Rekstur lóranstöðvarinnar að Gufuskálum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:07:19 (4510)


[16:07]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir að hreyfa þessu máli hér á hv. Alþingi. Ég tel að það hafi verið ærin ástæða til. Ég hef orðið var við það hjá sjómönnum að þeir hafa áhyggjur af því að lóran C kerfið verði lagt niður bæði vegna þess að GPS-kerfið sé hvergi nærri nógu öruggt og ekki síður vegna þess að þær upplýsingar sem þeir geyma í fórum sínum um veiðislóðir sem þeir leita á er þeir róa á miðin eru allar samkvæmt lórankerfinu og því getur það valdið þeim erfiðleikum við fiskveiðar ef þeir þurfa að skipta yfir í nýtt kerfi með stuttum fyrirvara eins og nú er.
    Ég þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir þá hugmynd sem hann kom fram með í umræðunum hér rétt á undan og tek undir hana og hvet hæstv. samgrh. til að athuga hvort ekki sé hægt að taka upp þann kost.