Rekstur lóranstöðvarinnar að Gufuskálum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:04:10 (4508)


[16:04]
     Gísli S. Einarsson :

    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir fyrirspurnirnar. Varðandi þetta mál ætla ég ekki að halda því fram að ekki sé rétt að taka í notkun það nýja kerfi, GPS-kerfi, sem um er rætt. En ég velti því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að skoða það að viðhalda lóran C kerfinu sem varakerfi eins og er verið að gera í fjölmörgum nágrannalöndum okkar þar sem lóran C kerfið er hugsað sem varakerfi.
    Í öðru lagi vil ég vekja sérstaka athygli á því að það er verið að ræða um að leggja niður störf 10 manna sem eru fyrirvinnur jafnmargra fjölskyldna sem er samsvarandi og lögð væru niður störf 3.000 manna í Reykjavík. Ég hygg að þá yrði rekið upp ramakvein. Ég tel að svo mikil félagsleg röskun felist í þessu að ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur eitthvað verið gert varðandi þetta mál og í öðru lagi hvað með tekjumissi sveitarfélagsins?