Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:20:01 (4469)

[16:20]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og þessa skýrslu, sem ég þakka fyrir, til þess að vekja máls á því hér í þinginu að á vettvangi utanríkismálanefndar Alþingis hefur verið unnið starf sem lýtur að framtíð EFTA og snertir þess vegna þá skýrslu sem hér liggur fyrir. Þar hefur verið til umræðu m.a. hvort það sé hugsanlegt að EFTA muni stækka á þann veg að þjóðir í Mið- og Austur-Evrópu gerist aðilar að EFTA. Einnig hefur verið rætt um það hver staða EFTA innan Evrópusamstarfsins verði í framtíðinni ef svo fer að fjögur EFTA-ríki gangi í Evrópusambandið eins og þau ætla sér með hliðsjón af þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir og eru að komast á lokastig. Ég vildi aðeins upplýsa það hér að um þetta hefur verið rætt og er rætt enn á vettvangi utanrmn. Mér finnst ekki ástæða til þess að skýra frá efnisatriðum þeirra umræðna á þessu stigi. Það verður væntanlega gert á síðari stigum. Nefndin hefur m.a. fengið til viðræðna við sig um þessi mál sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu, Hannes Hafstein, og sendiherra Íslands gagnvart EFTA, Kjartan Jóhannsson, og átt við þá mjög gagnlegar viðræður. Einnig kom þetta mál upp á fundi sem utanrmn. og EFTA-nefndin stóðu að í síðustu viku með fulltrúum frá Evrópuþinginu. Þar var á þetta mál minnst, framtíð EFTA, stækkun EFTA og einnig stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu ef EFTA-samstarfið liðast í sundur í þeirri mynd sem nú er.
    Hér er um málefni að ræða sem við þurfum að velta rækilega fyrir okkur og taka afstöðu til kannski fyrr en seinna. Þó eru allar tímasetningar óvissar, eins og menn vita, bæði með hliðsjón af samningunum sem standa yfir og einnig með hliðsjón af því að þau fjögur EFTA-ríki sem hér um ræðir taka ekki endanlegar ákvarðanir í þessu máli fyrr en að loknu þjóðaratkvæði í hverju aðildarríkjanna. Tíminn kann því að vera nokkur til að velta þessu fyrir sér en ekki er ráð nema í tíma sé tekið og þess vegna höfum við hafið þetta starf á vettvangi utanrmn. Ég taldi ástæðu til að vekja athygli á þessu undir þessum dagskrárlið.
    Ég vil einnig geta þess á þessum vettvangi að á vegum Alþingis hafa að frumkvæði utanrmn. verið mótaðar starfsreglur um meðferð EES-mála á mótunarstigi, sem svo er kallað, þ.e. þeirra málefna sem heyra undir EES-samstarfið og ekki falla undir þá viðauka 1.500 gjörða sem um var samið árið 1989 að yrðu hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið heldur þær tilskipanir og þær gerðir á vegum Evrópubandalagsins sem seinna koma.
    Ég get einnig skýrt frá því að þingmannanefnd EFTA gegnir mikilvægu hlutverki í því starfi, bæði sem álitsgjafi og einnig sem tengiliður við EES-samstarfið. Ég tel að það verði e.t.v. mikilvægari þáttur í starfi þessarar þingmannanefndar á komandi tímum en nú er að sinna þessu tengistarfi við þingmenn í Evrópuþinginu og við þá aðila á vettvangi EES-samstarfsins sem við þurfum að hafa samband við til þess að geta nýtt okkur sem best þátttökuna í því samstarfi og einnig átt hlut að töku ákvarðana á þeim vettvangi.
    Þess má geta að fyrsta málið sem hefur komið til þingsins og varðar mótunarferlið, ef þannig mætti að orði komast, hefur þegar komið til utanrmn. og hefur verið sent allshn. Alþingis. Allshn. hefur fjallað

um það, kallað til sín fulltrúa úr ráðuneytum og einnig í þessu tilviki formann Lögmannafélags Íslands og fengið hjá honum álit á þessu viðfangsefni sem snertir starfsréttindi lögmanna á öllu EES-svæðinu. Og ég held að nefndarmenn í allshn., sem fjölluðu um þetta mál á fundi sínum í gær, hafi verið sammála um að eins og málið var lagt fyrir var það á því stigi að það gafst tækifæri til þess fyrir Alþingi og alla sem að því koma að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum ef ástæða hefði þótt til þannig að málið var lagt fyrir á algeru frumstigi í þessu ferli. Ég tel að þingnefndir fái hér nýtt tækifæri til þess að sinna Evrópumálum og eigi að nýta sér þetta tækifæri. Ég tel mjög mikilvægt að við störfum í samræmi við þær reglur sem settar hafa verið og þar gegnir þingmannanefnd EFTA mikilvægu hlutverki.
    Frú forseti. Ég vildi koma þessu á framfæri við þessar umræður til að upplýsa þingheim allan um hvernig að þessum málum er staðið og hvernig að þeim er unnið á vettvangi utanrmn. því hér er um málefni að ræða sem við höfum oftar en einu sinni rætt í þingsalnum og velt fyrir okkur hvernig að skuli standa á vettvangi þingsins. Um þessar starfsreglur náðist góð sátt innan utanrmn. og einnig á vettvangi forsn. og í þingflokkum að því er ég best veit. Við höfum því hér mótað okkur starfsramma þar sem þingmannanefnd EFTA á hlut að.
    Varðandi hins vegar það viðhorf og þau sjónarmið sem fram hafa komið um stækkun EFTA og hafa verið hér til umræðu undir þessum dagskrárlið þá vil ég aðeins láta það sjónarmið koma fram að það er alveg augljóst að hvar sem við drepum niður fæti er okkur Vestur-Evrópubúum mikill vandi á höndum þegar við veltum því fyrir okkur hvernig við eigum að haga tengslum okkar við ríkin í Mið- og Austur-Evrópu og hvað við eigum að ganga til náins samstarfs við þau. Við ræddum um öryggismálin fyrr í dag og nú ræðum við um þennan þátt samstarfs Evrópuþjóðanna og í báðum tilvikum gætir þess sjónarmiðs að ekki sé nein einföld lausn til á því hvernig að þessu samstarfi skuli staðið. Ég minni aðeins á að þarna kann viðhorf Evrópusamstarfsins að ráða miklu. Á sínum tíma, 17. jan. 1989, flutti Jacques Delors, þáv. framkvæmdastjóri og núv. forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræðu á Evrópuþinginu og mælti fyrir um það hvernig háttað skyldi samstarfi EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið og til þess var gengið í samræmi við hans yfirlýsingar. Við höfum nú gert samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og það er spurning hvort nýjar slíkar ábendingar komi frá Evrópusambandinu um samskiptin við þau ríki í Evrópu sem ekki kjósa aðild að þeim samtökum. Þá hljótum við Íslendingar að þurfa að bregðast við því eins og aðrar Evrópuþjóðir og velta fyrir okkur stöðu okkar á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem við höfum gert. Frumkvæðið er því ekki einungis í okkar höndum að þessu leyti heldur hljótum við að taka mið af því sem lýst er yfir af öðrum þjóðum og mér finnst að við eigum ekki á þessu stigi að útiloka neitt í því sambandi heldur velta fyrir okkur öllum kostum og mér sýnist á þessari skýrslu að það sé gert á vettvangi þingmannanefndar EFTA.