Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 15:23:52 (4453)


[15:23]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var hv. þm. Björn Bjarnason sem valdi orðið ,,tilvistarkreppa``. Ég nefndi það orð ekki og það er hans skoðun að RÖSE sé í tilvistarkreppu. Ég mundi ekki nota svo þungt orð í þessu sambandi. Hitt er annað mál að það er alveg ljóst að starfsemi Evrópuráðsþingsins, NATO-þingsins og RÖSE-þingsins skarast mjög verulega og þær stofnanir sem þessi þing fjalla um. Ég hygg að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni að auðvitað skiptir miklu máli hver þróunin verður, hvort það verður þá til vettvangur sem er óþarfur eða ekki.
    Ég vil hins vegar taka það fram að ég hef líka efasemdir um það, svo að við tökum sérstaklega fyrir Atlantshafsbandalagið, að sú þróun sem þar er hafin, þar sem Atlantshafsbandalagið er farið að taka öryggismálin í miklu víðara samhengi heldur en gert hefur verið, ég hef líka vissar áhyggjur af því vegna þess að mér hefur fundist að þar væri hugsanlega í uppsiglingu ákveðin veiking á því varnarsamstarfi sem hefur verið með þessum þjóðum. En ég held að þrátt fyrir breyttar aðstæður í Evrópu sé mjög mikilsvert að halda sterku varnarbandalagi í Evrópu sem NATO hefur verið. Opnun NATO á sínum samstarfsvettvangi við Austur-Evrópuríkin er mjög gagnleg og góð en hins vegar hef ég ákveðnar áhyggjur af því að það sé að eiga sér stað innan NATO ákveðin úitþynning á hlutverki þess sem ég held að sé ástæða til þess

að íhuga mjög vandlega áður en lengra er haldið í þeim efnum. (Forseti hringir.) Fyrirgefðu, hæstv. forseti, ég ætla þá að ljúka máli mínu nú og bæta við þetta þegar ég hef tækifæri til.