Norræna ráðherranefndin 1993--1994

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 13:30:20 (4440)


[13:30]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu um störf norrænu ráðherranefndarinnar 1993--1994 sem er á þskj. 613.
    Skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar, sem er í Kaupmannahöfn, gefur árlega út viðamiklar skýrslur um störf nefndarinnar sem síðan koma til umræðu á fundum Norðurlandaráðs. Skýrslan um starfsemi liðins árs er jafnan mikil að vöxtum, enda er þar gerð nákvæmlega grein fyrir þeim störfum sem unnin hafa verið á liðnu starfsári. Þessi skýrsla er yfirleitt nefnd C1. Hin skýrslan, sem nefnd er C2, er starfsáætlun ráðherranefndarinnar fyrir komandi starfsár. Sú skýrsla er mun minni í sniðum en starfsskýrsla liðins árs, enda er þar aðeins stiklað á stærstu atriðum varðandi stefnumótunina. Hin endanlega stefnumótun um hið norræna samstarf fer síðan fram við afgreiðslu norrænu fjárlaganna þannig að til þess að fá heildarmynd af hinni skipulögðu norrænu samvinnu verður að skoða saman skýrslurnar tvær og fjárlögin.
    Danska, norska og sænska eru hin opinberu mál í norrænu samstarfi þannig að norrænar þjóðir sem mæla á aðrar tungur verða sjálfar að láta þýða skýrslur þessar, svo og annað norrænt efni, á sínar eigin þjóðtungur ef menn vilja veita almenningi aðgang að upplýsingum um gang mála. Mikið af því efni sem varðar norrænt samstarf hefur ekki verið þýtt á íslensku heldur hafa menn reynt að velja úr og endursegja hvað af þessu skrifaða máli er talið skipta mestu frá sjónarmiði Íslendinga. Þannig hafa samstarfsráðherrar Íslands á undanförnum árum lagt fram þýdda og endursagða kafla úr skýrslum ráðherranefndarinnar að viðbættu því efni sem berst frá íslenskum embættismönnum og forsvarsmönnum verkefna sem tengjast Íslandi sérstaklega.
    Þannig er skýrsla þessi nú úr garði gerð. Hún er ekki bein þýðing á starfsskýrslu norrænu ráðherranefndarinnar heldur er hún samin sérstaklega með hliðsjón af starfsskýrslunni og upp í skýrsluna auk þess teknar ýmsar áherslur úr norrænu samstarfi sem varða Ísland og íslenska hagsmuni sérstaklega. Þó hefur verið brugðið á það ráð að þýða sérstaklega áætlunina um norrænt samstarf 1994, skýrslu þá sem nefnd hefur verið C2, og fylgir hún með skýrslu samstarfsráðherra sem fskj. IV. Þá fylgja einnig með í fskj. yfirlýsing forsætisráðherra Norðurlanda sem gefin var út í tengslum við 42. þing Norðurlandaráðs í Ósló þann 1. mars 1993, þar sem forsætisráðherrarnir lýsa m.a. ánægju sinni með störf á grundvelli þeirra tillagna um umbætur í norrænni samvinnu sem lagðar voru fram á forsætisráðherrafundinum á Borgundarhólmi og á 41. þingi Norðurlandaráðs í Árósum. Á grundvelli þessara tillagna hefur áherslum verið breytt í hinu norræna samstarfi eins og lýst var á Alþingi fyrir ári síðan.
    Þá leggja forsætisráðherrarnir í þessari yfirlýsingu sérstaka áherslu á baráttu gegn atvinnuleysi sem þeir kváðu vera mikilvægasta þjóðfélagsverkefni á öllum Norðurlöndum um þessar mundir.
    Þá fylgir einnig með í fskj. II samstarfssamningurinn milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, Helsingfors-sáttmálinn, sem upphaflega öðlaðist gildi 1. júlí 1962. Síðasta endurskoðun á texta samningsins tók gildi 7. nóv. 1993. Einnig fylgja með skýrslunni sem fskj. III starfsreglur norrænu ráðherranefndarinnar sem samþykktar voru 4. mars 1993 og tóku gildi 15. mars sama ár.
    Að öðru leyti er skýrslan þannig upp byggð að í 1. kafla er gerð grein fyrir endurmati því á norrænu samstarfi sem fólst í endurskoðun Helsingfors-sáttmálans og nýjum reglum um störf norrænu ráðherranefndarinnar. Meginatriðin samkvæmt hinum nýju verklagsreglum eru m.a. þau að forsætisráðherrarnir hafa nú tekið að sér yfirstjórn hins norræna samstarfs. Þessar breytingar tóku gildi á 42. þingi Norðurlandaráðs í Árósum og lýsa sér m.a. í því að í upphafi vorþings Norðurlandaráðs flytur einn úr hópi forsætisráðherra Norðurlandanna, þ.e. forsætisráðherra þess lands sem taka á við forustuhlutverki í ráðinu og formennskuhlutverki í ráðherranefndunum, stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórna Norðurlanda um hvernig þær hyggjast haga hinni norrænu samvinnu ríkisstjórna á næsta starfsári. Kemur það nú í hlut forsrh. Íslands, Davíðs Oddssonar, að flytja slíka stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórna Norðurlanda á næsta þingi Norðurlandaráðs sem haldið verður í byrjun marsmánaðar í Stokkhólmi.
    Þá felur endurmat hinnar norrænu samvinnu það einnig í sér að starfseminni er nú þjappað saman um sjö megináhersluflokka sem eru menningarmál, rannsóknir og menntun, umhverfismál, réttindamál þegnanna, efnahagsmál, sjávarútvegsmál og löggjafarmál. Er efnisskipunin í skýrslu samstarfsráðherra í stórum dráttum miðuð við þessa sjö megináhersluflokka. Fjárlögum norrænu ráðherranefndarinnar er svo ætlað að endurspegla þessa áhættuflokka, en þó þannig að 12 sérstök samstarfssvið koma einkum til álita við mótun framtíðarstefnu og gerð fjárlaga. Þessi 12 samstarfssvið eru menningarmál, rannsóknir og menntun, umhverfismál, sjávarútvegsmál, félags- og heilbrigðismál, vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismál, neytendamál, orku- og iðnaðarmál, byggðamál, landbúnaðar- og skógræktarmál, löggjafarmál og jafnréttismál.
    Gert er ráð fyrir að fjármunir séu veittir til allra þessara málaflokka á fjárlögum ársins 1994 og að svo geti orðið áfram.
    Ég ætla í orðum mínum á eftir að víkja nokkuð að þeim þáttum í starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar sem varða annars vegar nýmæli í norrænu samstarfi samkvæmt nýjum starfsreglum og endurskoðuðum Helsingfors-sáttmála og hins vegar að víkja að örfáum atriðum sem varða sérstaklega íslensk áhugasvið. Þá mun ég fara nokkrum orðum um þann undirbúning sem átt hefur sér stað hér á Íslandi vegna formennskuárs Íslands í norrænu samstarfi sem hefst á næsta Norðurlandaráðsþingi og að lokum ræða lítið eitt um áhersluatriði í norrænni samvinnu í framtíðinni.
    Meðal þess sem ákveðið var í tengslum við endurmat norræns samstarfs var að auka mjög áherslu á fjárveitingar til menningarmála, rannsóknarmála og menntamála. Á árinu 1994 skyldi þannig auka fjárveitingar til þessara þriggja samstarfssviða um 25% frá árinu 1993 og stefna ber að því að eigi síðar en árið 1996 renni 50% af norrænu fjárlögunum til þessara samstarfssviða. Jafnframt er ákveðið að ganga út frá þeirri forsendu við fjárlagagerðina að heildarframlög til norrænnar samvinnu yrðu óbreytt að raungildi milli áranna 1993 og 1994.
    Þessi ákvörðun hafði í för með sér að til þess að mæta samþykktum um stóraukin fjárframlög til menntamála, menningarmála og rannsókna þurfti að skerða allverulega fjárveitingar til annarra þátta. Fljótlega þegar farið var að vinna eftir þessum markmiðum komu í ljós talsverðir erfiðleikar á því að draga svo mikið úr útgjöldum til annarra samstarfsverkefna að hægt væri að auka útgjöld til menningarmála, rannsókna og vísindastarfsemi eins og gert hafði verið ráð fyrir. Kom m.a. fram á þingi Norðurlandaráðs í Maríuhöfn í nóvember 1993 talsverð andstaða við að stigið yrði eins stórt skref og ráðgert hafði verið og var samþykkt á þinginu tillaga um að minnka viðbótarfjárveitinguna til mennta, menningarmála og rannsókna um ríflega 7 millj. danskra króna og verja þeim mismun til verkefna á öðrum samstarfssviðum, m.a. til samvinnu á sviði iðnaðarmála og fiskveiða. Samstarfsráðherrarnir staðfestu fjárlögin í samræmi við tillögur Norðurlandaráðs.
    Þá er það einnig nýmæli að verið er að þróa ramma og markmið í stjórnun við fjárlagagerð hinna norrænu fjárlaga, en stefnt er að því að slík ramma- og markmiðsstjórnun hafi tekið til allra norrænna stofnana í síðasta lagi árið 1995. Þetta nýmæli er hugsað þannig að gerður verði sérstakur samningur milli stofnananna sem kostaður er af norrænum fjárlögum og ráðherranefndarinnar og marki samningurinn eðli verkefnisins, umfang þess svo og fjárhagsgrundvöll þess. Um sé að ræða eins konar verkkaupasamning milli ráðherranefndarinnar og sérhverrar stofnunar þar sem stofnunin fái tiltekin fjárframlög til tilgreindra verkefna með samningum. Samningunum verði síðan fylgt eftir með skýrslugjöf er taki til samningstímans þar sem greint verði frá árangri miðað við verkefni og fjárframlög.
    Samfara þeirri áherslubreytingu sem gerð hefur verið og lýst var hér að framan hafa einnig ýmsar skipulagsbreytingar átt sér stað og þá ekki síst varðandi þau viðfangsefni sem ákveðið hefur verið að leggja sérstaka áherslu á. Þannig hefur ein ráðherranefnd á sviði menningar-, mennta- og vísindamála verið lögð niður en í staðinn komið tvær, annars vegar ráðherranefnd menningarmála og hins vegar ráðherranefnd mennta- og vísindamála. Með hliðstæðum hætti koma tvær embættisnefndir í stað einnar áður fyrir hvort framangreindra sviða. Er þessi skipulagsbreyting gerð í ljósi þess hve aukið mikilvægi menningarmál og mennta- og vísindamál hafa nú fengið í norrænu samstarfi.
    Ástæða er til að geta þess hér að hugmyndir um norræna sjónvarpsrás, sem voru mjög ofarlega á baugi fyrir einu ári síðan og voru endurvaktar að frumkvæði þáv. samstarfsráðherra Íslands og nutu stuðnings forsætisráðherranna, ekki síst forsætisráðherra Svíþjóðar, voru teknar til umfjöllunar á fundi forsætisráðherranna í Maríuhöfn á Álandseyjum þann 7. nóv. í haust. Á grundvelli mats sem fram hafði farið var það niðurstaða ráðherranna að ríkisstjórnir landanna hefðu ekki tök á að veita þann fjárhagsstuðning sem gert var ráð fyrir. Var málinu þá vísað til sjónvarpsstofnananna sjálfra til þess að meta hvaða möguleikar kynnu að vera á að koma upp norrænni sjónvarpsrás. Einnig hafa forsætisráðherrarnir beint því til menningarmálaráðherranna að kanna hvernig bæta megi skilyrði til dreifingar á sjónvarpsefni milli norrænna grannlanda og efla gagnkvæm skipti á sjónvarpsefni og samstarfi við framleiðslu þess. Stjórnarnefnd norræns menningar- og fjölmiðlastarfs hefur unnið að gerð skýrslu um forsendur aukins samstarfs af þessu tagi, en eins og nú standa sakir eru ekki líkur á að af framkvæmd sérstakrar norrænnar sjónvarpsrásar geti orðið í náinni framtíð.
    Hin aukna áhersla á menningarmál, fræðslumál og vísindi í norrænu samstarfi hefur skilað sér í verki hér á Íslandi. Norræna húsið í Reykjavík verður stöðugt mikilvægari stofnun í íslensku menningarlífi, en Norræna húsið minntist 25 ára afmælis síns í ágúst sl. með mjög fjölskrúðugri dagskrá. Þá hafa Íslendingar tekið síaukinn þátt í ýmsum öðrum norrænum skóla- og menningarmálaviðfangsefnum, bæði viðfangsefnum í skólamála- og menningarstarfi, sem verið hefur á vettvangi stjórnvalda, og eins taka Íslendingar síaukinn þátt í norrænu menningar- og menntastarfi á grundvelli frjálsra samtaka.

    Af öðrum þáttum sem ástæða er til að leggja sérstaka áherslu á frá sjónarmiði okkar Íslendinga má nefna umhverfismálin þar sem miklar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi norrænnar samvinnu og hún er mjög að styrkjast og aukast. Samvinna á sviði heilbrigðis- og félagsmála er meðal nýjunga. Þar má nefna að á vegum norrænnar framkvæmdaáætlunar um krabbamein er nýkomin út mjög athyglisverð skýrsla um þróun krabbameins sá Norðurlöndum sem er fyrsti hluti athugunar á þróun þessa viðsjálverða sjúkdóms. Í síðari hlutanum er ætlunin að reyna að grafast frekar fyrir um orsakir þessarar þróunar og leita skýringa á orsökum þeirra breytinga um gengi krabbameins sem rannsóknin hefur leitt í ljós að orðið hefur. Ber að vona að það takist að tryggja fjámuni til að ljúka þessari athyglisverðu rannsókn.
    Þá er ástæða til að leggja sérstaka áherslu á undirbúning hins nýja norræna kvennaþings í Åbo í Finnlandi sem fram á að fara í ágúst 1994. Þetta þing, Nordisk Forum 1994, er stærsta og viðamesta verkefni sem norræna ráðherranefndin hefur skipulagt innan jafnréttissviðsins fram til þessa.
    Sérstakur undirbúningshópur með fimm fulltrúum frá hverri aðildarþjóð undirbýr nú þinghaldið en samhliða því munu jafnréttisráðherrar Norðurlanda standa fyrir ráðstefnu en tilgangur hennar er að kynna drög að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir tímabilið 1995--2000.
    Þá hefur samstarf um neytendamál einnig farið mjög vaxandi, en þetta samstarf á árinu 1993 einkenndist annars vegar af aðgerðum til samræmingar við það sem er að gerast í evrópsku samstarfi og hins vegar af efnahagsþrengingum í löndunum, en ráðgjafastarfsemi neytendasamtaka um rekstur heimilis og fjármál hefur stóraukist. Danir, Norðmenn og Finnar hafa þegar sett lög um sérstakar skuldbreytingar og eru Svíar einnig að undirbúa slíka ráðgjöf. Nauðsynlegt er að við Íslendingar tökum þessi mál til skoðunar.
    Þá er samstarf í atvinnumálum vaxandi verkefni, en norræn ráðstefna um atvinnuleysistryggingar var haldin á Íslandi dagana 6. og 7. sept. 1993. Var meginumræðuefnið á þeirri ráðstefnu erfiðleikatímar í atvinnumálum og átaksverkefni atvinnuleysistrygginga.
    Þá er verið að vinna að því á vegum fjármálaráðherranna að undirbúa sameiginlega úttekt og tillögur um aðgerðir gegn atvinnuleysi og er þess að vænta að þær tillögur verði kynntar fyrir Norðurlandaráði á þingi þess í Stokkhólmi í mars komandi.
    Nokkrar skipulagsbreytingar hafa einnig átt sér stað í norrænu samstarfi um orku- og iðnaðarmál, en tvær embættismannanefndir um þessi mál hafa nú verið sameinaðar í eina og auk þess eru haldnir sameiginlegir fundir iðnaðar- og orkuráðherranna með sameiginlegri dagskrá.
    Breytingar þessar eru gerðar í samræmi við tillögur forsætisráðherranna um breytingu á norrænu samstarfi og sem viðleitni til að gera þetta samstarf virkara. Er nú m.a. verið að vinna að athugun á forsendum starfsemi og starfsskilyrða lítilla og meðalstórra fyrirtækja og í því sambandi er sérstaklega verið að huga að aðgangi að áhættufjármagni og útflutningsmálum. Þegar hefur verið samin skýrsla um áhættufjármagn á Norðurlöndum og eru þessi mál áfram í athugun þar sem m.a. er verið að greina hvernig koma megi til móts við þarfir lítilla og meðalstórra fyrirtækja fyrir áhættufjármagn og unnið að því að leggja fram tillögur um hugsanlegar sameiginlegar aðgerðir. Þessi mál eru vissulega mjög áhugaverð fyrir okkur Íslendinga.
    Þá er í skýrslunni sérstakur kafli um samvinnu Vestur-Norðurlanda, en Vestur-Norðurlönd eru eitt þeirra tíu samstarfssvæða sem heyra undir embættisnefndina um byggðamál. Eins og kunnugt er hefur verið stofnað sérstakt Vestnorrænt þingmannaráð, en samsvarandi gagnaðili er ekki fyrir hendi á ríkisstjórnarvængnum. Áhugi hefur verið fyrir því hjá Vestur-Norðurlöndum að mynda slíkt óformlegt samstarfsráð ráðherra þessara landa innan norrænnar samvinnu, en því er ekki að neita að það hefur verið útbreidd skoðun innan Vestur-Norðurlanda að styrkja þurfi mjög stöðu þeirra innan norrænnar samvinnu, m.a. í ljósi þess að áhuginn hjá hinum Norðurlöndunum virðist í æ ríkari mæli beinast að aukinni samvinnu í austurátt, þ.e. samstarfi við Eystrasaltslöndin, St. Pétursborgarsvæðið, Barentshafssvæðið og héruð í Rússlandi, m.a. héruð sem áður og fyrr tilheyrðu Finnlandi. Fulltrúar Vestur-Norðurlanda styðja vissulega þessa stefnu en hún má ekki leiða til þess að áherslan á samstarf við Vestur-Norðurlönd fari minnkandi og þau þokist til hliðar. Þessi mál verða væntanlega rædd á fundi samstarfsráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands í Stokkhólmi áður en Norðurlandaráðsþingið sjálft hefst.
    Þá hefur norrænt samstarf í fiskveiðimálum einnig verið sérstakt áhugaefni Íslendinga. Þar hefur verið um nokkurn niðurskurð á fjárveitingum að ræða en þó tókst að tryggja það að fjárveitingar til samstarfs á því sviði voru nokkuð auknar á sl. hausti umfram það sem ráð hafði verið fyrir gert áður.
    Vil ég nú víkja máli mínu frá því sem liðið er og að framtíðinni og þá fyrst og fremst að praktískum úrlausnarefnum. Eitt af því sem hinar nýju verklagsreglur í norrænu samstarfi gera ráð fyrir er að það land sem veitir forustu hverju sinni innan norrænu ráðherranefndarinnar geri það með svokallaðri virkri forustu. Með því er átt við að formennskulandið eða fulltrúar þess láti sér ekki nægja að stjórna fundum og afgreiða mál eins og þau eru lögð fyrir af embættismönnum heldur eigi hlut og hafi forustu um að móta virka pólitíska stefnu þar sem skýrt komi fram hver sé hinn pólitíski vilji formennskulandsins varðandi áhersluatriði í samstarfinu, en að sjálfsögðu innan þess ramma sem norrænni samvinnu er settur.
    Þegar Ísland tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni á þingi Norðurlandaráðs í marsmánuði tekur við annað árið sem þessar nýju verklagsreglur hafa verið í gildi. Með formennskuna á fyrsta ári fóru Svíar og á því tímabili voru þeir mjög virkir í að móta pólitíska stefnu um áhersluatriði. Við Íslendingar þurfum að búa okkur undir að axla þessa ábyrgð um pólitíska forustu ekki síður en Svíar hafa

gert og það krefst þess að við leggjum meiri vinnu í formennskuhlutverkið en við höfum áður þurft að gera og einnig að við undirbúum okkur vel. Að þessu hefur verið unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Í samræmi við þá stefnumótun að forsætisráðherrarnir hafa tekið við verkstjórninni í hinni norrænu samvinnu hefur skrifstofa samstarfsráðherra, sem í mörg ár hefur verið rekin í tengslum við utanrrn., verið flutt til forsrn. Er nú verið að vinna að því að fá skrifstofunni nýtt húsnæði. Þá hefur Alþingi hækkað umtalsvert fjárframlög til skrifstofu samstarfsráðherra þannig að bæði hefur verið unnt að fjölga þar starfsliði til að takast á við ný og viðamikil verkefni og einnig að gera ráð fyrir auknum kostnaði sem óhjákvæmilega mun fylgja formennsku Íslands. Þá hafa samstarfsráðherrarnir einnig veitt af ráðstöfunarfé sínu 300 þús. dönskum kr. til Íslands til að greiða sérstakan kostnað sem fylgja mun formennskuárinu, en þá verður m.a. gert ráð fyrir að auka verulega þýðingar á norrænu efni er varðar hina norrænu samvinnu og einnig að hefja útgáfu fréttabréfs á íslensku um norræn mál.
    Til undirbúnings stefnumótunar Íslands um pólitískar áherslur á formennskuárinu boðaði samstarfsráðherra Norðurlanda, að fyrirlagi ríkisstjórnarinnar, til fundar þann 16. nóv. í haust með ráðuneytisstjórum og embættismönnum allra ráðuneyta sem taka munu við forustuhlutverki í norrænni samvinnu á komandi starfsári. Einnig sátu ráðherrar fundinn. Á fundinum var lagður grunnur að pólitískri stefnumótun íslensku ríkisstjórnarinnar á formennskuári Íslands og mun sú stefnumótun m.a. koma fram í ræðu forsrh. Davíðs Oddssonar á fyrsta degi Norðurlandaráðsþingsins í Stokkhólmi. Annar fundur sama efnis var haldinn 4. febr. sl. og í framhaldi af honum er ætlunin að taka saman eins konar stefnuskrá eða yfirlit um þá þætti sem Ísland vill leggja sérstaka áherslu á í ráðherranefndunum og hinum ýmsu embættisnefndum og starfshópum þar sem Íslendingar munu taka forustu. Forsrh. og ríkisstjórn hans hafa því búið sig af atorku undir það mikilvæga hlutverk að taka við formennsku í ráðherranefndum og embættisnefndum norrænnar samvinnu í samræmi við hinar nýju verklagsreglur um virka forustu.
    Að lokum vil ég segja örfá orð um það verkefni sem vandasamast verður úrlausnar á komandi ári, en það er að sjálfsögðu norrænu fjárlögin og þau skref sem þar verður að stíga í samræmi við þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar um að eigi síðar en árið 1996 fari 50% fjárveitinganna til menningarmála, vísinda- og rannsóknastarfsemi. Ég ítreka enn að þar verðum við einnig að hafa til hliðsjónar þá stefnu sem mörkuð hefur verið, að auka ekki umfang hinna norrænu fjárlaga. Þetta þýðir einfaldlega að til að framkvæma þá stefnu sem þegar hefur verið mörkuð verða menn að ganga enn lengra í lækkun kostnaðar á öðrum sviðum og menn geta ekki gert ráð fyrir því, eins og menn gátu á yfirstandandi ári, að geta auðveldað sér það með ráðstöfun á tekjuafgangi, þar sem áætlað er að hann verði 17 millj. danskra kr. næstu ár í stað rúmlega 30 millj. danskra kr. eins og verið hefur.
    Eins og fram kom á þinginu í Maríuhöfn ríkti þar mikil andstaða við að tekið yrði eins stórt skref í þá átt að færa til fjármuni frá öðrum viðfangsefnum norrænnar samvinnu yfir til menningarmála, vísindamála og rannsókna eins og gert hafði verið ráð fyrir. Samstarfsráðherrarnir samþykktu að fara að tillögu Norðurlandaráðsþings um að færa til baka samtals 7 millj. danskra kr. frá menningarmálum, vísindum og rannsóknum yfir til annarra viðfangsefna, enda er það yfirlýst stefna að taka í meira mæli tillit til vilja Norðurlandaráðs varðandi afgreiðslu norrænu fjárlaganna en gert hefur verið.
    Undirbúningsvinnan fyrir fjárlagagerðina fyrir árið 1995 er nú hafin. Á fundi í Kaupmannahöfn fyrr í þessum mánuði samþykktu samstarfsráðherrarnir ákveðnar vísbendingar til framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar um frumforsendur fjárlagagerðarinnar. Að sjálfsögðu verður þar að ganga út frá þeim forsendum sem þegar hafa verið afráðnar og verður vinnan því í samræmi við það. Hins vegar má fastlega gera ráð fyrir því að þessi mál verði mjög til umræðu á fundum Norðurlandaráðs í Stokkhólmi, því hafi verið erfitt að flytja fé frá öðrum viðfangsefnum til forgangsverkefnanna. Vegna fjárlaga yfirstandandi árs er hætt við að enn erfiðara muni reynast að bæta þann tilflutning á næstu tveimur árum. Það auðveldar að sjálfsögðu ekki verkið að eins og við Íslendingar þekkjum svo vel þá draga ráðherrarnir og nefndirnar mjög taum síns verkefnasviðs. Ekki auðveldar það þetta verk heldur að þegar hafa verið teknar skuldbindandi ákvarðanir um viðbótarfjárframlög til ýmissa fjárfrekra viðfangsefna, svo sem eins og norrænnar lista- og menningarmiðstöðvar í Nuuk á Grænlandi, til viðfangsefna á sviði umhverfismála og til samvinnuverkefna við nálæg svæði bæði við Eystrasaltslöndin og við ýmis landsvæði í austurvegi. Allar þessar skuldbindingar eru hreinar viðbætur við útgjaldaáformin eins og þau birtast í fjárlögum yfirstandandi árs og eykur það enn á fjárlagavandann.
    Að mínu viti verður ekki hjá því komist að skoða alla þætti málsins með gagnrýnu hugarfari og á ég þá við ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar, bæði um fjárútlát til einstakra viðfangsefna, um tilflutning fjárveitinga milli samstarfssviða og um óbreytt umfang hinna norrænu fjárlaga. Sú endurskoðun verður að byggjast á raunhæfum grunni þar sem menn reyna að taka tillit til þess hvað er pólitískt mögulegt og hvað ekki. Þessi álitamál verða án efa það sem mestan svip setur á umræðuna um norrænt samstarf á næstunni.