Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 15:43:56 (4457)


[15:43]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var ekki í fyrirspurnarformi heldur til skýringar sem hv. þm. Tómas Olrich talaði áðan og ég ætla ekki að nota minn tíma til þess að víkja frekar að hans ágæta máli hér.
    Það er aðeins í sambandi við ábendingar frá hv. þm. Birni Bjarnasyni að ég kveð mér hljóðs til frekari skýringar á mínu viðhorfi til þessara mála. Ég tel að RÖSE-vettvangurinn sé afar þýðingarmikill þótt veikur sé til þess að skiptast á skoðunum um stöðu efnahagsmála eins og hér hefur réttilega verið bent á og er það í raun sá eini samevrópski vettvangur sem er til staðar og getur tekið á því. En þó umfram allt til þess að ræða um öryggisþáttinn, um öryggismál Evrópu í heild sinni því að þar höfum við ekki annan slíkan vettvang. Þar höfum við engan samevrópskan vettvang til að taka á þeim efnum.
    Að því er snertir mannréttindamálin sérstaklega þá get ég verið hv. þm. alveg sammála um að það getur verið álitamál að hve miklu leyti eigi að fara að taka þau efni í einhverjum verulegum mæli inn á vettvang RÖSE og auka hann. Þar væri auðvitað mjög æskilegt að menn einbeittu sér að Evrópuráðinu sem samevrópskum vettvangi að þessu leyti en eins og hér var réttilega bent á skortir enn talsvert á að ríki í austanverðri álfunni hafi uppfyllt þau skilyrði að því er varðar mannréttindamálin sem Evrópuráðið setur til inngöngu þar. Það er hins vegar öryggisþátturinn, afvopnunarmálin, því að enn er álfan full af vopnum og enn er álfan púðurtunna og því er þörf á þessum sameiginlega samevrópska vettvangi og það þyrfti að styrkja hann til þess að einbeita sér einmitt að þeim þætti mála.