Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:11:05 (4465)


[16:11]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér var í hug sama efni og hv. þm. Tómas Olrich kom að í sinni fyrirspurn varðandi hugsanlega aðild þessara Austur-Evrópuríkja, eða Mið-Evrópuríkja eftir því hvað við köllum þau, að Fríverslunarsamtökum Evrópu. Ég vil bæta við þá spurningu sem hann bar fram og hefur verið vikið að af ræðumanni. Það er einfaldlega þetta: Er það í raun svo auðvelt í framkvæmd þó hægt væri að ganga frá samningum sem gerðu þessum ríkjum kleift að verða aðili að EFTA eins og það var áður en EES varð til og eins og kannski má segja að það sé enn? Hið efnislega inntak þessara samtaka verður æ minna með tilkomu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og myndun þess svæðis. Er svo auðvelt að koma því fyrir, þó menn vildu, að tengja ríki Mið- og Austur-Evrópu við Fríverslunarsamtök Evrópu sem samtaka vegna m.a. málsmeðferðar EFTA að formi til á málefnum er varða Evrópskt efnahagssvæði sem mótspilara og aðra að tveimur meginsúlum sem samkvæmt formi samningsins um Evrópskt efnahagssvæði bera uppi upp samskiptin innan þess? Ég vildi gjarnan að hv. þm. véki aðeins betur að þessu.
    Í öðru lagi vildi ég spyrja þingmanninn: Hvernig metur hann framtíðarhorfur EFTA ef svo illa færi að Norðurlöndin þrjú eða færri bættust í hóp ríkja Evrópubandalagsins? Mér skilst að EFTA sé nú að færa miðstöðvar sínar í meira mæli til Brussel en áður var. Hvort það er undurbúningur undir andlátið eða ekki skal ósagt látið.