Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 15:46:22 (4458)


[15:46]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Varðandi öryggisþáttinn vil ég minna hv. þm. á að á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur verið komið á laggirnar svokölluðu Norður-Atlantshafssamstarfsráði þar sem öll þessi ríki sem eru í RÖSE eiga aðild og geta tekið þátt í umræðum um öryggismál á vegum Atlantshafsbandalagsins. Og þessi vettvangur skiptir æ meira máli og það hefur nú komið í ljós á undanförnum vikum að Atlantshafsbandalagið er sú þungamiðja í öryggismálum Evrópu sem það hefur alltaf verið þannig að ég held að ef menn ætla í alvöru að ræða um öryggismálin á samevrópskum vettvangi þá sé Norður-Atlantshafssamstarfsráðið hinn kjörni vettvangur.
    Eins og ég nefndi áður er ætlunin nú í vor að fulltrúar Evrópuþjóða hittist í París til þess að samþykkja eða skoða svokallaða Balladur-áætlun sem miðar að því að efla þetta samstarf í öryggismálum og það er utan RÖSE-rammans. Það er greinileg tilhneiging hjá öllum ríkjum til að efna til samstarfs á öðrum vettvangi en innan vébanda RÖSE. Og hvers vegna skyldum við leggja þá höfuðkapp á að viðhalda þessu samstarfi? Ég hef ekki verið neinn andstæðingur og er ekki af hugsjónaástæðum neinn andstæðingur þessa samstarfs. Ég átti þess kost 1975 að taka þátt í leiðtogaráðstefnunni í Helsinki og það kom í minn hlut sem starfsmaður í Stjórnarráði Íslands að þýða lokasamþykktina í Helsinki á íslensku þannig að ég hef löngum verið með hugann við þetta samstarf. En mér finnst að tími þess sé útrunninn og tala þar ekki af neinum hægri kanti frekar en hv. þm. talar um þetta af neinum vinstri kanti. Ég tel hins vegar að af praktískum ástæðum og efnislegum ástæðum sé kominn tími til að velta því fyrir sér hvort það eigi að halda þessu áfram eða ekki.