Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 18:02:52 (4482)


[18:02]
     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. félmrh. að hér er ekki um lögbundna skyldu til aðildar að stéttarfélögum að ræða heldur er þetta í kjarasamningum. Engu að síður eru gerðar athugasemdir við þetta á þessum vettvangi sem hér er til umræðu. Þeim mun síður skil ég þegar forustumenn í verkalýðshreyfingunni eru að gagnrýna þá sem halda því fram að það beri ótvírætt að hafa skilgreindan rétt í íslenskri löggjöf og í stjórnarskrá fyrir fólk til þess að standa utan félaga. Mér finnst það mjög einkennileg viðbrögð hjá fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar þegar þeir bregðast þannig við þessum sjónarmiðum að þeir leggjast alfarið gegn því. Ef ekki er um lagaskyldu að ræða til að gera slíka samninga, eins og fram hefur komið í máli hæstv. félmrh., er með öllu ástæðulaust fyrir forráðamenn verkalýðshreyfingarinnar að bregðast þannig við hugmyndum um að breyta t.d. 73. gr. stjórnarskrárinnar eða gera aðrar ráðstafanir til að þessi réttur sé ótvíræður að íslenskum lögum eins og um einhverja aðför að verkalýðshreyfingunni sé að ræða.
    En því miður hefur þess gætt og ég varpaði því fram að á þessari ráðstefnu sl. sumar kom fram mjög sterk viðvörun, ef ég má orða það svo, frá lögfræðingi Alþýðusambandsins gagnvart Alþingi að ef menn ætluðu eitthvað að fara að hrófla við þessu, þá væri verkalýðshreyfingunni að mæta. Mér finnst að slíkur ótti af hálfu verkalýðshreyfingarinnar sé ástæðulaus því að ég er sammála hæstv. félmrh. um það að löggjafinn hefur í sjálfu sér ekki mælt fyrir um þetta heldur er um ákvæði í kjarasamningum að ræða. Og ég vil taka undir þau hvatningarorð hæstv. félmrh. að aðilar vinnumarkaðarins, sem koma að þessari vinnu á vettvangi Evrópuráðsins, á vettvangi sérfræðinganefndarinnar, hugi vel að sínum málstað í þeim viðræðum og gæti þess vel að rök þeirra stangist ekki á við almennar hugmyndir manna um almenn mannréttindi um alla Evrópu.
    Við munum það að á sínum tíma þegar þessi mál voru til umræðu á vettvangi sérfræðinganefndarinnar, ef ég man rétt frekar en embættismannanefndarinnar, þá sá þáv. forseti Alþýðusambandsins og lögfræðingar hans ástæðu til þess að rífa sig upp úr erfiðum viðræðum í launamálum og fljúga með einkavél til Strassborgar til þess að halda fram málstað Alþýðusambandsins fyrir hópi sérfræðinga og til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég er eindreginn talsmaður þess að þessi frjálsu félagasamtök líti á málefni sín og rök í þessu máli í ljósi þeirrar réttarþróunar sem við höfum gert að umtalsefni og kysi að sjálfsögðu helst að það gerðist í góðri sátt í þjóðfélaginu að breytingar yrðu þannig að við þyrftum ekki að sitja undir ámæli af þessum sökum.
    Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði áður. Hér er um málefni að ræða sem er samningsmál en einnig löggjafarmál að því er varðar túlkun á 73. gr. stjórnarskrárinnar eins og vikið hefur verið að og að því málum þurfum við e.t.v. að huga á Alþingi.