Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:14:00 (4466)


[16:14]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrri spurningu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar má segja að EFTA sé í rauninni tvö samtök. Annars vegar er það gamla EFTA, sem hefur allar þjóðirnar sjö, og hins vegar þjóðirnar fimm sem hafa ekki með Sviss og Liechtenstein. Ég hygg að það væri í sjálfu sér tiltölulega auðvelt að koma Austur-Evrópuþjóðunum inn í gamla EFTA og hlutverk gamla EFTA er í sjálfu sér ekki neitt, lögformlega eða skipulagslega, í EES-þættinum.
    Hins vegar er annað mál hvort þær þjóðir mundu á einhverjum tíma ef allt þetta gerist, við erum náttúrlega að tala um mjög stór ef, vilja komast í EES.
    Varðandi framtíðarhorfur EFTA ef frændur okkar á Norðurlöndum, þ.e. Norðmenn, Svíar og Finnar, ganga í Evrópubandalagið, þá sé ég ekki að EFTA sem slíkt hefði stórt hlutverk. Ég reikna með því að það mundi líklega liggja beinast við að leggja það niður. Þess vegna vaknaði einmitt spurningin um aðild Austur- og Mið-Evrópuþjóðanna að EFTA og hvort það mundi ekki gagnast okkur. Ég hygg að það mundi geta verið okkur mjög í hag að vera aðili að meginsamskiptavettvangi Evrópubandalagsins við þær þjóðir Evrópu sem standa utan þess. Og ef við tækjum ekki þátt í þessum samskiptavettvangi, þá mundum við einangrast enn þá meira en við mundum annars gera.