Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 15:48:27 (4459)


[15:48]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega ekki formið eitt sem skiptir hér máli. Innihaldið gerir það ekki síður og skiptir auðvitað sköpum um það hvort samtök lifa eða deyja skulum við ætla. En ég held að það

geti orðið nokkuð í það að Norður-Atlantshafssamstarfsráðið, sem hv. þm. nefndi hér, geti orðið sá vettvangur til samráðs til þess að þróa öryggismál álfunnar á þeim grundvelli sem líklegur sé til árangurs. Norður-Atlantshafssamstarfsráðið er auðvitað því marki brennt að hinn sterki aðili þar er Atlantshafsbandalagið og ríkin sem bera það uppi. Og hvort það sé hinn líklegi vettvangur til þess að laða Rússland, svo stórt sem það er, hvort sem menn kalla það stórveldi eða risaveldi, risaveldi köllum við það ekki lengur í dag með réttu vil ég segja, en stórveldi er það áfram og hvort líklegt sé að þetta samstarfsráð Norður-Atlantshafsbandalagsins í útfærðum mæli sé sá vettvangur sem geti skapað skilyrði til þess að ná fram sameiginlegum öryggishagsmunum í álfunni eða skapað skilyrði fyrir því að menn leggi þar saman, það dreg ég nokku í efa, en auðvitað kemur reynslan til með að leiða þetta í ljós og auðvitað skiptir það sköpum hvað meginöflin innan RÖSE ætla sér með samtökin. Það býr enginn til þann vilja fyrir þau. Hann verður að koma fram.