Rekstur lóranstöðvarinnar að Gufuskálum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:11:29 (4513)


[16:11]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin sem hann gaf við fsp. minni.
    Samkvæmt svörum ráðherrans liggur það fyrir að stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að halda ekki áfram rekstri lóranstöðvarinnar. Hins vegar er á það að líta að samkvæmt svari hæstv. ráðherra má búast við því að öll stóru fiskiskipin sem sigla við landið muni væntanlega þurfa fullkomnasta búnaðinn til þess að geta nýtt sér GPS-kerfið og samkvæmt upplýsingum ráðherrans kostar það 500 þús. á hvert fiskiskip að geta nýtt sér þetta kerfi.
    Það kom einnig fram hjá hæstv. ráðherra að það er engin trygging fyrir því að við höfum ókeypis aðgang að GPS-kerfinu eftir árið 2003. Það er því verið að fjárfesta í búnaði til þess að nýta sér kerfi sem einungis er öruggur aðgangur að til ársins 2003. Ég tel að það sé alls ekki fullnægjandi fyrir fiskiskipaflotann á Íslandi að leggja út í þvílíkan kostnað án þess að hafa í lengri tíma öruggan aðgang að þessu nýja kerfi. Þess vegna vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. að ég tel alveg óhjákvæmilegt að hæstv. samgrh. skoði þetta mál að nýju og ég vil hvetja hann til þess að taka upp viðræður við útvegsmenn og fulltrúa smábáta í landinu og kanna hvaða möguleikar séu á því að koma þessum hlutum betur fyrir svo hægt verði að reka lóranstöðina enn um sinn og veita þá þjónustu sem ég tel alveg óhjákvæmilegt að hafa við landið.