Umboðsmaður barna

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 15:08:33 (4412)


[15:08]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil fagna framkomu þessa frv., tel að það sé tímabært að við ræðum þetta á þeim forsendum sem hér eru kynntar og það sé í anda þeirra starfa sem við höfum unnið hér á Alþingi sem situr þetta kjörtímabil því við höfum á þinginu tekið afstöðu til málefna barna, sérstaklega á þinginu 1991--1992 þegar við samþykktum barnalög, lög um vernd barna og ungmenna, og veittum einnig heimild til að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna yrði fullgiltur af Íslands hálfu. Það liggur einnig fyrir, frú forseti, að á þessu kjörtímabili verða væntanlega tekin til umræðu á þinginu frv. til laga um leikskóla, frv. til laga um grunnskóla og frv. til laga um framhaldsskóla. Þannig að á þessu kjörtímabili komum við væntanlega til með að fjalla um efnisþætti sem snerta hag barna í hinum víðtækasta skilningi. Í máli manna hefur einnig komið fram að ástæða sé til þess á hinu háa Alþingi að velta fyrir sér úrræðum til að vernda rétt barna þegar um er að ræða ofbeldiskvikmyndir eða annað óæskilegt efni í fjölmiðlum. Og vafalaust munu menn koma fram með tillögur um slíkt og við geta rætt slík mál. Ég tel því að við þingmenn sem sitjum hér höfum haft tækifæri til að fjalla efnislega um réttindi barna og munum fá frekari tækifæri til þess miðað við þær hugmyndir sem uppi eru um framlagningu frv. á Alþingi. Þetta frv. sem við erum að ræða nú fjallar ekki beint um efnislegan rétt barna heldur úrræði til að tryggja að þessa réttar sé gætt. Ég held að það sem fram hefur komið í máli manna á undan mér sýni glögglega að hugmyndin um sérstakan umboðsmann barna á rétt á sér og hefur skilað árangri í framkvæmd í ýmsum löndum eins og getið hefur verið.
    Það kom fram í máli hæstv. félmrh. að þeirri nefnd sem hann skipaði 13. sept. 1993 hafi verið nokkur vandi á höndum varðandi, ef þannig má orða það, stjórnsýslulegan þátt þessa máls eða formlega hlið þessa máls. Í frv. er leitast við að fara sérstaka leið, ef við lítum á íslenska stjórnkerfið, og skipa umboðsmanni barna sess stjórnvalds án þess þó að æðri stjórnvöld hafi annað eftirlit með störfum stjórnvaldsins en eftirlit með fjárreiðum embættisins eins og segir í 8. gr. frv. Hvernig þetta gengur upp í raun er unnt að hafa efasemdir um og m.a. ástæða, finnst mér, að skoða nákvæmlega í þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar.
    Þar sem þetta fjallar fyrst og fremst um skipan nýs stjórnvalds sem heyrir undir forsrh. samkvæmt frv. finnst mér eðlileg sú tillaga, sem hæstv. félmrh. gerði í lok máls síns, að frv. verði vísað til hv. allshn. til meðferðar í þinginu. Þótt ég taki undir það með hv. 9. þm. Reykn. að nefndin sé mjög störfum hlaðin þá verður að vona að unnt reynist að vinna þetta mál á þeim fáu vikum sem eftir eru af þinginu og það komist í þann búning sem þingmenn geta sætt sig við. En mér finnst mikilsverðast að málið er komið fram og það er kominn vilji ríkisstjórnarinnar og þeirra sem að ríkisstjórninni standa til að ná því fram.
    Hitt hlýtur að vera meginatriði að frá formlegum þáttum málsins sé gengið þannig að ekki sé neinn vafi um réttarstöðu umboðsmannsins og stöðu hans innan stjórnkerfisins. Ég vil leggja áherslu á það atriði því ég tel að við séum ekki hér að fjalla beinlínis um efnisleg réttindi heldur hina formlegu hlið, gæslu réttinda í nafni barna, og ég tek undir að það þjónar þeim tilgangi að bæta hag barna í samfélaginu að koma á slíkri skipan að unnt sé að leita til ákveðins aðila í stjórnkerfinu sem tekur upp málefni barna.
    Það vekur athygli mína í þessu sambandi að þar er notað hugtak sem ég hef ekki séð áður í lagafrv. og er ekki í samræmi við það sem kemur fram í stjórnsýslulögunum. Það er talað um stjórnsýsluhafa. Á nokkrum stöðum er þetta hugtak notað en í stjórnsýslulögunum er almennt talað um stjórnvöld og síðan stjórnsýslunefndir. Ég leit þannig á að þegar frá stjórnsýslulögunum var gengið þá hefðu menn komist að þeirri niðurstöðu að nota orðið stjórnvöld um þá aðila sem hér eru nefndir stjórnsýsluhafar. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort þetta sé réttur skilningur eða hvort þarna sé farið inn á nýjar brautir og það sé verið að ræða um eitthvað annað en það sem við köllum stjórnvöld og kölluð eru stjórnvöld í stjórnsýslulögunum.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra nánar út í hugmynd ráðherrans um stöðu umboðsmanns barna í stjórnkerfinu. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að það bæri að líta á umboðsmanninn sem stjórnvald sem skipað er að tillögu forsrh., en síðan er tekið fram, eins og ég sagði áður, að forsrn. skuli hafa eftirlit með fjárreiðum embættisins. Í greinargerð með frv. segir um 8. gr.:
    ,,Til að tryggja sjálfstæði umboðsmanns barna er þó forsrn. eingöngu ætlað að hafa eftirlit með fjárreiðum embættisins. Um boð- eða eftirlitsvald af hálfu ráðuneytisins er því ekki að ræða. Fyrirsjáanlegt er að tillögur, ábendingar eða gagnrýni umboðsmanns barna geta beinst að ríkjandi stjórnvöldum á hverjum tíma og því er umboðsmanni barna nauðsyn á sjálfstæði í starfi.``
    Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Felst í þessum hugleiðingum í greinargerðinni að það sé ógerlegt fyrir aðila að kæra ákvörðun umboðsmanns barna eða niðurstöðu hans eins og annarra stjórnvalda? Er verið að taka embættið út úr hinni hefðbundnu skipan stjórnvalda sem við höfum sett með stjórnsýslulögunum t.d.? Það er þessi staða sem mér finnst að þurfi að vera mjög skýr varðandi þetta embætti. Þegar við erum að setja á fót embætti sem á að gæta réttinda barna finnst mér mjög mikilvægt fyrir Alþingi að ganga þannig frá málum að það ríki enginn vafi um valdsvið þessa mikilvæga embættis. Hér hefur komið fram hjá hv. 14. þm. Reykv., sem hefur jú fylgt þessu máli eins og margoft hefur komið fram rækilega eftir í þingsölunum, að hún taldi að þessi staða embættisins væri kannski of óljós. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur á þessu til að þarna sé skýrt að orði kveðið. Ég tel einnig mjög óheppilegt þegar við erum að setja á laggirnar embætti til að sinna réttindamálum ef um það embætti eigi síðan að gilda einhverjar undantekningarreglur miðað við hinar almennu reglur sem við höfum um stjórnsýslumálefni. Þarna er því atriði sem við þurfum að velta vel fyrir okkur.
    Það hefur komið fram mikill áhugi í þinginu á þessu máli um langt tímabil og ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir þingið að efna til umræðna um þessi málefni reglulega. Þess vegna finnst mér það heldur þröngt sem segir í greinargerðinni um 8. gr.:
    ,,Í greininni er lagt til að umboðsmaður barna gefi forsrh. árlega skýrslu um störf sín líkt og tíðkast hefur hjá umboðsmanni barna í Noregi.``
    Mér fyndist ekki óeðlilegt að það væri skylda að leggja slíka skýrslu fram á Alþingi þannig að Alþingi gæti þá rætt þessi mál, hefði tilefni og tækifæri til að ræða þessi mál á efnislegum forsendum með hliðsjón af slíkri skýrslu. Það kynni að hvetja til þess að á þinginu tækju menn meira mið af hugmyndunum sem koma fram í störfum umboðsmanns barna og það gæti gagnað okkur við störf að öðrum málefnum sem snerta hagsmuni barna. Mér finnst því að þetta eigi að athuga, ekki þannig að umboðsmaðurinn gefi Alþingi beint skýrslu heldur að forsrh. sé skylt að leggja þá skýrslu fram á Alþingi þannig að hér geti farið fram umræður.
    Mér þótti miður hjá hv. 14. þm. Reykv. að hún taldi að það hefði skipt sköpum um þetta mál að kona situr í embætti félmrh. Mér finnst að það sé vegið að okkur karlmönnum á þingi að láta að því liggja að við höfum ekki áhuga á þessum málefnum. Ég held að við ættum ekki að sitja undir því án þess a.m.k. að hreyfa andmælum. Ég held að hvort sem karl eða kona sæti í embætti félmrh., sem hefur þá skyldu innan stjórnkerfisins að fara með mál barna og á grundvelli þess sem samþykkt hefur verið á þinginu, barnalaganna, frv. um vernd barna og ungmenna og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sé rökrétt að nú sé komið að því, hver sem ráðherrann er og hvers kyns ráðherrann er, að leggja fram slíkt frv. Enda er það í samræmi við ábendingar sem við komum með í allshn. Alþingis þegar við fjölluðum um frv. hv. 14. þm. Reykv. Þannig að ég vildi ekki sleppa því að hreyfa þessari athugasemd þótt hún sé lítilræði miðað við það mikla hagsmunamál sem við erum að fjalla um.
    Það hefur verið vikið að því, frú forseti, að í ár sé ár fjölskyldunnar og þess vegna sé nauðsynlegt að huga að málefnum fjölskyldunnar m.a. á hv. Alþingi. Í greinargerð með frv. segir réttilega, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. vék að í ræðu sinni: ,,Heildstæða fjölskyldustefnu skortir hér á landi og tilhneiging hefur verið til að skilgreina málefni barna sem ,,hin mjúku mál`` með þeim afleiðingum að þau hafa setið á hakanum þegar ákvarðanir eru teknar um skipulagningu þjóðfélagsins og ráðstöfun fjármuna ríkisins. Því er full þörf á því að hér á landi starfi umboðsmaður barna.``
    Ég vil leyfa mér að láta í ljós efasemdir um réttmæti þessara fullyrðinga. Eins og ég hef bent á hefur Alþingi tekið mjög rösklega á málefnum barna á þessu kjörtímabili og fyrir liggur að við munum væntanlega fjalla um málefni skólanna þegar frv. um þau koma hér fyrir þingið.
    Hins vegar kemst ég í svolítinn vanda þegar ég les svona texta þar sem segir að heildstæða fjölskyldustefnu skorti. Ég átta mig ekki nákvæmlega á hvað menn eru að fara. Eru menn að tala um að samþykkt sé ályktun um fjölskyldustefnu eða sett séu einhvers konar fjölskyldulög eða þess sé gætt að öll sú löggjöf sem við erum að setja falli saman og myndi eina heild sem skapi rammann fyrir fjölskyldurnar? Ég held að það hljóti að vera eitthvað slíkt sem menn eru að tala um. Við vinnum að lagasmíð sem snertir hagsmuni barna og fjölskyldunnar að því má segja næstum á hverjum degi. Er verið að gera kröfu um það þegar þetta er sagt og látið í veðri vaka að málefni barna sitji eitthvað á hakanum á hinu háa Alþingi að það þurfi einhverja heildarlöggjöf sem spanni öll málefni er snerta fjölskylduna? Er ekki meira virði að á hverju verkefnasviði löggjafarinnar sé þetta haft að leiðarljósi og hagsmunir fjölskyldunnar hafðir að leiðarljósi heldur en að menn séu að setja sér of háleit markmið varðandi mótun fjölskyldustefnu eða einhvers allsherjarkerfis sem kannski rúmi málefni fjölskyldunnar? Ég held að það hljóti frekar að vera viðfangsefni á mörgum sviðum, eins og raunar kemur fram í þessu frv., að málefni barna heyra undir mörg ráðuneyti og þess vegna er lagt til að umboðsmaður barna sem á að fara með gæslu þeirra í heild heyri undir forsrn.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hvet til þess að þetta frv. fái eins skjóta meðferð og kostur er en jafnframt verði aðilum gefinn kostur á að segja álit sitt á því, segja álit sitt á þessu embætti í stjórnkerfinu þannig að við getum með sem bestum hætti tryggt það að umboðsmaður barna geti gegnt mikilvægu hlutverki sínu.