Héraðsskógar

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:17:45 (4515)


[16:17]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Það hefur verið frekar hljótt um Héraðsskóga á hv. Alþingi síðustu missirin en þó hafa forsvarsmenn verkefnisins og skógarbændur á Héraði beðið nokkuð lengi eftir því að fram komi frv. til breytinga á lögum um Héraðsskóga, nr. 32/1991. Þar er um það að ræða að skv. 5. gr. laganna. eins og þau eru í gildi í dag greiðir ríkissjóður 97% samþykkts kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð en einungis 75% á eyðijörðum. Þetta hefur valdið því að eyðijarðir hafa orðið út undan sem veldur aftur því að ekki verður um samfelldan skóg að ræða og eins fara jaðrar skóga illa. Það er því mikill áhugi á því að þær eyðijarðir, sem að mati Skógræktar ríkisins eru nauðsynlegar til skógræktar frá skógræktarlegu sjónarmiði og frá hagsmunum skógræktar á aðliggjandi jörðum, njóti sömu fyrirgreiðslu og jarðir í ábúð.

    Nýlega ritaði framkvæmdastjóri Héraðsskóga, Helgi Gíslason, grein í Morgunblaðið sem bar yfirskriftina ,,Héraðsskógar skila sér`` en það eru nú fimm ár síðan héraðsskógaverkefni var hafið. Þar kom m.a. fram að gerðir hafa verið vel á sjötta tug samninga við bændur um skógræktarsvæði sem er samtals rúmir 5.000 hektarar að flatarmáli. Á árunum 1990 til 1993 voru gróðursettar tæpar 4 milljónir plantnanna á þessum jörðum og ætlast til að gróðursettar verði 1,4 milljónir plantna á árinu 1994. Það kemur einnig fram að afföll plantnanna eru 22% sem verður að teljast nokkuð gott ef borið er saman við stóra skógræktarþjóð eins og Svía þar sem 25% afföll eru talin eðlileg. Einnig hefði mátt reikna með meiri byrjunarörðugleikum við framkvæmdir þar sem öll vinnubrögð voru fyrir flesta ný af nálinni.
    En þó svo að í þessu tilfelli sé um einangrað verkefni að ræða sem tengist Héraði þá vonum við svo sannarlega að með tíð og tíma verði skógrækt að atvinnugrein víðar um land. Ég hef því leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. á þskj. 605 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum um Héraðsskóga á yfirstandandi þingi?``