Ríkisreikningur 1992

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 11:16:52 (4426)


[11:16]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Við tökum nú aftur til umræðu frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1992 sem hafin var í nóvembermánuði sl. ef ég man rétt, en var þá frestað að beiðni hv. þm. Jóns Kristjánssonar þar sem hann taldi að ekki hefði verið gert ráð fyrir umræðunni á dagskrá þann dag og þess vegna ekki verið undirbúinn sem skyldi og auk þess væru endurskoðendur ríkisreikninga þeir sem sæti eiga á hv. Alþingi ekki viðstaddir umræðuna. Þess vegna var það í sjálfu sér eðlilegt að verða við þeirri ósk að fresta umræðunni. En það er líka rétt að það er út af fyrir sig slæmt að fylgja ekki umræðu eftir eins fljótt og hægt er þegar svo viðamikil mál eru á dagskrá eins og endurskoðun ríkisreiknings með þeim skýrslum sem slíku frv. fylgja þegar það er tekið til umræðu hér á hv. þingi. Ég vil þess vegna taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Pálma Jónssonar, þegar hann bendir á að það er mjög nauðsynlegt að fylgja þessu eftir hið fyrsta meðan athugasemdir og umræður eru ferskar.
    Það ber að þakka að nú skuli hafa náðst sá áfangi að ríkisreikningur sé lagður fram til umræðu og samþykktar skömmu eftir nýliðið ár, þ.e. að það skuli takast að koma þessum gögnum inn í þingið á haustþingi eftir að reikningsárið næsta á undan er liðið og þar hefur Ríkisendurskoðun sannarlega náð mikilvægum áfanga. Ég hygg að á síðasta ári eða kannski rúmlega það hafi líklega þrír ríkisreikningar verið lagðir fram á þingnu sem er mjög þakkarvert og ber að hafa það í heiðri og reyna að virða það og þingið þarf þá líka að fylgja þeirri skyldu sinni fram að fjalla um reikninginn og afgreiða hann. Það er ekki nóg að Ríkisendurskoðun, fjmrn. og endurskoðunarmenn ríkisreiknings standi sína plikt mjög vel eða sinni sínum skyldum eins og þeir hafa gert ef þingið síðan fylgir því ekki fast eftir.
    Þetta var svona aðeins um vinnubrögð, virðulegi forseti, sem ég vildi nefna hér í upphafi og það má kannski minna á það reyndar líka í sambandi við það og afgreiðslu þingsins á ríkisreikningum að það hefur vissulega staðið nokkur ágreiningur um það hvernig færa skuli upp einstaka þætti í ríkisreikningi. Það má segja að sá ágreiningur, ef hægt er að tala um ágreining, eða a.m.k. skiptar skoðanir megi rekja allt til þess er ríkisreikningur fyrir árið 1989 var lagður fyrir með nokkuð breyttum hætti þar sem reynt var að færa uppgjör ríkissjóðs nær, eigum við að segja, almennum reikningsskilavenjum í atvinnurekstri þar sem færðar eru skuldbindingar og kröfur með öðrum hætti en áður hafði verið gert. Þau mál öll hafa verið til athugunar og úrvinnslu í sérstakri nefnd sem hefur gengið undir nafninu ríkisreikningsnefnd sem ef ég veit rétt hefur nú loksins lokið störfum og komist að niðurstöðu og þá ætti þinginu heldur ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka þessi mál nú til afgreiðslu, þau sem þegar liggja fyrir þingi óafgreidd.
    Nú er það auðvitað svo og ég undirstrika það að þinginu ber að sjálfsögðu að taka afstöðu til málanna og framfylgja þeim lagaákvæðum sem um þetta fjalla hverju sinni eins og þau eru í gildi en þeir hv.

þm. sem sæti eiga í fjárln. hafa komist að samkomulagi um það að bíða nokkuð eftir niðurstöðu þessarar ríkisreikningsnefndar en nú mun ekki vera neitt að vanbúnaði að fylgja málum fram og afgreiða þau.
    Mig langar að gera hér að umræðuefni nokkur atriði sem fram koma skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar eftir því sem tími minn leyfir. Hv. þm. Pálmi Jónsson, einn af endurskoðendunum, hefur nú þegar gert grein fyrir þeim athugasemdum sem endurskoðunarmenn og Ríkiendurskoðun hefur gert við ríkisreikninginn. Það er vissulega rétt og ber að nefna það strax að vegna þess hve skammur tími leið á milli þessara skýrslna frá ríkisreikningi 1991 til ríkisreiknings 1992 þá er út af fyrir sig ekki hægt að gera ítarlega úttekt á því hvernig til hefur tekist en ég man eftir því við umræður um ríkisreikning 1991 í hv. Alþingi að þá var því beint til hæstv. fjmrh. og reyndar til annarra ráðherra að þeir tækju þessar athugasemdir endurskoðendanna og Ríkisendurskoðunar til gaumgæfilegrar athugunar og beindu því til fagráðuneytanna að fylgja eftir þeim athugasemdum sem hér eru fram settar. Það er til lítils að leggja mikla vinnu í það og benda á marga þætti sem betur mættu fara ef því er ekki fundinn nokkur farvegur að þetta sé tekið til greina og það sé þá a.m.k. skýrt fyrir þingnefndum og þinginu ef ekki er hægt að verða við þeim athugasemdum sem fram eru settar og þingið fái þá aftur í einhverju formi uplýsingar um það hvernig athugasemdum hefur verið fylgt eftir og þær teknar til úrvinnslu eftir því sem við á.
    Í skýrslu yfirskoðunarmannanna eru nefndir nokkrir liðir sem mig langar að nefna sérstaklega, t.d. athugasemdir sem eru gerðar við svokallaða safnliði. Það er vissulega ástæða til að fylgja því eftir að fjárveitingavaldið hafi þrátt fyrir allt fulla yfirsýn og umsjón með því hvernig slíkum safnliðum er ráðstafað og að þingið afhendi ekki fjárveitingavald til annarra aðila en með það eiga að fara og það sé ljóst í hvað fjárveitingum er varið. Um þetta hefur verið ofurlítill ágreiningur milli fjárln. og þar með skulum við segja þingsins annars vegar og ráðuneyta eða ráðherra hins vegar sem hafa haft vilja og óskir til þess að hafa nokkurt svigrúm til þess að mæta óvæntum útgjöldum sem koma upp á hverju ári og erfitt er að sjá fyrir. Þessu átti að mæta með ákvörðun um það að afhenda ráðuneytum sérstakan fjárlagalið sem kallaður hefur verið ráðtsöfunarfé ráðherra og það er mjög mikilvægt að þessir liðir, þ.e. hinir ýmsu safnliðir í fjárlögum og svo þetta ráðstöfunarfé sem beinlínis er merkt ráðherrum, sé skoðað í samhengi. Ég tel út af fyrir sig að það sé nauðsynlegt að slíkt svigrúm sé fyrir hendi en það þarf auðvitað að fylgja því eftir og fylgjast með því hvernig það er nýtt og, eins og hér er gert í athugasemdum yfirskoðunarmannanna, að því sé ekki ráðstafað til þess að auka rekstrarútgjöld ráðuneytanna sem Alþingi hefur kannski fjallað um og e.t.v. í einhverjum tilvikum hafnað að safnliðir gefi síðan ekki möguleika á því að taka upp og verja fé til slíkra þátta heldur sé þetta eingöngu notað til þess að mæta óvæntum þáttum í rekstri sem upp koma og ófyrirsjáanlegir eru.
    Einnig held ég að með þessum fjárveitingum sem ráðherrar eiga að hafa til eigin ráðstöfunar hafi verið hugsað að mæta því sem kalla mætti ýmiss konar úttektir og athugun á einstökum þáttum í ríkisrekstrinum og þá kostnaði við undirbúning að nýjum verkefnum sem þingið gæti síðar tekið til umfjöllunar hvort og hvernig ætti að bregðast við eða ráðast í eftir að ráðuneytin hafa látið framkvæma slíka undirbúningsvinnu. Þá væri þessu fé rétt og eðlilega ráðstafað.
    Annar þáttur sem hér kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmannanna er rekstur heilsugæslustöðva og hvernig með skuli farið eða staðið skuli að þeim rekstri og hv. þm. Pálmi Jónsson gerði nokkuð grein fyrir í ræðu sinni áðan. Mig langar aðeins að segja um það mál sérstaklega að ég held að alla jafnan sé rekstri heilsugæslustöðvanna háttað þannig að þær séu reknar með öðrum sjúkrastofnunum þar sem um það er að ræða, þar sem sjúkrahús og heilsugæslustöðvar eru á viðkomandi stöðum og oft í sama húsi þá sé það eðlilegt en það mætti kannski ganga lengra á þeim stöðum og hafa eina sameiginlega stjórn yfir þessum stofnunum og jafnframt að ráða starfsfólk að þeim sameiginlega þannig að gætt sé fyllstu hagkvæmni í rekstri þessara stofnana. Annars staðar verður þessu vart við komið eins og t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem heilsugæslustöðvarnar eru ekki í neinum samrekstri við sjúkrahúsin svo að dæmi séu nefnd og á hinum smæstu stöðum þar sem aðeins eru heilsugæslustöðvar en ekki t.d. sjúkrahús. Þar að vísu kæmi til greina að þessi starfsemi væri rekin í tengslum við öldrunarþjónustustofnanir, dvalarheimili eða hjúkrunarheimili, en þá kemur hins vegar upp álitamál um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem yrði að skoða sérstaklega í því samhengi.
    Menn hafa rætt um það nokkuð að það sé eðlilegt að taka upp þetta rekstrarform og jafnvel að það væri einn af þeim þáttum sem bæri að skoða varðandi nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég held að eins og þessu er fyrir komið í dag þá sé það með nokkuð góðum hætti og ég held að menn ættu að gefa þeirri verkaskiptingu sem samkomulag varð um fyrir tiltölulega fáum árum síðan nokkurn tíma til þess að sýna sig og sanna áður en stokkið er af stað í enn þá frekari eða róttækari breytingar á því sviði, a.m.k. hvað þennan rekstrarþátt í opinberri þjónustu varðar. Það má gjarnan koma hér fram sem mín skoðun af því að sú umræða hefur oft verið bæði í þingsölum og í þjóðfélaginu, ekki síst í tengslum við umræður um stækkun eða sameiningu sveitarfélaga.
    Einn liður enn sem mig langar að nefna hér í skýrslu yfirskoðunarmannanna fjallar um fasteignir ríkissjóðs og þau auknu umsvif sem sú stofnun sem kölluð er fasteignir ríkissjóðs hefur nú. Vissulega er ástæða til þess að gæta vel að þeirri starfsemi og fylgjast með því hvernig málum er þar háttað. Hér eru settar fram hugmyndir um það að ríkið ætti eftir fyrir fram gerðri áætlun að losa sig við ýmsa embættisbústaði og má vel hugsa sér það að stigin séu ákveðin skref í þá veru en ég vil þó minna á það að sérstaklega á ýmsum smærri stöðum hefur verið mjög erfitt að fá embættismenn til starfa. Ég þekki vel til heilsugæslunnar af því að ég var að tala um þetta áðan og einmitt með því að geta útvegað t.d. heilbrigðisstarfsfólki húsnæði hefur verið hægt að manna stöðvar sem annars hefði verið mjög erfitt að fá starfsfólk til og erfitt að veita þá þjónustu sem nú er þó þar fyrir hendi þannig að slíkt þarf auðvitað að skoða í samkomulagi og í samræmi við þá aðila sem hlut eiga að máli og þær aðstæður sem kunna að vera á hverjum stað. Slíkt getur ekki verið ein algild regla án þess að tekið sé tillit til aðstæðna.
    Þá er hér einnig rætt um launakerfi opinberra starfsmanna og reyndar er fullyrt í skýrslu yfirskoðunarmanna að æ betur komi í ljós að launakerfi ríkisins sé að hruni komið. Hér er auðvitað mikið sagt og kannski stórt tekið upp í sig en þegar skoðað er hvernig að þessum málum er staðið og yfirskoðunarmenn benda hér á þá er sjálfsagt rétt og löngu tímabært að fara rækilega í saumana á þessu máli. Mér er ljóst að það er erfitt viðfangsefni, viðamikið og auðvitað líka viðkvæmt, allt sem lýtur að kjarasamningum og hvernig hægt er að koma betra skikki á þessar greiðslur, þá á það sjálfsagt ekki bara við um opinbera starfsmenn heldur víða í þjóðfélaginu að mönnum séu greidd laun fyrir þá vinnu sem þeir eru að vinna, fyrir það vinnuframlag og þann tíma sem þeir eyða í sinni vinnu en ekki fyrir ýmislegt annað, kannski jafnvel óskylt eða lítt viðkomandi til þess eins að breyta launum eða greiða meira fyrir þau störf sem unnin eru og þá eru fundnar ýmsar aðrar leiðir en það að virða vinnuframlagið sjálft og vinnutímann sem er auðvitað það sem skiptir máli og á að greiða fyrir.
    Eitt er hér nefnt í þessari skýrslu yfirskoðunarmanna þegar þeir eru að ræða um launakerfi opinberra starfsmanna sem ég vil undirstrika og það kemur einnig fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sjálfrar þar sem þeir gera almennar athugasemdir við bókhald og fjárreiður stofnana og það er notkun stimpilklukku. Mig langar að segja aðeins frá því að á Ríkisspítölum þar sem ég á sæti í stjórn hefur verið mikil glíma undanfarin ár við að koma á notkun stimpilklukkunnar og þykir sjálfsagt ýmsum einkennilegt sem ekki þekkja nægjanlega vel til að það skuli vera vandkvæðum háð að taka upp slíkan hlut sem ýmsir telja sjálfsagðan og reyndar er kveðið á um í lögum þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Hafa skal stimpilklukkur í skrifstofum og á vinnustofum þar sem því verður við komið og halda skrá um hvenær starfsmenn koma til vinnu.``
    Þetta er úr 30. gr. laga nr. 58/1954, sem því miður hefur ekki tekist að fylgja nægjanlega vel eftir. Það er útilokað fyrir eina eða tiltölulega fáar opinberar stofnanir að fylgja þessum lagaákvæðum eftir og vinna að þessum málum af fullri hörku ef það gildir ekki eitt um alla í því efni. Þar verða ráðherrar og ráðuneytin að taka á með stjórnendum stofnana ef þeir vilja á annað borð láta framfylgja þessu ákvæði. Ég bið hæstv. fjmrh. að taka það til athugunar og minna sína hæstv. samráðherra á að það er ekki hægt, það er algerlega útilokað fyrir stjórnendur einnar stofnunar að fylgja slíku eftir ef það er ekki samræmt átak og því fylgt eftir af hálfu ráðuneytanna til sinna stofnana og undirstofnana. Öðruvísi gengur það mál ekki upp.
    Þetta voru nokkur atriði úr skýrslu yfirskoðunarmanna sem mig langaði á þessu stigi, virðulegur forseti, að nefna í þessari umræðu. Að lokum um þá þætti sem koma fram í þessari skýrslu vil ég taka undir þá athugasemd sem hér er sett fram um starfsemi Ríkisendurskoðunar og farveg fyrir skýrslur þær sem Ríkisendurskoðun vinnur, bæði stjórnsýsluendurskoðun og aðrar skýrslur sem hún sendir frá sér og sendar eru hv. Alþingi og koma til meðferðar og meðhöndlunar hjá hv. alþm. Það þarf að finna eðlilegan farveg fyrir þessar skýrslur. Það þarf að finna þeim vettvang til umfjöllunar og umræðu og síðan helst að afgreiða þær í einhverju formi þannig að hægt sé að fylgja eftir þeim athugasemdum sem þar eru settar fram eins og ég nefndi áðan.
    Tími minn er alveg að renna út í þessari umferð, virðulegur forseti, og kannski er ekki ástæða til að orðlengja mikið um þetta því frv. kemur til meðferðar fjárln. þar sem ég á sæti og kemur síðan aftur hér til umræðu þannig að þar er möguleiki að koma öðrum athugasemdum á framfæri. En mig langar þó að nota síðustu mínútur mínar til að ræða um tvo eða þrjá þætti í skýrslu Ríkisendurskoðunar sjálfrar þar sem m.a. er fjallað um svonefndar sértekjur.
    Ríkisendurskoðun vekur athygli á að sértekjur stofnana eru í verulegum mæli færðar þannig að þær eru dregnar frá gjöldum en ekki færðar sem tekjur í ríkissjóð. Við þetta hef ég margsinnis gert athugasemdir, t.d. við umræður um fjárlög, og nota þetta tækifæri til að koma því enn á framfæri að ég tel mjög erfitt bæði að bera saman rekstur og rekstrarumfang hins opinbera og eins að fá raunsanna mynd af raunverulegri tekjuöflun, við getum kannski í sumum tilfellum kallað það skattheimtu hins opinbera, á meðan þannig er farið með sértekjurnar, þ.e. sölu á vöru og þjónustu og greiðslu fyrir þá þjónustu sem opinberar stofnanir veita, þegar þær eru dregnar frá gjöldum ríkissjóðs í staðinn fyrir að færa þær með tekjunum þannig að við sjáum heildarumfangið. Þetta gerir Ríkisendurskoðun athugasemd við og ég vil taka undir það.
    Sama er að segja varðandi athugasemdir Ríkisendurskoðunar um það hvernig farið er með afskrift tapaðra skattskulda. Þar er líka erfitt ef ekki er ítarlega gerð grein fyrir því að gera samanburð á rekstrarumfangi og útgjöldum í heild.
    Að lokum er í almennum athugasemdum Ríkisendurskoðunar fjallað um það að allt frá árinu 1988 hafi tæpir 15 milljarðar kr. af útistandandi kröfum ríkissjóðs vegna álagðra gjalda tapast beint eða óbeint. Þetta eru stórar tölur og miklar upphæðir og fyrir því geta verið ýmsar ástæður bæði eðlilegar og í einhverjum tilfellum kannski óeðlilegar en við skulum vona að svo sé ekki. En þó er það auðvitað vegna þess að atvinnurekstur hefur gengið erfiðlega ekki síst hin seinustu missirin og gjaldþrot verið tíð sem hefur leitt til þess að verulegar upphæðir hafa tapast.
    Í sumum tilfellum hafa aðgerðir opinberra aðila, t.d. mikil áhersla á útboð til hinna ýmsu verkefna, leitt til gjaldþrota og leitt til þess að sá hagnaður sem ríkið hefur í sumum tilfellum talið sig hafa af hagkvæmum útboðum hefur ekki skilað sér þegar upp er staðið vegna þess að ríkið hefur í kjölfar óraunhæfra tilboða sem leitt hafa til gjaldþrota orðið að afskrifa skattaskuldir hjá þessum fyrirtækjum í viðbót við það að slík gjaldþrot hafa síðan áhrif á ýmsan annan rekstur sem einnig hefur leitt til gjaldþrota smærri aðila.
    Það voru nokkur atriði fleiri, virðulegur forseti, sem mig hefði langað til að nefna en tími minn er útrunninn. Ég sé til hvort ástæða er til að koma í umræðuna aftur síðar.