ungu kynslóðarinnar, er áfátt. Þetta lýsir sér þannig að ungt fólk á æ erfiðara með að tjá hugsanir sínar, bæði munnlega og skriflega. Orðaforði hefur rýrnað mjög svo að nú skilja nemendur ekki mál sem lá ljóst fyrir jafnöldrum þeirra fyrir tveimur áratugum. Þetta veldur m.a. því að kennarar þurfa að eyða dýrmætum tíma í að þýða ósköp venjulegar námsbækur á hálfgert barnamál ef efni þeirra á að komast til skila. Enskuslettum hefur fjölgað, kunnátta í beygingafræði er í molum, ritleikni, þar með talin réttritun, er á svo lágu stigi að mikill hluti framhaldsskólanema getur alls ekki talist sendibréfsfær.``
    Þetta eru stór orð. Ég er því miður hrædd um að þau séu rétt og síðast fyrir nokkrum dögum var ég nokkra klukkutíma í skóla hér ekki langt frá og þar kom fram í samræðum við kennara að málþroski barna sé umtalsvert áhyggjuefni, börnin skilji ekki einföldustu orð, horfi enda allt of mikið á erlent kvikmyndaefni, oftast ein án þess að eiga kost á nokkrum skýringum á því sem fyrir augun ber. Lestri barna hnignar heldur þó að vissulega séu mörg börn enn þá dugleg að lesa. En það sem háir ungum börnum fyrst og fremst við að leggja í að lesa bækur er að orðaforði þeirra er svo naumur að þó að þau geti sett orðin saman þá skilja þau ekki merkingu þeirra. Og ég held að menn verði að gera sér ljóst að hér verður að gera umtalsvert átak. Vissulega hefur kennarastéttin, þetta hugsjónafólk sem sér um börnin okkar og fær svo sem varla boðleg laun fyrir, þetta fólk hefur beitt sér fyrir lestrarátaki og gert allt sem í þess valdi stendur til að hvetja börnin til þess að lesa og læra og skrifa en það dugir auðvitað ekki til. Kennarar geta ekki alið börnin upp fyrir okkur. Það hlýtur auðvitað alltaf að vera takmarkað sem kennarar ráða við og þess vegna hefur allt of langur vinnudagur og allt of lág laun skelfileg áhrif á öll þrif barna landsins sem eru því miður allt of lítið með foreldrum sínum.
    Virðulegi forseti. Svona mætti auðvitað halda áfram lengi. En Íslendingar ættu að varast að ganga með þær grillur að öllum íslenskum börnum líði vel, að íslensk börn þrífist vel. Það hefur margkomið fram í svörum við fyrirspurnum hér á hinu háa Alþingi og man ég þá eftir fyrirspurn frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, hv. 3. þm. Norðurl. e. og jafnframt fyrirspurnum frá hv. 4. þm. Suðurl., Margréti Frímannsdóttur, um ýmislegt er varðar börn og barnavernd og það eru ekki fallegar lýsingar sem koma fram í þeim svörum. Kennari einn sagði nýlega við mig: Ég vildi að þið niðri á Alþingi vissuð hvað mörgum börnum í þessu landi líður illa.
    Ég vona, hæstv. forseti, þó að ég geri mér ljóst að umboðsmaður hversu ágætur sem hann verður getur ekki leyst öll vandamál íslenskra barna, þá vona ég samt að þetta embætti geti orðið til þess að opna augu manna fyrir því að fjórðungur landsmanna eru börn undir 18 ára aldri, börn og unglingar, og það erum við sem berum ábyrgð á þessu fólki. Ef við gerum það ekki gerir það enginn annar og um leið og ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að hafa nú loksins borið þetta mál fram sem stjfrv., ætla ég að vona að það nái því nú loksins að verða að lögum á þessu þingi þó að einhverjar breytingar verði gerðar á því. Hv. þm. ætti að vera vorkunnarlaust að koma þessu máli út úr þinginu á þessu þingi og ég vona svo sannarlega að það megi verða til þess að við búum betur að börnunum okkar heldur en við höfum gert hingað til.