Evrópuráðsþingið 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 15:57:55 (4461)


[15:57]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins um V.--VII. hluta 44. þings þess sem birt er á þskj. 608.
    Árið 1993 var markvert í sögu samskipta Alþingis og þings Evrópuráðsins. Í fyrsta lagi gerðist það í fyrsta sinn að forseti Íslands ávarpaði þingið í Strassborg þegar frú Vigdís Finnbogadóttir kom þangað í september. Í öðru lagi bar svo við í ágúst að Martínez, forseti Evrópuráðsþingsins, kom hingað í opinbera heimsókn með skrifstofustjóra þingsins og aðstoðarmanni sínum. Í þriðja lagi hefur verið lagt fram á Alþingi frv. til laga um lögfestingu á mannréttindasáttmála Evrópu sem segja má að sé þungamiðjan í starfsemi Evrópuráðsins og í fjórða lagi fékkst samþykkt tillaga á þinginu í Strassborg í september þar sem tekið er tillit til sjónarmiða Íslendinga og Norðmanna varðandi hvalveiðar.
    Þessi fjögur atriði eru mjög mikilvæg þegar litið er á samskipti Íslands, ekki aðeins við þing Evrópuráðsins heldur einnig við Evrópuráðið sem er stofnun í Evrópu sem fær sífellt meira gildi vegna þess að hún er nú orðin það tæki lýðræðisaflanna í Evrópu sem best getur dugað til þess að stuðla að lýðræðislegri og mannúðlegri þróun í fyrrverandi ríkjum kommúnista í Austur-Evrópu. Og við þátttakendur í þingi Evrópuráðsins teljum ótvírætt mikið gildi fyrir Íslendinga að taka þátt í störfum þessa þings og einnig í störfum Evrópuráðsins. Þar gefst tækifæri til pólitísks samstarfs við þingmenn frá 31 Evrópuríki og þar er unnt að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri. Og með hliðsjón af því að Ísland hefur ákveðið að standa utan hins pólitíska samstarfs sem fer fram á vettvangi Evrópusambandsins er nauðsynlegt að leggja meiri rækt en ella við þátttöku annars staðar þar sem fulltrúar Evrópuþjóðanna hittast. Til þess er þing Evrópuráðsins kjörinn vettvangur. Er nauðsynlegt að Alþingi velti því rækilega fyrir sér hvernig fjármunum til alþjóðasamstarfs er best varið þegar slík samskipti þingmanna fara ört vaxandi. Og má í því sambandi geta þess sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns að aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu kallar á þátttöku í þingi þess en aðilar að Vestur-Evrópusambandinu senda á það þing sömu þingmenn og sitja þing Evrópuráðsins. Tel ég mjög mikilvægt að það verði tekin afstaða til þess hér á Alþingi hvernig verði skipað þátttöku okkar í Vestur-Evrópusambandsþinginu nú þegar við erum orðnir aukaaðilar að því og um það fari fram umræður að frumkvæði forsætisnefndar í þingflokkum og hér á vettvangi þingsins almennt ef nauðsyn krefur.
    Á síðasta ári bar það hæst í starfi Evrópuráðsins að haldinn var leiðtogafundur aðildarríkja þess í Vínarborg 8. og 9. okt. Um þann fund hafa farið fram sérstakar umræður hér. Gerðist það 11. nóv. sl., ef rétt er munað, þegar hæstv. forsrh. gaf Alþingi skýrslu um leiðtogafundinn og er hana að finna á þskj. 195 og var sú skýrsla rædd hér á sínum tíma.
    Ég tel, frú forseti, ekki ástæðu fyrir mig að fara ítarlega út í þessa skýrslu. Hún skýrir sig sjálf. Starfsemi Evrópuráðsins tekur, eins og fram hefur komið, mikið mið af þróun mannréttindamála og lýðræðismála almennt í Evrópu og á vettvangi þess er fjallað um um einstaka þætti þessara mála. Nú er unnið að því af hálfu Evrópuráðsþingsins að fylgjast sérstaklega með því hvort hin nýju aðildarríki, sem gengið hafa í ráðið frá 1989, uppfylli hinar ströngu kröfur sem gerðar eru til stjórnarhátta í aðildarríkjunum og mælt er fyrir um í þeim sáttmálum sem þau hafa undirgengist. Þar eigum við Íslendingar einnig hlut að máli því að ýmsar stofnanir á vegum Evrópuráðsins hafa komið fram með athugasemdir um framkvæmd okkar á ýmsum mikilvægum sviðum mannréttindamála og félagsmála og hefur Alþingi tekist á við viðfangsefni af þeim sökum, m.a. við lagasetningu, og einnig í öðrum skýrslum um alþjóðamál sem liggja fyrir.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt lengra að sinni, en vísa til þeirrar skýrslu sem við höfum lagt fram og gerir grein fyrir störfum Íslandsdeildarinnar á síðasta ári.