Héraðsskógar

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:20:14 (4516)


[16:20]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Í gildandi lögum um Héraðsskóga, nr. 32 21. mars 1990, er ákvæði til bráðabirgða þess efnis að landbrh. skuli láta fara fram endurskoðun á lögunum og leggja fram frv. til laga um Héraðsskóga fyrir Alþingi haustið 1992. Í samræmi við þetta lagaákvæði lagði ég fram í ríkisstjórn í október 1992 frv. til breytinga á lögum um Héraðsskóga sem þar var samþykkt og sömuleiðis í þingflokki sjálfstæðismanna en dagaði á hinn bóginn uppi í þingflokki Alþfl. og var ekki afgreitt þar fyrr en um mánaðamótin mars/apríl eða svo seint að komið var fram yfir síðasta dag sem frumvörp yrðu lögð fram nema með sérstakri heimild.
    Í októbermánuði lagði ég þetta frv. fram að nýju í ríkisstjórninni. Það var þegar í stað samþykkt í ríkisstjórn. 7. okt. sl. var það samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. en situr enn óafgreitt í þingflokki Alþfl. Fyrrv. hæstv. umhvrh., Eiður Guðnason, var mjög andvígur efnisatriðum þessa frv. en mér er hins vegar ókunnugt um hvernig á því stendur að frv. skuli ekki ná fram að ganga nú.
    Spurt er hvort ég muni beita mér fyrir þeim breytingum á lögum um Héraðsskóga sem vikið var að hér af fyrirspyrjanda. Svarið er að ég hef fengið frv. þessa efnis samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. og í ríkisstjórninni í októbermánuði sl. en á hinn bóginn hefur frv. enn sem komið er strandað í þingflokki Alþfl.