Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 14:52:26 (4451)


[14:52]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Þar sem hér er um fyrstu skýrslu Íslandsdeildar RÖSE-þingsins að ræða, þá þótti mér rétt að fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum.
    Í yfirlýsingu þjóðarleiðtoga RÖSE-ríkjanna, sem undirrituð var 21. nóv. 1990 í París, var hvatt til þess að komið yrði á fót þingmannasamkundu ríkjanna. Fyrsti undirbúningsfundur til að hrinda þessu ákvæði Parísaryfirlýsingarinnar í framkvæmd var haldinn í apríl 1991 í Madrid. Á Madrid-fundinum var ákveðið að koma á fót RÖSE-þingi er kæmi saman einu sinni á ári (í júlí). Þar var samþykkt svokölluð Madrid-yfirlýsing sem er grundvallarskjal RÖSE-þingmannasamstarfsins. Að loknum tveimur undirbúningsfundum á árinu 1992 var fyrsti fundur RÖSE-þings haldinn í júlí 1992 í Búdapest. RÖSE-þingið er því ungt að árum og starf þess er eðlilega enn í mótun. Þó er þegar ljóst að samstarf þetta var orðið fyllilega tímabært og að þingið getur orðið mikilvægur hlekkur í RÖSE-keðjunni á öllum sviðum RÖSE-samstarfsins.
    Samkvæmt þeim þingsköpum sem stjórnarnefnd RÖSE-þingsins samþykkti á fundi sínum í Kaupmannahöfn 15. jan. 1993 er RÖSE-þinginu ætlað eftirfarandi hlutverk:
    1. Að meta árangurinn af RÖSE-samstarfinu.
    2. Að ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra RÖSE-ríkjanna.
    3. Að þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr átökum.

    4. Að stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í RÖSE-ríkjunum.
    5. Að leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana RÖSE.
    Samkvæmt þingsköpum RÖSE-þingsins er aðild að þinginu miðuð við þjóðþing þeirra ríkja sem undirritað hafa Helsinki-yfirlýsinguna frá 1977 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 og þátttöku þeirra í RÖSE-samstarfinu. Í dag eiga 52 þjóðþing RÖSE-ríkjanna aðild að RÖSE-þinginu. --- Þetta er því fjölmennur vettvangur, fjölþjóðaþing, og fjölmennara ef þjóðirnar eru taldar en þingmannasamband NATO og Evrópuráðsins og er þar af leiðandi nokkuð viðamikið í skipulagi. --- Samkvæmt samþykkt, sem gerð var í Kaupmannahöfn, er gert ráð fyrir 312 þingfulltrúum og þar af á Alþingi þrjá fulltrúa.
    Þingsköp gera ráð fyrir að RÖSE-þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Auk þingfunda er gert ráð fyrir að á þinginu starfi þrjár fastanefndir er fjalli um mál er þingið vísar til þeirra. Þær eru nefnd um stjórn- og öryggismál (fyrsta nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (önnur nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (þriðja nefnd).
    Forsætisnefnd þingsins er skipuð forseta þess, níu varaforsetum og gjaldkera. Stjórnarnefnd þingsins er skipuð forseta RÖSE-þingsins, varaforsetum, gjaldkera, formönnum nefnda þingsins og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, og er nefndinni ætlað að undirbúa störf þingsins. Stjórnarnefndin getur þó við sérstakar aðstæður samþykkt ályktanir með svokallaðri ,,samstöðureglu mínus einn`` sem hefur verið notuð þar við ákvarðanatöku.
    Þingsköp RÖSE-þingsins gera ráð fyrir að forsætisnefndin taki ákvarðanir sínar með meiri hluta atkvæða en að ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skuli teknar, eins og ég gat um áðan, samkvæmt afbrigði af svokallaðri ,,samstöðureglu``. Þeirri reglu er fylgt á fundum fulltrúa ríkisstjórna RÖSE-ríkjanna.
    Líkt og þing annarra ríkja, sem aðild eiga að RÖSE, hefur Alþingi tekið þátt í þingmannastarfi RÖSE-ríkjanna frá upphafi. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins tók í umboði forsætisnefndar þátt í þingmannastarfi RÖSE þar til Íslandsdeild RÖSE-þingsins var stofnuð. Í febrúar 1993 samþykkti forsætisnefnd Alþingis að stofna Íslandsdeild RÖSE-þingsins, í apríl 1993 samþykkti forsætisnefnd starfsreglur fyrir deildina. Tilnefnd af þingflokkum til setu í Íslandsdeildinni voru Finnur Ingólfsson, Guðjón Guðmundsson, Sigbjörn Gunnarsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Tómas Ingi Olrich. Áheyrnarfulltrúi var kjörin Anna Ólafsdóttir Björnsson.
    Á fyrsta fundi Íslandsdeildarinnar 2. júní 1993 var sá sem hér stendur kjörinn formaður og Finnur Ingólfsson varaformaður. Ritari deildarinnar er Belinda Theriault alþjóðaritari. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu.
    Stjórnarnefnd RÖSE-þingsins kom saman í Kaupmannahöfn 15. jan. 1993, áður en Íslandsdeildin var stofnuð. Þann fund sóttu af hálfu Alþingis Björn Bjarnason, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og Þorsteinn Magnússon, deildarstjóri nefndadeildar Alþingis.
    ( Forseti (VS): Ég vil benda hv. þm. á að segja háttvirtir þingmenn.)
    Ég bil forseta velvirðingar á þessum mistökum.
    Meginviðfangsefni fundar stjórnarnefndar RÖSE-þingsins í Kaupmannahöfn 15. jan. 1993 var að ganga frá tillögum til annars fundar RÖSE-þingsins um þingsköp fyrir þingið, afgreiða fjárhagsáætlun fyrir samtökin sem og að staðfesta ráðningu forstjóra og tveggja aðstoðarforstjóra fyrir skrifstofu þingsins sem aðsetur hefur í Kaupmannahöfn. Umræðan um þingsköp RÖSE-þingsins tók mestan hluta af fundi stjórnarnefndarinnar. Hvað varðar ráðningar æðstu embættismanna samþykkti stjórnarnefndin ráðningu Spencers Olivers, fyrrum starfsmanns utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings, sem framkvæmdastjóra RÖSE-þingsins. Aðstoðarframkvæmdastjórar voru ráðnir Pentti Väänänen, yfirmaður alþjóðadeildar finnska þingsins, og Vitaly Evseyev, deildarstjóri hjá rússneska þinginu.
    Dagana 6.--9. júlí sl. var haldinn 2. árlegur fundur RÖSE-þingsins í Helsinki. Þann fund sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Tómas Ingi Olrich, Guðjón Guðmundsson og Ólafur Ragnar Grímsson auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Þingið er ungt að árum og bar skipulagningin þess merki að mörgu leyti. Ég verð þó að segja það eins og er að miðað við starfsmannahald þingmannasamkundunnar var fundastarf til þess að gera markvisst og margar athyglisverðar tillögur komu fram sem þingmenn RÖSE-ríkjanna fengu tækifæri til að skiptast á upplýsingum um og skoðunum.
    Á opnunarfundi þingsins sagði forseti RÖSE-þingsins, Ilkka Suominen frá Finnlandi, frá því að starf þingsins yrði sífellt viðameira. Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að stofnanir RÖSE sýna áhuga á samstarfi við þingið, en Suominen lagði mikla áherslu á að nýta þingið og meðlimi þess í framtíðinni til kosningaeftirlits í RÖSE-ríkjunum auk þess sem hann taldi mikilvægt að þingið sendi sendinefndir út af örkinni með töflum um upplýsingar um ástand ýmissa svæða og gefa þinginu skýrslur um þau mál.
    Þá er einnig rétt að geta þess að Vladimir Petrovsky, framkvæmdastjóri skristofu Sameinuðu þjóðanna í Genf, flutti skilaboð til RÖSE-þingsins frá Boutros Boutros-Ghali, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann lýsti stuðningi sínum við svæðisbundin samtök eins og RÖSE.
    Margaretha af Ugglas, utanríkisráðherra Svíþjóðar og formaður ráðherraráðs RÖSE, ræddi um hve mikilvægt framlag RÖSE-þingsins gæti orðið til eflingar lýðræðis og mannréttinda.
    Hún ræddi einnig um aðgerðir RÖSE til að efla starf sitt og stofnanir og um þann árangur sem starf RÖSE væri að skila víða í Evrópu. Það er að vísu rétt að innan RÖSE eru mjög skiptar skoðanir um

það í hvaða farveg eigi að beita þessari ráðstefnu, hvort það eigi að nýta hana fyrst og fremst sem samstarfsvettvang um öryggismál eða hvort það eigi að styrkja stofnanir hennar verulega og auka möguleika RÖSE til þess að hafa áhrif á gang mála. Jafnvel eru uppi umræður um að það þyrfti að koma upp hersveitum á vegum RÖSE. Bera þessar hugleiðingar merki þess að RÖSE er að leita sér að hlutverki og er að skilgreina hlutverk sitt og er langt í land með að menn hafi náð saman um það.
    Auðvitað hafa hinar nýju aðstæður sem skapast hafa í Evrópu ráðið miklu um líflega umræðu um þetta hlutverk og stöðu RÖSE á alþjóðlegum vettvangi. Þar fer fram mikil umræða um stefnumótun, eins og raunar innan annarra alþjóðlegra stofnana. Við getum nefnt NATO sem dæmi þar sem verulega mikil vinna hefur farið fram í þessa veru.
    Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í það sem stendur í þessari skýrslu en vil geta þess vegna þeirrar áherslu sem forseti RÖSE-þingsins lagði á kosningaeftirlit og samskipti þingmanna RÖSE-þingsins við hverja aðra og áhrif þeirra á lýðræðisþróun í Austur-Evrópu að RÖSE-þingið ákvað frá upphafi að taka virkan þátt í kosningaeftirliti og leggja áherslu á það starf sem mikilvægan lið í eflingu lýðræðis og virðingar fyrir mannréttindum. Jafnframt hefur RÖSE hvatt þingið til þess að sinna þessu starfi af fullum krafti. Fyrsta stóra tækifærið á þessu sviði gafst þegar boðað var til þingkosninga í Rússlandi.
    Þegar ljóst var að skrifstofa RÖSE-þingsins skipulegði meiri háttar eftirlitsverkefni vegna rússnesku þingkosninganna í desember fór Íslandsdeildin RÖSE þess á leit við forsætisnefnd Alþingis að hún veitti fjármagn til þess að deildin gæti sent einn fulltrúa til að taka þátt í þessu eftirliti. Þessi beiðni fékk jákvæða afgreiðslu hjá forsætisnefnd og tilnefndi Íslandsdeildin Ólaf Ragnar Grímsson sem fulltrúa sinn og Önnu Ólafsdóttur Björnsson til vara.
    Alls tóku 35 þingmenn þátt í kosningaeftirliti RÖSE-þingsins.
    RÖSE-þingið ákvað að sinna kosningaeftirliti á fjórum stöðum í Rússlandi utan Moskvu. Þar sem athygli umheimsins beindist helst að Moskvu voru minnstar líkur talda á að þar yrði um óeðlileg vinnbrögð að ræða þótti frekar þörf á því að sinna eftirliti á öðrum stöðum. RÖSE-þingið valdi því fjögur héruð auk Moskvu. Ólafur Ragnar Grímsson fór ásamt nokkrum öðrum eftirlitsmönnum til Tula og fylgdist með framgangi kosninganna.
    Sem frumraun RÖSE-þingsins á þessu sviði þá met ég það svo og er sammála þeim sem hafa lagt á það opinberlega mat af hálfu RÖSE-þingsins að kosningaeftirlit í Rússlandi hafi tekist til þess að gera vel. Þingið mun nýta sér þessa reynslu til að þróa þetta starf enn þá frekar og mun leggja mikla áherslu á kosningaeftirlit í framtíðinni sem tæki til að vinna að auknu lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum.
    Við kosningaeftirlit af þessu tagi skapast margvísleg tengsl og verða líflegar umræður milli þingmanna Vestur-Evrópuríkjanna, sem hafa mikla reynslu í lýðræðismálum almennt og þingstörfum og kosningum, og svo þingmanna frá fyrrverandi Sovétríkjunum, frá hinum fjölmörgu ríkjum sem hafa sprottið upp í kjölfar hruns Sovétríkjanna. Eins og allir vita þá er menningarlegur bakgrunnur þessara þingmanna Austur-Evrópuríkjanna allur annar. Þeir styðjast ekki við þær hefðir sem við styðjumst við í þessum efnum og samskipti þeirra við Vestur-Evrópuríkin og þingmenn þessara ríkja eru mjög gagnleg og líkleg til þess að styrkja lýðræðisþróunina í Austur-Evrópu.
    Að því er varðar yfirlýsingar RÖSE-þingsins í Helsinki þá báru þær nokkurn keim af því að það eru afar skiptar skoðanir innan þingsins um hvert á að stefna starfi RÖSE-þingsins og starfi RÖSE almennt. Að sjálfsögðu hefur RÖSE-þingið verið afskaplega upptekið af ástandinu í Júgóslavíu og það hafa komið fram sterkar raddir um að RÖSE þurfi að styrkja stofnanir sínar og ákvarðanatöku til að hafa almennari og meiri áhrif á gang mála í Júgóslavíu. Það hafa komið fram mjög sterkar gagnrýnisraddir, m.a. frá RÖSE-þinginu, um að RÖSE hafi brugðist hlutverki sínu í Júgóslavíu og ekki tekið á málum þar frekar en aðrar alþjóðlegar stofnanir. Það eru uppi raddir um það meðal margra þeirra þingmanna sem sækja RÖSEþingið að það þurfi að efla RÖSE til þess að taka á eftirlitsmálum og gera RÖSE kleift að grípa inn í gang mála.
    Ég verð að segja eins og er að um þetta eru mjög skiptar skoðanir. Sá sem hér stendur hefur miklar efasemdir um að það sé skynsamlegt að beina Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu inn á þessar brautir. Ráðstefnan er mjög víður vettvangur fyrir almenna umræðu um öryggismál og kannski eini vettvangurinn í Evrópu sem allar Evrópuþjóðirnar, jafnt þær sem eru aðilar að Evrópuráðinu, aðilar að NATO og einnig hinar sem ekki eru það, hafa til að ræða öryggismálin. Slík samskipti geta verið mjög gagnleg. Þar getur komið upp annar flötur á málum heldur en á hinum vettvanginum. Og ég er þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegt að nýta þennan vettvang fyrst og fremst sem vettvang fyrir ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir hættuástand sem fyrst. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um það að Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu hafi mikla möguleika á því að grípa inn í atburðarásina eftir að vandræðaástand hefur skapast og gæti best trúað því að sérhver tilraun til að búa til úr þessari ráðstefnu verkfæri til að grípa inn í slíkar aðgerðir yrði til þess að eyðileggja hana.
    Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu er eins og allir vita beint afsprengi kalda stríðsins og gegndi mjög mikilvægu hlutverki þegar samskipti jukust milli Austur-Evrópuríkjanna og Vestur-Evrópu. Báðir aðilar höfðu nokkurn áhuga á þessu samstarfi. Ég hygg þó að Austur-Evrópuríkin hafi haft meiri áhuga á samstarfinu en Vestur-Evrópuríkin á þeim tíma því það skipti miklu máli fyrir þá að fá eins konar viðurkenningu á landamærum þeirra. En þegar upp var staðið voru mannréttindaákvæðin sem fengust úr

úr þessari ráðstefnu mjög mikilvægur þáttur í að opna Austur-Evrópu fyrir samskiptum við Vesturveldin og áttu mikinn þátt í að það molnaði undan Sovétríkjunum og sú þróun fór á stað sem lauk með hruni Sovétríkjanna.
    Að sjálfsögðu er það svo að þegar kalda stríðinu er lokið, eins og menn segja nú, þá skapast nýjar aðstæður. Nú hafa öryggismálin í Evrópu gjörbreytt um svip og allar mannréttinda- og öryggisstofnanir eru að endurskilgreina sitt hlutverk. Það eru ekki lengur tvö varnarbandalög sem takast á í Evrópu en það breytir því ekki að þó að járntjaldið sem slíkt hafi horfið er enn þá gap á milli Vestur-Evrópu og flestra fyrrverandi ríkja Sovétríkjanna og leppríkja þeirra. Þetta gap er efnahagslegs eðlis og skiptir Evrópu ekki síður í tvo heima heldur en járntjaldið gerði áður þó það sé á nokkuð öðrum grundvelli. Ef það er eitthvað sem ógnar öryggi í Evrópu í dag þá er það þessi mikli efnahagsmismunur, þá er það sú þróun sem á sér stað í Austur-Evrópu nú þar sem efnahagur ríkjanna hefur farið síversnandi og grafið undan öryggismálum á þessum slóðum. Mér hefur fundist að innan RÖSE-þingsins hafi gætt nokkurs vanmats á mikilvægi þessara efnahagsmála. Ein af nefndum þingsins fjallar að vísu um efnahagsmál en sú nefnd hefur ekki notið mikillar athygli og starf hennar hefur ekki hlotið þann sess á RÖSE-þinginu sem mér finnst að slíkur málaflokkur eigi skilið.
    Ég tel hægt að fullyrða það að í efnahagsþróun Austur-Evrópuríkjanna sé að finna vísi að átökum í framtíðinni. Ekkert er eins hættulegt lýðræðisþróuninni í Austur-Evrópu og þróun efnahagsmála. Það væri því verðugt viðfangsefni fyrir RÖSE að leggja meiri áherslu á efnahagsmál vegna þess að ef RÖSE vill sinna því að koma í veg fyrir átök þá eru fyrstu merkin um erfiðleika og jafnvel um vopnuð átök að finna í þróun efnahagsmála. Þær ráðstafanir sem skila mestum árangri að mínu mati þessum efnum eru einmitt á sviði þessara efnahagsmála.
    Það hefur reynst vera svo að Evrópubandalagið sem slíkt hefur virkað sem múr gegn Austur-Evrópuríkjum. Evrópubandalagið hefur varið sig fyrir innflutningi frá Mið- og Austur-Evrópuríkjunum. Að því er varðar efnahagsaðstoð þá hefur hún komið ekki síst frá Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum og hefur skipt talsvert miklu máli við að létta þann þrýsting sem er á stjórnvöldum í þessum ríkjum. Þar voru væntingar almennings um bata í efnahagsmálum mjög miklar en hægfara þróun þessara ríkja eða hrein og bein afturför hefur leitt til þess að lýðræðisöflin í þessum ríkjum eiga mjög undir högg að sækja.
    Í máli mínu á RÖSE-þinginu lagði ég áherslu á þróun efnahagsmála og þá hættu sem fólgin væri í þeim og að sjálfsögðu styrktu úrslit kosninganna í Rússlandi mig í þeirri trú að efnahagsmálin væru með þeim hætti að þau gætu hleypt til valda í Austur-Evrópu, ekki aðeins í Rússlandi heldur og víðar, sjónarmiðum sem væru andlýðræðisleg í eðli sínu. Það kom í ljós í þessum kosningum í Rússlandi og það er langt í frá að þau sjónarmið sem sigruðu í kosningunum í Rússlandi séu bundin við Rússland eitt. Þessi þjóðernissjónarmið sem blandast líka ákveðnum stórveldissöknuði Sovétríkjanna eiga sér fulltingismenn og formælendur innan annarra ríkja Austur-Evrópu. Ég nefni þar Úkraínu sem dæmi. En ég hygg að það megi finna þá mjög víðar og úkraínskum þingmönnum sem ég hef kynnst stendur mikil ógn af þessum öflum og telja að þau muni geta náð miklu fylgi víða í Austur-Evrópu. Það hefur einnig vakið athygli mína að innan Tékklands er að finna þingmenn, sem starfa á RÖSE-þinginu, sem líta allt öðrum augum á þessa þróun í Rússlandi sem kom mjög vel fram í kosningunum. Þeir líta svo á að þar sé um athyglisverða þróun og ekki neikvæða að ræða.
    Það er hins vegar ljóst að það er á margan hátt erfitt fyrir RÖSE að taka á þessum efnahagsmálum. Það er raunar erfitt líka fyrir aðrar alþjóðlegar stofnanir. NATO-þingið hefur líka efnahagsnefnd og Evrópuráðsþingið sömuleiðis. Hitt er svo ljóst að ef ekki verður reynt að hraða umbótum í efnahagsmálum í Austur-Evrópu með aðstoð frá Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum þá er sú þróun sem þar á sér stað nú í efnahagsmálum langviðsjárverðasta þróunin sem snertir öryggi í Evrópu sem nú á sér stað.
    Ástandið í Júgóslavíu er vissulega eldfimt en hitt dæmið, efnahagsþróunin, er miklu stærra mál í sniðum og getur kveikt miklu stærra bál heldur en það sem nú logar í Júgóslavíu og hefur leitt yfir það land miklar hörmungar.
    Ég ætla að láta þetta nægja, virðulegur forseti, að sinni um starf Íslandsdeildar RÖSE-þingsins sem lýst er í þessari skýrslu.