Rekstur lóranstöðvarinnar að Gufuskálum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:08:31 (4511)


[16:08]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær ábendingar sem hér hafa komið. Hér hefur komið fram að það er engin þjóð í Evrópu sem treystir eingöngu á GPS-kerfið og ég vil spyrja hæstv. samgrh.: Hvernig stendur á því að við, fiskveiðiþjóðin Íslendingar, erum eina þjóðin sem ætlar að treysta eingöngu á þetta kerfi? Ég vil líka spyrja hvað sé hugsað að gera við þau mannvirki sem eru á Gufuskálum. Það hefur verið um það rætt að jafna þau við jörðu. Þar eru tvær blokkir, nokkur einbýlishús og atvinnuhúsnæði. Mér finnst það liggja beinast við, ef svo fer að lóranstöðin verður lögð niður sem slík sem hefur komið fram hjá hæstv. samgrh. að verði gert, að tekin verði ákvörðun um að þessi hús verði þarna áfram en ekki rutt í burtu. Það er makalaust að nokkrum skuli detta í hug að leggja jafnvel hundruð milljóna í það að rústa þessum dýrmætu húsum og eignum.