Skattskylda innlánsstofnana

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 12:19:30 (4432)


[12:19]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum.
    Í frv. er lagt til að teknar verði upp breyttar reglur um afskriftareikning útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Samkvæmt gildandi reglum færa þessar stofnanir nú afskriftir útlána til gjalda með tvennum hætti. Annars vegar færa þær til gjalda sannanleg útlánatöp á grundvelli almennra ákvæða skattalaga. Hins vegar hafa þær heimild til að færa til gjalda 1% af aukningu útlána og veittra ábyrgða á rekstrarárinu. Þessi leið, sem kölluð er blokkafskrift, þykir almennt vera einföld en að sama skapi mjög ónákvæm leið til að meta afskriftaþörf vegna almennrar útlánaáhættu.
    Í 1. gr. frv. er lagt til að horfið verði frá þessari blokkafskriftaleið og viðskiptabönkum og sparisjóðum heimilað að gjaldfæra sömu útlánaafskriftir til skatts og þessar stofnanir færa í reikningsskilum sínum í samræmi við þær reglur sem gilda um reikningsskil banka og sparisjóða. Rökin fyrir þessum breytingum eru ekki hvað síst þau að nauðsynlegt sé að löggjöf okkar verði sem mest sniðin að því sem gildir í nágrannalöndum. Á það ekki hvað síst við um þessar mundir þegar Ísland er að ganga inn í hið Evrópska efnahagssvæði sem hefur í för með sér að bankar þurfa að vera reiðubúnir að mæta harðri samkeppni erlendis frá. Það er því nauðsynlegt að skattareglur séu ekki með því sniði að þær veiki samkeppnisstöðu innlendra aðila gagnvart hugsanlegum erlendum samkeppnisaðilum. En þau lönd sem við höfum litið mest til í þessu sambandi, þ.e. Norðurlöndin, hafa á síðustu árum öll breytt reglum sínum varðandi afskriftareikning útlána í þá átt sem lagt er til í þessu frv. Rökin fyrir þessum breytingum, bæði hér og erlendis, eru ekki hvað síst eftirtalin:
    1. Um reikningsskil banka og sparisjóða gilda nákvæmar, opinberar reikningsskilareglur, þar á meðal um mat á útlánaafskriftum.
    2. Bankar og sparisjóðir eru háðir ströngu opinberu eftirliti og ársreikningar þeirra eru endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum.
    3. Bankar og sparisjóðir eru háðir mjög ströngum, alþjóðlegum reglum um lágmarkshlutfall eiginfjár, svokölluðum BIS-reglum. Til þess að viðhalda eiginfjárstöðunni verður hver banki að sýna góðan rekstrarhagnað að jafnaði, enda er hagnaður forsenda innri eiginfjármyndunar og forsenda þess að nýtt eigið fé fáist með sölu hlutafjár. Úr því að banki verður að sýna góðan hagnað að jafnaði, og séu skattareglur þær sömu og reikningsskilareglur, hlýtur bankinn og/eða hluthafar hans að skila tilætluðum tekjuskatti að jafnaði, enda þótt skattareglur séu þær sömu og opinberar reikningsskilareglur.
    Þessi atriði sem hér hafa verið rakin skapa í reynd traustan ramma um meðferð útlánaafskrifta í reikningsskilum sem ekki þykir ástæða til að víkja frá í uppgjöri til skatts.

    Rétt þykir að það komi fram að frv. er samið í samráði við fulltrúa frá Sambandi viðskiptabanka, viðskiptaráðuneyti og embætti ríkisskattstjóra og eru allir aðilar sammála um að þetta sé til mikilla bóta.
    Að lokum er rétt að það komi fram að eftir að frv. þetta var lagt fram á Alþingi voru samþykkt lög um aðrar lánastofnanir en viðskiptabanka og sparisjóði. Með þeim lögum er settur sambærilegur rammi utan um starfsemi annarra lánastofnana og gildir um banka og sparisjóði. Þykir eðlilegt að þessar stofnanir séu undir sams konar skattareglur settar og mun fjmrh. leggja til við efh.- og viðskn. að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á þessu frv. til að því markmiði verði náð. Það er fróðlegt að sjá hvað fjmrh. ætlar að gera í því sambandi.
    Virðulegi forseti. Að þessu mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.