Skráning og mat fasteigna

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 12:32:23 (4435)


[12:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum.
    Megintilgangur frv. er að styrkja starfsemi Fasteignamats ríkisins og efla tengsl stofnunarinnar við sveitarfélög í landinu. Skipta má efni lagabreytinganna í þrennt. Vil ég þó fyrst taka fram að þetta frv. var til umræðu á síðasta þingi. Það dagaði uppi vegna tímaskorts en nú hefur það tekið breytingum, einkum þeim breytingum sem ábendingar komu fram um í störfum þingsins.
    Í fyrsta lagi er í frv. gert ráð fyrir að fellt verði brott ákvæði í lögum um að Fasteignamat ríkisins flokkist sem A-hluta stofnun. Hvar stofnanir flokkast í ríkisreikningi á að ráðast af aðstæðum á hverjum tíma og að hve miklu leyti stofnun aflar tekna utan ríkisins. Í raun hefur sú stefna þegar verið mörkuð með samþykkt fjárlaga að gera Fasteignamatið að B-hluta stofnun er fjármagni starfsemi sína að stórum hluta með sértekjum.
    Í öðru lagi er í frv. gert ráð fyrir að Fasteignamati ríkisins verði sett þriggja manna stjórn. Þar af tilnefni Samband íslenskra sveitarfélaga einn. Sveitarfélög hafa verulegra hagsmuna að gæta af starfi stofnunarinnar þar sem fasteignagjöldin eru grundvölluð á fasteignamati. Því er nú stigið það skref að láta sveitarfélög fá bein áhrif á stjórn Fasteignamats ríkisins. Hlutverk stjórnarinnar verður m.a. að móta starf og innra skipulag stofnunarinnar, hafa eftirlit með rekstrinum og gera tillögur að gjaldskrá. Gert er ráð fyrir að stjórnin verði skipuð til fjögurra ára í senn.
    Í þriðja lagi þykir ástæða til, m.a. í ljósi umræðna fyrir skömmu, að setja inn ákvæði um að Fasteignamat ríkisins skuli hafa eftirlit með því að sveitarfélög sinni þeirri lögbundnu skyldu sinni að senda stofnuninni fullnægjandi upplýsingar um gerð og breytingar á fasteignum. Slíkt eftirlitshlutverk var ekki bundið í lög áður. Tilgangurinn er að tryggja að fasteignamatið, sem er grunnur að álagningu fasteignagjalda, byggist á eins nýjum upplýsingum og kostur er. Jafnframt ber stofnuninni að upplýsa fjmrn. og félmrn. um matstörf í einstökum sveitarfélögum og hvort þeim sé ábótavant.
    Frv. um skráningu og mat fasteigna var lagt fram á síðasta þingi eins og ég gat um í upphafi máls míns en var ekki afgreitt. Það hefur tekið ýmsum breytingum. Þar á meðal var fallið frá breytingu sem tengdist gjaldtöku fyrir veitta þjónustu. Niðurstaða athugunar er sú að þegar séu fyrir hendi í lögum nægar heimildir til gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir og búast má við að hún veiti í náinni framtíð.
    Í fyrra frv., sem lá fyrir síðasta þingi, var einnig lagt til að Fasteignamat ríkisins hefði heimild til að framkvæma annars konar mat en hið eiginlega fasteignamat en það ákvæði er ekki í þessu frv. þar sem ekki verður séð að slík vinna sé stofnuninni óheimil samkvæmt núgildandi lögum. Með gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið verður öllum tryggingafélögum heimilt að sjá um brunatryggingar og því opnast sá möguleiki að Fasteignamat ríkisins taki að sér brunabótamat fasteigna gegn gjaldi.
    Að svo mæltu, hæstv. forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.