Skráning og mat fasteigna

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 12:51:45 (4439)


[12:51]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt því sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, þá er ekki búið að ákveða að leggja fram neinar tillögur um flutning ríkisstofnana út á land. Við höfum samt orðið vitni að því í umræðunni að það er verið að leggja til að nokkrar ríkisstofnanir verði fluttar út á land og hæstv. forsrh. hefur einnig lýst því yfir í þinginu að það muni verða gert. Ég man ekki hvort hann sagði ,,mjög fljótlega`` en a.m.k. sagði hann ,,nú á þessu þingi``. Það eru ekki mjög margir vinnudagar eftir af þinginu og mörg mál sem liggja fyrir og þess vegna er nokkuð athyglisvert að heyra að hæstv. fjmrh. hefur ekkert heyrt um það enn þá að það standi til að leggja fram neinar tillögur um þetta.
    Hvað varðar Fasteignamat ríkisins sérstaklega, þá hefur það, eins og hann sagði, verið mikið í umræðunni að Vestfirðir hafa ekkert útibú innan síns kjördæmis og orðið mjög nauðsynlegt og áreiðanlega meira en eitt starf til að sinna því sem þar er. Það gæti hugsanlega náð til hluta af Norðurlandi vestra þar sem næsta útibú Fasteignamatsins er á Akureyri. Frá Borgarnesi til Akureyrar er ekki neitt eins og ég gat um áðan.