Skráning notaðra skipa

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:23:50 (4492)


[15:23]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er hreyft máli sem þegar hefur komið á dagskrá og verið á dagskrá þessa þings og ég minni á að það liggur tillaga fyrir þinginu að opna fyrir mögulega íslenska skráningu fiskiskipa sem ekki hafa veiðileyfi í innlendri lögsögu. Ég tel að slík skráning, B-skráning fiskiskipa gætum við kallað það, ætti að vera í tveimur flokkum. Annars vegar sá flokkur fiskiskipa sem úreltur er út úr íslenska flotanum og hefur ekki lengur veiðileyfi í innlendri lögsögu en er áfram á íslenskri skipaskrá og svo þá undirflokkur, B-2 eða eitthvað því um líkt, sem væru skip sem keypt eru gagngert til veiða á alþjóðlegum hafsvæðum en tengjast Íslandi og eru gerð út héðan.
    Það þarf ekki að tíunda það að það hefur marga kosti í för með sér að ná slíkum skipum inn á íslenska skipaskrá. Það tryggir réttarstöðu og kjör sjómanna. Það tryggir að aflareynslan færist Íslandi til tekna. Það tryggir að öryggismál eru í réttu horfi og eftir íslenskum reglum og það tryggir í fjórða lagi og er það ekki minnst um vert í mínum huga að íslensk yfirvöld hafa möguleika á að hafa áhrif á sókn þeirra skipa og tryggja að þau séu í samræmi við góðar hefðir hvað varðar umgengni við auðlindina.