Sjálfvirkur sleppibúnaður um borð í skipum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:30:27 (4495)


[15:30]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Á umliðnum árum hafa sjóslys hér við land verið þess valdandi að fjölmargir aðilar hafa lagt út í það að útbúa ýmsan búnað til þess að tryggja enn betur öryggi sæfarenda en verið hefur. Það má segja að það hafi gerst líka á árunum áður þegar hinn svokallaði sjálfvirki sleppibúnaður fyrir gúmmíbjörgunarbáta var settur um borð í skip. Þá voru einkum tveir aðilar sem þróuðu þann búnað og virtist mönnum að þarna væri komin nokkuð góð lausn á þann öryggisþátt sem hafði vantað, þ.e. sjálfvirkan sleppibúnað fyrir gúmbáta.
    Nú var það svo að nokkur krankleiki kom upp í þessum búnaði og sýndist þar mönnum sitthvað um og fannst mönnum að það öryggi sem menn töldu að væri með þessum sjálfvirka sleppibúnaði væri ekki eins og sýndist. Það leiddi hins vegar til þess, eins og kemur fram í minni fsp. til samgrh., að ákveðið var að Iðntæknistofnun mundi taka þennan sjálfvirka sleppibúnað til frekari athugunar sem var þá framleiddur bæði í Vestmannaeyjum og hér suður með sjó. Það voru tvenns konar tegundir, annars vegar svokallaður Ólsenbúnaður og Sigmundsbúnaður.
    Það gerðist 1988 að Iðntæknistofnun tók þennan öryggisbúnað til skoðunar og vita menn ekki frekar hvað eiginlega dvelur orminn langa í þessari athugun í svo mikilvægu öryggismáli sem þessi sjálfvirki sleppibúnaður er. Eitthvað hefur þó heyrst um það að Siglingamálastofnun hafi enn fremur tekið þennan búnað til skoðunar, fengið líka niðurstöður Iðntæknistofnunar og smíðað reglugerð í framhaldi af því. Þess vegna tel ég að það sé mjög nauðsynlegt að fá svar frá samgrh. hvað líði þessu brýna öryggismáli sjómanna.