Norræna ráðherranefndin 1993--1994

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 13:53:13 (4441)


[13:53]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Við höfum hér hlýtt á framsögu hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda úr íslensku ríkisstjórninni fyrir skýrslu um störf ráðherranefndarinnar fyrir árin 1993 og 1994 þar sem hann varpaði einnig fram hugmyndum og ábendingum varðandi framhald norræns samstarfs. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að forsendur fyrir norrænt samstarf hafa verið að breytast undanfarin ár samhliða breytingum á samstarfi Evrópuríkja. Á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar hefur auðvitað verið mikið um þetta fjallað. Innan Norðurlandaráðs, þ.e. þingmannavettvangsins, hefur þetta mál einnig verið mikið á dagskrá. Fram hjá því verður auðvitað ekki komist að líta á þessar breytingar sem teknar eru þó menn geti metið þær með misjöfnum hætti og um það er vissulega verulegur ágreiningur innan Norðurlandaráðs.
    Ég tel að allt of snemma hafi verið farið út í það að fastmóta tillögur um breytingar á norrænu samstarfi, áður en fram væri komið og ljóst væri orðið hver yrði framtíðarstefna hinna norrænu ríkja í samskiptum við Evrópubandalagið, sem við höfum kallað svo til skamms tíma. Þetta er enn í dag engan veginn ljóst. Við höfum að vísu víðtækan samning sem er með réttu metinn sem hálf leið inn í Evrópubandalagið eða Evrópusambandið, hvað sem menn kunna að kalla það formlega í framtíðinni, og raunar vel það. En eftir stendur spurningin um það hvað verður um inngöngu Norðurlandaþjóðanna þriggja sem nú eiga í viðræðum við Evrópubandalagið, sem hugmyndin er að leiða til lykta fyrir lok þessa mánaðar, og hver verður niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu innan þessara ríkja um afstöðuna til inngöngu í Evrópubandalagið, ef samningar takast á annað borð.
    Ég hefði talið að það hefði verið skynsamlegt fyrir forsætisráðherra Norðurlanda og ríkisstjórnir Norðurlanda að bíða eftir niðurstöðu og fá svör við þessum stóru og þýðingarmiklu spurningum áður en í það væri ráðist að taka ákvarðanir um svo stórfelldar breytingar á norrænu samstarfi sem hér liggur fyrir og allt hefur verið miðað við og kemur raunar skýrt fram í þessari skýrslu, ekki síst í fylgiskjalinu eins og það er kallað, þ.e. C2-skjalinu, sem varðar framtíðarmálefni norræns samstarfs. Þar er, eins og hæstv. samstarfsráðherra nefndi, verið að ákvarða mjög veigamiklar breytingar varðandi þetta samstarf. Ég tel að sumt af þeim áherslum og hugmyndum sem uppi voru, eins og það að styrkja forustu innan ríkisstjórnanna í norrænu samstarfi með því að ætla forsætisráðherrum landanna þar aukinn hlut að máli í stefnumörkun og framkvæmd, væri góðra gjalda vert ef sá böggull fylgdi ekki skammrifi að í leiðinni er verið að draga stórkostlega úr norrænu samstarfi eins og það hefur verið og takmarka það að verulegu leyti við einn meginmálaflokk, ef við lítum á menningarsamstarf, menntun og rannsóknir undir einum hatti eins og það oft er skilgreint.
    Það er sem sagt búið að móta um það stefnu að helmingur af umráðafé á vettvangi Norðurlandaráðs í gegnum norrænu fjárlögin fari til þessa málaflokks ekki síðar en 1996 og í ljósi þeirrar stefnumörkunar sem hér var enn hnykkt á í framsögu samstarfsráðherra, að ekki mætti hækka norrænu fjárlögin um krónu, ekki um krónu, þá þýðir þetta niðurskurð á fjölmörgum öðrum sviðum. Það er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt og þær eru komnar nokkuð á leið með þetta ætlunarverk sitt, ríkisstjórnir Norðurlanda, eins og hér kemur fram og eru að glíma við það að fylla út í þennan ramma. Afleiðingarnar eru hins vegar langt frá því komnar í ljós. Við erum svona aðeins farin að sjá glitta í hvað þetta muni þýða.
    Ég vil að það komi fram að ég er algerlega andvígur þessum áherslubreytingum í því formi sem þær eru lagðar fyrir, tel að þær séu fráleitar. Auðvitað ættu menn að vera að skoða möguleikana á því að auka fjárlagarammann að því er varðar norrænu fjárlögin. Það er nú það fyrsta. Þá gætu menn innan aukins fjárlagaramma aukið áhersluna á menningu og menntir, sem er vissulega góðra gjalda vert og enginn getur haft á móti sem slíku. Í öðru lagi að þessi breyting innan núllfjárlagaramma hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir eðli norræns samstarfs og mun óhjákvæmilega leiða til þess að það verður mun lægra metið sem verkefni milli Norðurlandanna, sú hætta blasir við að svo verði, og að stjórnmálamennirnir sem eiga að sinna þessum samskiptum líti að sama skapi minna á norrænt samstarf sem verkefni til að sinna. Þetta er hin stóra hætta sem við blasir. Og ég vil biðja hæstv. samstarfsráðherra um að draga upp fyrir okkur myndina af því hvernig þessi mál líti út að því er varðar norrænu fjárlögin þegar þessi braut hefur verið gengin á enda.
    Hvernig mun horfa fyrir þeim málasviðum öðrum sem við höfum haldið uppi í norrænu samstarfi, m.a. á sviði efnahags- og atvinnumála og fjölmörgum öðrum sviðum sem um er að ræða, þegar þessi stefna er komin á leiðarenda? Og ekki síst, hvað um verkefnin innan þessara málasviða og þær samnorrænu stofnanir sem notið hafa góðs af fjárveitingum af norrænum fjárlögum? Hvernig ætla ráðherrarnir að koma þessu fyrir? Um það segir í raun sáralítið í þessu plaggi, í þessari skýrslu, sem er viðbót og er að finna hér sem viðauka í þessari hvítu skýrslu frá ríkisstjórnunum, sáralítið. Og það sem gerst hefur núna einmitt til samsvörunar við þetta er það að C2-skýrslan, sem svo er kölluð og er framtíð norræns samstarfs, hefur verið dregin saman frá því að vera allmyndarleg bók eins og hún hefur verið fyrir lögð með útfærslu á stefnumiðum niður í það að vera smápési og er nú orðin fylgiskjal með þessari skýrslu, þýtt á íslensku, takk fyrir það, en er nú orðinn smápési og það verður ekkert út úr því lesið hvert verið er að halda varðandi einstök málefnasvið. Það er verið að fela það í þessum gögnum. Ég tel þetta ámælisvert og mjög hæpna stefnu að ganga svona til verka, en raunar alveg í góðu samræmi við það sem hér er á ferðinni. Það er auðvitað ekkert þægilegt að eiga að draga það fram, enda ekki enn þá búið að koma sér saman um það hvernig á að standa að þessum niðurskurði, hvernig á að standa að þessum samdrætti í norrænu samstarfi að því er varðar þennan opinbera þátt.

    En það eru fleiri atriði sem eru athugunarefni í þessu sambandi. Það er alveg ljóst að innan ríkisstjórnanna er það ásetningurinn að færa verulegan hluta af hinu pólitíska samráði af hinum eiginlega norræna vettvangi niður á hinn víða völl Evrópusamstarfsins þar sem eigi að vera óformlegt samráð, ekki pólitískt samráð sem leiðir til niðurstöðu og einhverrar samræmingar sem taka á sig norrænt form, heldur yfir í það að vera svona almennt samband, tvíhliða eftir atvikum eða með öðrum þjóðríkjum. Auðvitað fer það svo á EES-vettvangi jafnvel þó það væri ekki farið lengra að ekki sé talað um það ef fleiri ríki ganga inn í Evrópubandalagið, þá er í rauninni allur þungi úr þessu pólitíska norræna samráði farinn. Það er að dragast inn í það að vera samráð flokkanna og flokkasamsteypanna innan Evrópu, innan evrópskra stofnana sem er verið að ýta þessu samstarfi út í í síauknum mæli. Þetta eru áhyggjuefni sem ég vil koma á framfæri varðandi þessa þætti og ég bið hæstv. ráðherra og hæstv. forsrh. að koma inn á það hér, ef hann tekur þátt í þessari umræðu, hvernig íslenska ríkisstjórnin sér fyrir sér að hægt verði að halda stöðu Íslands í norrænu samstarfi ef svo færi að Noregur, Svíþjóð og Finnland, sem ég vona sannarlega að ekki verði, gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Hvernig vill íslenska ríkisstjórnin leitast við að tryggja íslenska hagsmuni í þeim veruleika ef hann yrði? Hvað verður um grundvallaratriði og táknræn atriði í norrænu samstarfi ef landamærin við Evrópubandalagið verða dregin um Atlantshafið milli Noregs og Íslands og hin löndin fjögur þarna komin inn, hvað verður um vegabréfasamstarfið, ,,passunionen``? Um það hef ég lagt fram fyrirspurn formlega til ríkisstjórna Norðurlanda á komandi þingi í Stokkhólmi og ætla þeim að svara, bæði dönsku ríkisstjórninni sér á parti sem er nú í vandræðum sjálf með það hvernig eigi að haga þessu samstarfi á landamærunum milli Slésvík-Holstein og Danmerkur og er farin að innleiða bráðabirgðatékkskoðun og hindranir, einnig á Eyrarsundi milli Svíþjóðar og Noregs samkvæmt kröfu Evrópubandalagsins. Og eftir hverju haldið þið að sé farið? Það er farið eftir litarhætti manna eða útliti, hvort þeir teljist evrópskir í útliti eða ekki, hvort þeim er kippt inn í hliðarherbergin til þess að fara í sérstaka skoðun og þurfa að reiða þar passa og það er ekkert tekið gilt annað, þeir eru bara sendir heim. Hvernig hefur íslenska ríkisstjórnin farið yfir þessi efni, lið fyrir lið, og ég nefni bara hér eitt dæmi af mörgum. Hvernig ætlar íslenska ríkisstjórnin að reyna í samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir að tryggja íslenska hagsmuni þannig að eitthvað standi eftir sem máli skiptir?
    Auðvitað er ég ekki að gera lítið úr menningar- og menntasamstarfi milli Norðurlanda. Sannarlega er það þýðingarmikið. En það mun ekki standa sem burðarás í norrænni samvinnu með einhverjum pólitískum þunga, það getum við verið alveg viss um. Og við vitum það m.a., því miður vil ég segja, hversu takmörkuð vigt er inni á þeim málaflokki, m.a. í þessari stofnun svo þýðingarmikið sem það er. Ef efnahags- og atvinnumálin liggja orðið til hliðar þá er ekki gott í efni því að það hefur oft verið bindiefnið. Umhverfismálin eiga að vísu að nafninu til að vera þarna á verkefnaskrá áfram sem þýðingarmikill málaflokkur og það er horft m.a. í austurátt í því sambandi. Ég sakna þess í áætlunum norrænu umhverfisráðherranna um leið og ég tek undir áætlun um að styðja við endurbætur í austurvegi í umhverfismálum, þá virðist ekki vera litið á Bretlandseyjar sem ,,närområde`` eins og það heitir á skandinavísku. Þá er það ekki tekið inn þar sem nú er verið að hefja starfsemi í endurvinnslu í margföldum mæli með losun geislavirkra úrgangsefna í hafið sem er ein stærsta ógnun sem blasir við okkur Íslendingum um þessar mundir, einmitt þessar vikurnar. Það er þegar ýtt verður á hnappinn í THORP-endurvinnslustöðinni við Sellafield. Og ég hef ekki séð í starfsáætlun norrænu umhverfisráðherranna sem liggur nú fyrir og verður væntanlega rædd í Stokkhólmi, ég hef ekki sé það að arktíska samstarfið, að norðurskautssamstarfið sé mikið þar til umfjöllunar sem er auðvitað það sem hefur hvað stærsta þýðingu fyrir okkur Íslendinga.
    Virðulegur forseti. Það hefði þurft að fá hér fram af hálfu hæstv. samstarfsráðherra og íslensku ríkisstjórnarinnar í tengslum við þessa skýrslugjöf áform íslenskra stjórnvalda til að bregðast við þessum aðstæðum sem þegar liggja fyrir vegna EES-samningsins og þeirra breytinga sem það hefur en þó sérstaklega ef svo illa færi að fleiri Norðurlönd enduðu inni á velli Evrópusambandsins eða Evrópubandalagsins eins og við kölluðum það til skamms tíma. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geri okkur svolitla grein fyrir því hér í þessari umræðu því að það er þessi framtíð sem máli skiptir, það er framtíð norræns samstarfs, hvað stendur eftir, og ég vara mjög við því skriði sem er í þessum efnum og tel að íslensk stjórnvöld hafi því miður ekki brugðist við sem skyldi. Hitt verðum við auðvitað að sameinast um hér á Alþingi og hér á Íslandi að forusta Íslands á norrænum vettvangi á komandi árum verði til sem mests sóma og þar stendur væntanlega ekki á Alþingi Íslendinga að reyna að styðja ríkisstjórnina í þeim efnum.