Ríkisreikningur 1992

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 12:14:40 (4431)


[12:14]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Fyrst varðandi það síðasta sem hv. þm. gat um og snertir tilboð sem ríkið tekur vegna útboðsstarfsemi sinnar. Ég vil geta þess af því að hv. þm. nefndi Vegagerðina í því sambandi, að sú vinnuregla tíðkast nú, og ég hygg að hæstv. núv. samgrh. Halldór Blöndal hafi tekið þann háttinn upp, að það er ekki samið við verktaka nema þeir séu í skilum við ríkið. Þetta hefur leitt til þess að þeir sem hafa komið með lægstu tilboð hafa ekki fengið verk nema fyrst séu greiddar upp eða gengið frá viðkomandi skuldum.
    Ég vil einnig geta þess að a.m.k. hjá Vegagerðinni hefur verið litið þannig á að það þurfi ekki að taka lægstu tilboðin, þó að það sé auðvitað meginreglan, ef sterk rök mæla gegn því. Og ég býst við að starfsmenn Vegagerðarinnar, sem hefur hvað þróuðustu starfsemina hvað þetta snertir, geti staðfest þetta við hv. þm. ( GB: Áföllin eru nú mörg samt, hæstv. ráðherra, eins og dæmin sanna.) Já. Það er ætíð þannig að áföll verða og ég býst við því að ástæðan sé ekki síst sú að menn eru sífellt að stofna ný og ný fyrirtæki sem þá eru að nafninu til skuldlaus, en fyrri fyrirtæki sem jafnvel sömu eigendur stóðu að skilja eftir sig slóð. Það er vandamál sem við þekkjum og hefur talsvert verið rætt um hér.
    Ég tel ástæðu til þess að það komi hér fram af minni hálfu að mér finnst að framkvæmdarvaldið og þá kannski helst fulltrúar fjmrn. eigi að eiga formlegan fund með yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings og Ríkisendurskoðun um þær ábendingar sem koma fram í endurskoðun ríkisreiknings á hverjum tíma. Mér finnst jafnframt að það eigi síðan, þegar niðurstaða liggur fyrir og báðar hliðar liggja fyrir í því máli, að ræða það í fjárlaganefndinni, sem þarf að fylgjast með framkvæmd fjárlaga.
    Loks vil ég, hæstv. forseti, segja að það er að sjálfsögðu mikill munur á sköttum og sértekjum. Vegna fyrirspurnar hv. þm. þá kemur það fram að sértekjur hafa lækkað heldur, bæði á yfirstandandi ári og sl. ári, miðað við 1992, en þá hækkuðu þær um rúma 2 milljarða. En til þess að reyna að skýra út hver munurinn er, þá eru það skattar ef fólk greiðir umfram það sem það er að greiða fyrir tiltekna afhenta þjónustu og skattarnir lenda í sameiginlegum sjóði og fjármununum er ráðstafað af þeim sem eiga að ráðstafa slíkum fjármunum, eins og t.d. ef þeir renna í ríkissjóð, eða að fjármununum er hægt að ráðstafa með boðum fjárveitingavaldsins. Það er hins vegar ekki hægt að fallast á það að hlutur sjúklinga vegna lækninga eða meðferðar séu skattar. Ég get ekki heldur fallist á það að hlutur þess sem kaupir lyf séu skattar. Og ég get ekki heldur fallist á það að þegar ég fer í strætó og borga mitt strætógjald þá séu það skattar. Það er greiðsla fyrir veitta þjónustu og sú greiðsla nær ekki nálægt því upp í þann kostnað sem um er að ræða í það skiptið. Þetta vil ég að komi fram og ég hef verið ófeiminn við að prédika að ég tel að það eigi að fara lengra í þessa átt og það sé aldrei brýnna en einmitt nú að láta á sem flestum sviðum þá sem efni hafa á því greiða fyrir þá þjónustu sem þeir fá, til þess að við höfum meiri fjármuni til ráðstöfunar fyrir hina sem þurfa á þeim að halda. Þetta vil ég að komi hér mjög skýrt fram af minni hálfu.