Barnaklám

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:55:52 (4534)


[16:55]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér, sem gefa til kynna að hann ætlar að beita sér í þessu máli og ráðuneytið. Það er nú einu sinni svo að það sem við verðum vör við að nágrannar okkar og frændur á Norðurlöndum eru farnir að líta á sem vandamál kemur líka hingað þó að það sé kannski örfáum árum síðar. Mér er kunnugt um að í Svíþjóð veldur það erfiðleikum að taka málið fyrir að sænska stjórnarskráin kveður á um að ekki sé hægt að banna orð og myndir og virða skuli prentfrelsi og skoðanafrelsi. Sænskir þingmenn hafa hins vegar látið þá skoðun í ljósi að stjórnarskrárákvæði geti ekki orðið til þess að stoppa mál sem þetta heldur verði þá bara að breyta stjórnarskránni.
    Ég hef aðeins skoðað þetta í íslensku stjórnarskránni til að reyna að átta mig á því hvort ákvæði hennar geti orðið okkur einhver fjötur um fót. Ég nefni t.d. 66. gr. en þar er kveðið á um friðhelgi heimilisins og 67. gr. um friðhelgi eignarréttar, en í báðum greinunum er svo mælt að réttindi þessi megi takmarka með lögum. Einnig má nefna 72. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um tjáningarfrelsi, sem tengist þessu einnig. Þar segir m.a. að ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi megi aldrei í lög leiða. Þetta er því sjálfsagt eitt af því sem verður skoðað af hálfu hæstv. dómsmrh. eða ráðuneytisins, hvort þarna séu ákvæði sem gætu orðið okkur fjötur um fót við það að setja í lög ákvæði sem bókstaflega koma í veg fyrir að heimilt sé að hafa efni sem þetta undir höndum. Það er ekkert annað en óeðli að geta haft einhverja ánægju af því að skoða þetta efni og við eigum bara að vera menn til þess, Íslendingar, að setja í lög ákvæði sem banna það.