Skattskylda innlánsstofnana

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 12:27:58 (4434)


[12:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég býst við að ég geti ekki svarað fullkomlega þeim fyrirspurnum sem komu fram hjá hv. þm. en tel eðlilegt að nefndin taki þær til skoðunar. Ég vil þó segja það að þegar litið er á rekstrarútgjöld banka, hvort sem það eru bankar í opinberri eigu eða einkaeigu, þá hljóta eigendurnir að fylgjast með rekstrarútgjöldunum, annars vegar hluthafar og hins vegar ríkið. Það er til samanburður á rekstrarútgjöldum og sá samanburður kemur auðvitað að gagni þegar um samkeppni er að ræða, sem er vissulega milli þessara banka allra, ef við lítum eingöngu á bankana.
    Það hefur um langan aldur borið á því í umræðunni að menn hafa kannski ekki alveg verið sáttir á að hve miklu leyti rekstrartekjur bankanna eiga að fást af vaxtamun annars vegar og þjónustugjöldum hins vegar. Þessi mál hafa verið nokkuð á hreyfingu, en ég hygg að í íslenska bankakerfinu hafi menn talið að það eigi að reyna að draga úr vaxtamuninum en auka þátt þjónustugjaldanna vegna þess að í raun hefur þjónusta bankanna verið niðurgreidd miðað við kostnað sem af henni hlýst.
    Seðlabankinn fylgist með bönkum og reyndar öðrum stofnunum eins og verðbréfafyrirtækjum. Það er bankaeftirlitið sem fer með það eftirlitshlutverk. Ábyrgð Seðlabankans er mikil og kemur það m.a. fram í nýlegum dómi vegna Ávöxtunar, þar sem talið var að hefði skort á þetta eftirlitshlutverk, ef ég man rétt.

Þessi mál hafa þess vegna á undanförnum missirum verið meira í brennidepli.
    Annað sem hefur komið til skjalanna er það vandamál sem uppi er á Norðurlöndum þar sem bankar hafa hver um annan þveran farið á hausinn. Og vandamál hefur komið upp í Landsbanka Íslands og hefur leitt til þess að ríkissjóður hefur þurft að bæta við eign sína í bankanum með því að leggja bankanum til skuldabréf og fjármuni vegna BIS-reglnanna en á móti hefur ríkisvaldið, fulltrúi eigendanna, gert auknar kröfur til banka sem skera niður ríkisútgjöld.
    Þannig að öll þessi atriði sem hv. þm. nefndi eru til skoðunar einmitt þessa dagana og ekki nema eðlilegt að nefndin sem fær málið til meðferðar fari ofan í saumana á þeim málum.
    Frv. snýr hins vegar fyrst og fremst að afskriftareglum þar sem gert er ráð fyrir að þær verði sveigjanlegri og meira í hátt við það sem gerist annars staðar. Ég tel að það sé til fyrirmyndar og geti leitt til þess að menn vari sig meira á því í framtíðinni en var hér áður og fyrrum hvernig útlánastýringin eigi að vera. Við verðum í vaxandi samkeppni á næstu árum og þess vegna er nauðsynlegt og eðlilegt að okkar reglur séu samsvarandi og ekki lakari fyrir bankana og aðrar innlánsstofnanir en gerist og gengur í okkar nágranna- og samkeppnislöndum.