Bætur vegna samninga um riðuveiki

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:47:39 (4502)


[15:47]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er laukrétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að á þessum tíma og á öllum níunda áratugnum og raunar lengur var mikil --- ég veit ekki hvort ég á að segja ringulreið eða mjög breytilegar reglur um framleiðslurétt bænda frá einum tíma til annars og auðvelt að benda á einstök dæmi þess að einstakir bændur hafi farið illa út úr þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þessum árum á framleiðslurétti frá einum tíma til annars og við vitum raunar sorgleg dæmi um það að bændur hafa nánast orðið fyrir eignaupptöku af þessum sökum.
    Ég vil á hinn bóginn ítreka það sem ég sagði áðan. Ég veit ekki betur en að á hverjum tíma hafi bændur fengið greiðslur samkvæmt gildandi samningum. Það er ekki á fjárlögum gert ráð fyrir neinum sérstökum fjármunum í þessu skyni en á hinn bóginn færist ég ekki undan því að sérstök mál séu athuguð ef upp koma og auðvitað er landbrn. reiðubúið til að ræða þessi mál við Búnaðarsamband Austurlands.