Umboðsmaður barna

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 14:44:45 (4410)


[14:44]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með það að þetta frv. er fram komið sem stjfrv. á hv. Alþingi og vonast til þess að okkur takist að afgreiða það sem lög frá Alþingi nú fyrir vorið.
    Eins og hér hefur komið fram er ekki um nýja hugmynd að ræða. Bæði er að áður hafa verið lögð fram frumvörp að frumkvæði hv. 14. þm. Reykv. og eins hitt að nágrannaþjóðir okkar, frændur okkar á hinum Norðurlöndunum, hafa tekið upp fyrirkomulag í líkingu við það sem hér er lagt til.
    Hér er verið að tala um umboðsmann fyrir fjölmennasta aldurshóp þjóðfélagsins eða tæp 30% af þjóðinni sem eru einstaklingar undir 18 ára aldri. Það er því ljóst að hér er um gífurlegt verkefni að ræða og ég sé fyrir mér mjög mikið umfang og mikið starf því það er víða pottur brotinn þegar litið er til réttinda og hagsmuna barna.
    Í 3. gr. frv. eru ákvæði um hlutverk umboðsmanns, þ.e. er að fjalla um málefni barna á breiðum grundvelli en ekki um einstaka mál. Því sinna aðrir í þessu þjóðfélagi, svo sem barnaverndarnefndir. En þó segir í 4. gr. að öllum sé heimilt að leita til umboðsmanns barna með erindi sín og þess vegna sé ég fyrir mér að þarna komi upp einhver misskilningur og fólk í landinu álíti kannski að umboðsmaður sé aðili sem eigi að taka við klögumálum sem varða einstaka fyrirbæri. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort það sé ástæða til að fara yfir það í nefndinni að þessi ákvæði verði gerð skýrari.
    Það eru nú sex ár frá því að embætti umboðsmanns Alþingis var komið á fót og ég held að það séu allir sammála um að það hafi reynst mjög vel. Umsvifin hafa stóraukist og eitthvað af þeim verkefnum sem þar hafa verið unnin tengjast einmitt börnum og þess vegna dettur mér í hug að það að samþykkja þetta frv. verði til þess e.t.v. að létta eitthvað á þeim verkefnum sem þar liggja fyrir og er það vel því að umsvif þar eru meiri í sjálfu sér en starfsmenn ráða við með góðu móti.
    En eins og kemur fram í frv. eru börn áhrifalaus hópur hvað snertir áhrif á gerðir stjórnvalda og það er því mjög mikilvægt að óháður aðili hafi það hlutverk að koma á framfæri málefnum sem snerta velferð barna og réttindi og að farið sé að lögum hvað varðar hagsmuni þeirra.
    Eins og hér hefur komið fram hjá hæstv. félmrh. eru aðstæður barna á Norðurlöndum tiltölulega góðar eða við viljum halda því fram a.m.k. þegar borið er saman við ýmsa heimshluta en ég er mjög smeik um að aðstæður barna á Íslandi séu á margan hátt lakari en á hinum Norðurlöndunum. Þar kem ég einmitt að skólamálum og dagvistarmálum. Við höfum verið svo að ekki sé meira sagt heldur sein að koma þeim málum í viðunandi horf hjá okkur og það má ekki dragast mikið lengur að hér verði komið á samfelldum skóladegi og skólamáltíðum og það að foreldrar geti verið öruggir um að koma börnum sínum á leikskóla. Þetta veldur miklu öryggisleysi hjá fólki og félagslegum erfiðleikum sem af því leiða.
    Fjölskyldumál hafa ekki verið mjög fyrirferðarmikil á hv. Alþingi en þó veit ég til þess að um 1980 lögðu tveir framsóknarmenn fram þáltill. um úrræði í málefnum fjölskyldunnar. Þar held ég að hafi í fyrsta skipti komið fyrir í þingskjölum Alþingis orðið ,,fjölskyldupólitík`` sem er náttúrlega ekki fallegt orð en er mikið notað í sambandi við málefni fjölskyldunnar.
    Það kemur fram í greinargerð með þessu frv. að það hafi skort á heildstæða fjölskyldustefnu hér á landi og ég held að það sé alveg rétt. Nú veltir maður því fyrir sér á ári fjölskyldunnar hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst fyrir í þeim efnum að gera átak til að bæta úr hvað snertir málefni fjölskyldunnar. Og reyndar finnst mér að lykillinn ætti að vera sá að hugsa þjóðfélagið meira út frá fjölskyldunni en ekki öfugt. Ekki að fjölskyldan sem slík sé afgangsstærð sem eigi bara að reddast, hennar málefni eigi bara að reddast.
    Ég tók lítillega þátt í ráðstefnu sem hér var haldin að frumkvæði hóps sem vinnur á vegum félmrh. að málefnum fjölskyldunnar og mér er sagt að þar hafi margt komið fram fróðlegt en ég veit líka að það voru ýmsir sem söknuðu þess að fá ekki að heyra þar meira um stefnu ríkisstjórnarinnar á ári fjölskyldunnar hvað snertir málefni fjölskyldunnar.
    Ég vil segja hér eins og kom reyndar fram hjá síðasta ræðumanni að skólamálin eru manni ofarlega í huga og ég sé það alveg fyrir mér að það geti orðið árekstrar á milli umboðsmanns barna og stjórnvalda. Umboðsmaður barna starfar algerlega sjálfstætt miðað við þetta frv. Það hlýtur að koma til hans kasta þegar verið er að spara og draga saman í skólakefinu og fækka kennslustundum og annað slíkt. Ég veit ekki hvað stjórnvöld koma til með að gera mikið meira með ábendingar frá umboðsmanni barna en öðrum einstaklingum í þessu þjóðfélagi því ekki kemur hann í sjálfu sér til með að hafa nokkurt vald ef ég skil þetta rétt.

    Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að umboðsmaður heyri undir forsrn. og hæstv. ráðherra kom inn á það í sinni framsögu sem kom mér mjög á óvart þegar ég las þetta frv. Ég skal svo sem ekki fullyrða að það sé verra en Noregur hefur fyrst og fremst verið hafður til hliðsjónar við gerð frv. sem fyrirmynd. En þar heyra þessi málefni undir barna- og fjölskylduráðuneyti. Þannig að ég held að hv. nefnd hljóti að fara yfir það og reyna að átta sig á því hvort þetta séu réttar tillögur sem hér eru settar fram.
    En ég tek undir það sem kemur fram í 2. gr. frv. að embættið kemur til með að mótast af þeim embættismanni sem gegnir því hverju sinni. Það er því gífurlega mikilvægt að vel takist til við ráðningu. Ég get tekið undir það að það mæðir mikið á þeim einstaklingi sem embættið hlýtur. Við vonum það svo sannarlega, við eigum marga hæfa einstaklinga í þessu þjóðfélagi, að vel takist til um ráðningu. Ég er það bjartsýn, hæstv. forseti, að ég geri mér vonir um að þetta frv. geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi, á ári fjölskyldunnar.