Norræna ráðherranefndin 1993--1994

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 14:19:50 (4446)


[14:19]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnrh., samstarfsráðherra, fyrir þessa skýrslu og sérstaklega vil ég þakka fyrir að fá áætlunina um samstarfið á árinu frá 1994 á íslensku. Mér þykir mjög gott að fá hana hér á íslensku. Ég hafði að vísu lesið hana á norsku en það breytir ekki því að ég tel mjög mikilvægt að þingmenn geti kynnt sér þessa skýrslu á íslensku. Ég tel þó mikilvægt, virðulegur forseti, að benda á það að þessi skýrsla C2, um samstarfið, ber með sér það sem ég óttaðist þegar við vorum að ræða um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, að norrænt samstarf innan EB og EES eða Evrópusambandsins yrði mjög erfitt.
    Það var lögð á það mikil áhersla hér á sínum tíma að það væri hægt að halda uppi norrænu samstarfi innan EES eða EB hvernig svo sem löndin kysu að haga þeim málum. Það kemur mjög greinilega fram í þessari skýrslu að það er fyrst og fremst lögð áhersla á það að um óformlega samvinnu muni verða að ræða og það muni færast í aukana á kostnað hins. Það verði hlutfallslega sífellt meira óformlegt norrænt samstarf. Ég er mjög uggandi yfir þessu. Ég tel mjög mikilvægt að efla norrænt samstarf og hafði góðar vonir um það, þrátt fyrir áhyggjur, að það mundi takast. En ég held að því miður verði það vandasamt. Ég ætla ekki að vera með miklar hrakspár að svo komnu máli, en ég held að þeim sem lesa þessa skýrslu geti varla blandast hugur um að þarna er í öðru hverju orði lögð áhersla á að það sé Evrópusamruninn sem skipti máli. Það kemur meira að segja fram á fyrstu síðu C2-skýrslunnar, ef ég mál lesa upp, með leyfi forseta:
    ,,EES-samningurinn gerir að veruleika hið gamla markmið að gera Norðurlöndin öll að einum heimamarkaði innan víðs evrópsks ramma.``
    Þetta finnst mér ákaflega einkennileg fullyrðing, að þarna skuli vera kominn einhver heimamarkaður, norrænn heimamarkaður. Það er verið að tala um einn sameiginlegan markað 18 landa, allra EES-landanna, en það er ekki sérstaklega um norrænan heimamarkað að ræða. Þetta er miklu víðari og stærri markaður sem þarna er um að ræða. Þannig að menn eru stundum að reyna að fela raunveruleikann í orðum.

Ég er ekki að segja að það sé neitt verra að hafa einn stóran markað í sjálfu sér, en það á ekki að vera að tala um það sem norrænan markað þegar um er að ræða eitthvað allt annað. Ég óttast því að með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og inngöngu fleiri Norðurlanda í Evrópusambandið muni norrænt samstarf smám saman líða undir lok. Því miður verð ég að segja. Og ég held að ef menn ætla að reyna að halda því gangandi þá þurfi að leggja mjög mikið í það og ég óttast að formlegt samstarf verði mjög erfitt innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Evrópusambandsins.
    Ég vildi aðeins minnast á þær áherslur sem hæstv. ráðherra minntist á og hefur verið mikið til umræðu innan Norðurlandaráðs. Það er sú breytta áhersla varðandi fjárlög, norrænu fjárlögin, þ.e. að svo mikil áhersla skuli vera lögð á menningarmálin hlutfallslega. Ég er síst á móti því að meira fé fari til menningarmála og því held ég að fáir geti á móti mælt. En ég óttast mjög að það muni bitna harkalega á þeim verkefnum sem gætu komið Íslandi vel. Þá hef ég í huga ýmis verkefni á sviði umhverfismála, á sviði fiskveiðimála og ýmis önnur verkefni sem Íslendingar hafa tekið virkan þátt í. Þar má nefna norðurheimsskautssvæðið og fleiri og fleiri verkefni sem ég tel að muni geta komið Íslandi mjög vel. Ég óttast að þessar áherslur á einn málaflokk muni draga mjög fé frá þeim verkefnum sem munu koma okkur vel. Þetta segi ég ekki síst vegna þess að í þeirri nefnd sem ég starfa, umhverfisnefnd Norðurlandaráðs, sem m.a. fjallar um fiskveiðimál, hefur verið mjög erfitt að toga fé yfir á þann málaflokk og þurfti mikið harðfylgi og reyndar fleiri Íslendingar sem þar lögðu saman til þess að þau verkefni sem voru á fiskveiðisviðinu fengju nægjanlegt fé eða alla vega aukið fé. Kannski má ekki kalla það nægjanlegt því sjálfsagt verður það sjaldan nægjanlegt að allra mati.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa skýrslu, virðulegur forseti. Við eigum eftir að ræða skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Ég sé að hún er ekki á dagskránni í dag, þannig að ég býst við að hún verði síðar, og mun ég þá koma frekar að einstökum atriðum hennar.