Umboðsmaður barna

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 15:39:57 (4419)


[15:39]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hafa talað fagna því að þetta frv. er komið fram í þinginu. Ég vil í upphafi máls míns benda á, vegna þess að það kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að hann var ósáttur við að þetta væri frekar kennt því að konur hefðu meiri áhuga á þessu máli en karlmenn og þó ekki sé alveg mark takandi á því þessa stundina, þá hef ég tekið eftir því að í þingsalnum hafa að meiri hluta til verið konur, þ.e. 50% þeirra kvenna sem eiga sæti á þingi en innan við 10% þeirra karla. En ég vona samt að það sé ekki vegna þess að þeir hafi ekki áhuga á málinu heldur er það kannski frekar það að þetta tilheyrir ,,hinum mjúku málum``, eins og kemur reyndar fram í greinargerð, og því ekki óeðlilegt að mjög margir karlmenn veigri sér við að tala um þau mál þar sem þau hafa frekar verið kennd konum. Það gildir kannski alveg það sama um okkur konur hér í þinginu að við veigrum okkur mjög margar a.m.k. við að taka til máls um glerhörð karlamál eins og sjávarútvegsmál og fleiri þó að það sé að breytast. En t.d. í umræðum um sjávarútvegsmál er algengt að ekki tali nema ein kona á móti kannski 15--20 karlmönnum.
    Ég fagna því að hv. 3. þm. Reykv. ræddi áðan af miklum skilningi um þetta mál. Ég er alveg sannfærð um að það munu fleiri vera honum sammála. Það var kannski meira til gamans að geta þessa.
    Ég vil nefna nokkur atriði í sambandi við þetta frv. Í 1. gr. frv. er skilgreining á því hvað séu

börn. Þar segir: ,,Með börnum er í lögum þessum átt við einstaklinga allt að 18 ára aldri.`` Mér finnst rétt að vekja athygli á því í þessari umræðu að skilgreining á því í lögum hvað séu börn er mjög misjöfn. T.d. segir í lögum um vernd barna og ungmenna, sem gengu í gildi fyrir rúmu ári, að með börnum sé átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs en ungmenni eru einstaklingar 16--18 ára að aldri. Það má minna á að ef börn eru innan við 18 ára, þá er börnum leyft að taka bílpróf því að þau mega taka það 17 ára gömul. Framtalsskylda einstaklinga eins og þeir væru fullorðnir hefst einnig þegar þeir eru 16 ára. Börn mega kaupa tóbak t.d. 16 ára en kosningarréttur síðan miðað við 18 ár. Það er því mjög breytileg skilgreining á því hversu gömul börn eða ungmenni eiga að vera til þess að falla undir þá skilgreiningu að teljast börn. Þetta held ég að þyrfti samræmingar með í lögum.
    Ég held að það sem segir hér í a-lið 3. gr. frv., að umboðsmaður barna skuli einkum hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna, sé einmmitt eitt helsta atriðið í því sem hér á að koma til framkvæmda. Það er einnig getið um það í athugasemdum með frv. að heildstæða fjölskyldustefnu skorti hér á landi. Það tel ég líka vera alveg rétt að það komi fram, ekki vegna þess að það þurfi að leggja fram einhvern sérstakan lagabálk sem taki á fjölskyldustefnu heldur að þau lög sem gilda í landinu séu miðuð við þarfir fjölskyldunnar ekki síður en einstaklinga og hagsmunasamtaka, atvinnurekenda, launþega og hvað við viljum kalla alla í þjóðfélaginu. Hér þarf að vera einhver stefnumörkun í gangi og ég held að einmitt frv. til laga um umboðsmann barna sé eitt af þeim atriðum sem tekur á því að setja einhverja stefnu um fjölskylduna.
    Það má minna á að því miður hafa aðgerðir stjórnvalda á síðustu árum heldur orðið til þess að skerða kjör barnafjölskyldna og má í því sambandi nefna að barnabætur hafa verið skertar, framlög til grunnskóla hafa verið lækkuð og vaxtabætur hafa verið skertar, sem bitnar auðvitað á barnafjölskyldum sem eru að koma sér upp húsnæði, og þannig væri hægt að telja upp fleiri atriði. Á síðustu árum hefur því ýmislegt gerst í stjórnkerfinu sem hefur skert hag barnafjölskyldna og þar með barna að sjálfsögðu. Við þurfum að vinna á móti þessu og ég held að m.a. þetta og ár fjölskyldunnar gæti orðið til þess að við förum að hugsa betur ýmisleg mál áður en þau eru samþykkt á Alþingi og hafa orðið til þess að skerða kjör barna.
    Í sambandi við stefnumörkun í fjölskyldumálum og hvað varðar málefni barna, þá kemur svo margt þar inn í. Þetta eru 30% þjóðarinnar. Það er ekki hægt að sjá það þegar við horfum t.d. á skipulag bæjarfélaga eða umferðarmál og öryggismál að tekið sé nægilega mikið tillit til þessa þriðjungs þjóðarinnar. Ég hef stundum hugsað um það þegar ég sem landsbyggðarmanneskja keyri hér um götur að mér finnst að skipulag borgarinnar hafi ekki tekið mið af þörfum barna og fjölskyldna heldur fyrst og fremst af þörfum einkabílsins.
    Að síðustu ætla ég að koma því á framfæri að ég tel að framhaldið af því að hér verði sett lög um umboðsmann barna gæti orðið það að umboðsmanni yrði falið eða hann tæki það til athugunar sjálfur, hver sem hann verður, að gera sérstaka framkvæmdaáætlun, t.d. til fjögurra ára, um að vinna sérstakar úrbætur í málefnum barna sem tæki til mjög margra málaflokka. Fyrir nokkrum dögum vorum við að ræða um byggðaáætlun og við höfum rætt hér um vegáætlun, hafnaáætlun og alls konar áætlanir og ég tel fulla þörf á því að gerð verði sérstök framkvæmdaáætlun um að vinna að úrbótum í málefnum barna. Eins og ég rakti áðan tel ég að því miður hafi kjör barna og barnafjölskyldna heldur orðið lakari á síðustu árum en við getum sætt okkur við og við þurfum að snúa þeirri þróun við nú á ári fjölskyldunnar.