Bætur vegna samninga um riðuveiki

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:45:22 (4501)


[15:45]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin en ég er ekki hress með undirtektirnar að því er varðar svar við 3. lið þar sem ég skildi það sem höfnun af hálfu hæstv. ráðherra og ráðuneytis hans við því að fara yfir þessi mál heildstætt. Ég hafði ekki farið fram á það eða ætlast til þess að það væri gert yfir þrettán ára tímabil heldur fyrst og fremst yfir þessi fyrstu ár þegar meðferð mála var mjög mismunandi og breytileg frá ári til árs og afar erfitt fyrir viðkomandi bændur að átta sig í raun á réttarstöðu sinni.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra --- ítreka spurningu til hans --- hvort hann væri ekki reiðubúinn til

að líta á þetta tímabil sérstaklega. Og ef ekki er ráðrúm til heildstæðrar endurskoðunar þá a.m.k. að ráðuneytið sé reiðubúið til að líta á mál sem fram væru borin af einstökum bændum sem teldu sig hafa verið órétti beitta á þessu tímabili eða ekki getað leitað réttar síns vegna þess að þeir vissu í rauninni ekki hver rétturinn væri. Hvort ráðuneytið væri ekki reiðubúið að líta með velvilja á slík einstök tilvik ef menn ekki telja sig í stakk búna til að fara yfir málið í heild og draga einhverja almenna reglu um þessi mál.
    Ég vil nefna það að stjórn Búnaðarsambands Austurlands, sem hefur fengið dæmi um þessi efni, hefur reynt í einhverjum tilvikum að leita réttar í gegnum málaferli með ærnum tilkostnaði og telur sig eiga mjög örðugt með að vera að sækja þessi mál eftir dómstólaleiðinni vegna kostnaðar og vegna þess hvað um breytileg tilvik er að ræða á hverjum tíma. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra veiti úrlausn við þessari ítrekun minni og fyrirspurn um þetta því hér er sannarlega um réttlætismál gagnvart þegnunum að ræða sem í hlut eiga.