Gerð flugmálaáætlunar

98. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:05:12 (4483)


[15:05]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Á fundi samgn. þann 10. nóv. sl. óskaði ég eftir því við formann samgn. og flugmálastjóra sem þar var staddur að samgn. gæfist kostur á að kynna sér áform flugráðs hvað varðar flugmálaáætlun áður en hún væri sem næst fullmótuð. Síðan hef ég á fundum samgn. ítrekað borið fram þessa ósk án þess að við henni hafi verið orðið.
    Nú heyrum við þingmenn og lesum í fréttum að í nýrri flugmálaáætlun sem kynnt er fréttamönnum á undan þingnefnd og þingmönnum sé m.a. ákveðið að leggja niður nokkra flugvelli sem gegnt hafa mikilsverðu þjónustu- og öryggishlutverki árum saman.
    Virðulegi forseti. Ég hefði trúlega að öllu eðlilegu átt að biðja um utandagskrárumræðu um þetta mál. En það er erfitt um vik þegar fréttirnar berast þingmönnum aðeins í gegnum fjölmiðla. Annars mun trúlega þó verða óhjákvæmilegt að taka málið upp á þeim vettvangi. Hv. þm. Egill Jónsson, formaður landbn., sagði þegar fréttamaður var að ræða við hann um störf og vinnulag vegna búvörulaga að menn hefðu búið við smákóngaveldi en Alþingi væri nú að styrkja stöðu sína.
    Virðulegi forseti. Mér er spurn: Eru vinnubrögð Flugmálastjórnar við gerð flugmálaáætlunar í þeim anda sem breytingar á þingsköpum frá árinu 1991 fólu m.a. í sér, þ.e. það markmið að styrkja stöðu þingnefnda við meðferð mála á Alþingi?