Umboðsmaður barna

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 16:04:46 (4422)


[16:04]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að þakka þær jákvæðu umræður sem orðið hafa um þetta frv. og tel að af því megi draga þá ályktun að á Alþingi sé víðtækur stuðningur við það að stofnað verði til embættis umboðsmanns barna.
    Það hafa komið fram ýmsar gagnlegar ábendingar og athugasemdir sem væntanlega verða teknar fyrir í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að það er mjög mikilvægt að það ríki enginn efi eða óvissa um valdsvið eða stöðu umboðsmanns barna. Ég fór mjög rækilega yfir það í minni framsöguræðu og eins kemur það fram í greinargerð með þessu frv. að nefndin sem samdi það leitaðist mjög við að fara yfir það að verksvið umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna skaraðist hvergi. Eins er það alveg ljóst og skýrt tekið fram í frv. að umboðsmanni barna er ekki ætlað að hafa með höndum málefni sem öðrum stofnunum eða stjórnvaldshöfum er falið að hafa eins og t.d. varðandi ákvæði í barnaverndarlögum, barnalögum og ákvæðum fleiri laga svo að ég held að það sé nokkuð ljóst.
    Varðandi það sem hér var nefnt hvort nokkur munur væri á orðum sem notuð eru hér, sem vissulega sést kannski ekki oft, orðin stjórnsýsluhafi eða stjórnvald, þá er það ekki. Það er enginn greinarmunur þar á. Ég tel að þeim lögfræðingum sem um þetta mál fjölluðu og sömdu þetta frv. hafi efalítið fallið betur að nota orðið stjórnsýsluhafi en ég tel að það þurfi auðvitað að skoða rækilega að samræma það ákvæðum í öðrum lögum eins og stjórnsýslulögunum.
    Varðandi það hvort það sé hægt að kæra ákvarðanir umboðsmanns barna eins og annarra stjórnsýsluhafa þá er það að segja að þegar verksvið umboðsmanns barna er skoðað og ef 3. gr. er lesin, sem ég ætla ekki til að tefja ekki tímann, þá er ekki gert ráð fyrir að það sé um beint ákvörðunarvald hjá umboðsmanni að ræða þannig að það ætti ekki að gefa tilefni til kæru eða að það sé neitt kæruefni. Hér er fyrst og fremst um að ræða að umboðsmaður barna á að hafa frumkvæði í ákveðnum stefnumarkandi þáttum, koma á framfæri tillögum og stuðla að því að þjóðréttarsamningar séu virtir og beina rökstuddum álitsgerðum til viðkomandi stjórnvalda o.s.frv. Þannig að ég geri ekki ráð fyrir að þarna komi fram að ákvarðanir hans eða vinna gefi neitt tilefni til kærumeðferðar.
    Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að það sé rétt að taka af allan vafa um að skýrsla sú sem umboðsmaður barna á að gefa forsrh. verði lögð fyrir Alþingi. Það var alltaf hugmyndin með þessu að skýrslan yrði lögð fyrir Alþingi. Og ef það leikur vafi á því þá er rétt að taka af allan vafa um það í ákvæði í frv. vegna þess að auðvitað er það rétt og sjálfsagt að Alþingi fái tækifæri til að fjalla um störf umboðsmanna barna og þá skýrslu sem hann leggur fyrir forsrh.
    Í lokin þetta. Það er alveg ljóst og það var mikið farið yfir það í nefndinni hvort umboðsmaður barna ætti að heyra undir Alþingi, undir félmrh., eins og hann gerir t.d. í Svíþjóð og fjölskylduráðuneyti í Noregi, en það var að margyfirförnu máli af hálfu þeirra sem um þetta mál sömdu talið rétt til að tryggja sem best sjálfstæði umboðsmanns barna að hann heyrði undir forsrn. en ekki þau fjögur fagráðuneyti sem með einum eða öðrum hætti fjalla um málefni barna. Ég get fallist á að það sé eðlilegt að hafa það með þeim hætti. Það er einmitt rækilega undirstrikað að sjálfstæði umboðsmanns barna sé ótvírætt. Sjálfstæði hans í starfi sé mjög skýrt afmarkað í lögum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu frekar. Ég vænti þess að þetta mál fái góða umfjöllun í nefnd og þar verði fjallað um athugasemdir sem hér hafa komið fram. Vonandi verður frv. að lögum á þessu þingi en þessi umræða gefur tilefni til þess að svo verði.