Olíuhöfn varnarliðsins í Hvalfirði

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:34:23 (4524)


[16:34]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 580 leyfi ég mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. um nýtingu olíuhafnar varnarliðsins í Hvalfirði.
    Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umsvifum varnarliðsins hér á landi. Í Helguvík á Reykjanesi hefur hin mikla olíuhöfn verið fengin höfninni í Keflavík/Njarðvík til rekstrar. Í Hvalfirði eru hafnarmannvirki sérstaklega byggð fyrir olíuskip en eru sáralítið notuð. Mest af olíu sem flutt er til landsins er sett á land í olíubirgðastöðvum í Reykjavíkurhöfn við mesta þéttbýli landsins. Olía, bensín og aðrar olíuvörur eru síðan fluttar með skipum eða bílum til birgðastöðva vítt og breitt um landið.
    Öllum olíuflutningum fylgir veruleg hætta á mengun og því er nauðsynlegt að lestun og losun fari fram við bestu aðstæður. Því hafa ýmsir litið til aðstöðunnar í Hvalfirði, ekki síst ef það gæti orðið til þess að spara sérstaka olíuafgreiðsluaðstöðu í höfnum við Faxaflóa og ekki síður ef það gæti orðið til þess að draga úr flutningskostnaði vegna olíuflutninga um landið. Á sama hátt og Helguvíkurhöfnin varð hluti hafnarinnar Keflavík/Njarðvík gæti Hvalfjarðarhöfn þjónað í tengslum við Akranes- og Grundartangahöfn. Til þess að fá fram svör í þinginu hef ég lagt fram svofellda fyrirspurn til hæstv. utanrrh.:
    ,,Hvaða möguleikar eru til að nýta hafnaraðstöðu og búnað í Hvalfirði og dreifa þaðan olíu um Vestur- og Norðurland?``